Lýðheilsuvísar 2023 kynntir
20. september 2023
Lýðheilsuvísar eftir heilbrigðisumdæmum á Íslandi 2023 voru kynntir í áttunda sinn í Reykjavík þann 14. september 2023.
Alma D. Möller landlæknir ávarpaði fundinn og talaði um áskoranir í heilbrigðisþjónustu sem eru m.a. aukin eftirspurn, skortur á starfsfólki og flóknara umhverfi. Til þess að mæta þessum áskorunum þarf að efla lýðheilsu og forvarnir sem miða að því að viðhalda og bæta heilbrigði fólks og koma í veg fyrir sjúkdóma eins og kostur er auk þess að nýta heilbrigðiskerfið skynsamlega. Í þessu samhengi ræddi Alma um áhrifaþætti heilbrigðis og heilsueflandi nálganir sem embættið stýrir; Heilsueflandi samfélag, Heilsueflandi leik-, grunn- og framhaldsskólar og Heilsueflandi vinnustaðir. Þá sagði landlæknir frá því að nú eru í fyrsta sinn birtir lýðheilsuvísar fyrir fjölmennustu sveitarfélögin til viðbótar við heilbrigðisumdæmi. Þá hafa allir vísar sem gefnir hafa verið út frá upphafi fyrir heilbrigðisumdæmin verið gerðir aðgengilegir í gagnvirkri birtingu á vef embættisins.
Gildi lýðheilsuvísa í starfi sveitarfélaga
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fjallaði um gildi lýðheilsuvísa fyrir starf sveitarfélaga. Í máli Dags kom fram að gagnasöfnun á borð við lýðheilsuvísa hjálpuðu til við markmiðasetningu og stefnumótun og stuðluðu þannig að betra samfélagi. Einnig kom hann inn á mikilvægi borgarskipulags fyrir líðan íbúa og ýmsa áhrifaþætti heilsu, s.s. ójöfnuð, en unnið hefur verið að greiningu á ójöfnuði í Reykjavíkurborg.
Dagur sagðist eiga sér þá von að í framtíðinni verði hægt að para saman gögn úr ýmsum áttum, þar á meðal lýðheilsuvísa, til að greina hvernig ýmsir áhrifaþættir hafa bein áhrif á lífslengd, lífsgæði og líðan. Dagur fagnaði því fyrir hönd borgarinnar að nú væru lýðheilsuvísar birtir fyrir stærstu sveitarfélögin til viðbótar við heilbrigðisumdæmi. Einnig nefndi hann mikilvægi þess fyrir borgina að skoða lýðheilsuvísa nánar eftir svæðum og borgarhlutum.
Lýðheilsuvísar tengdir samfélaginu og heilsu og sjúkdómum
Sigríður Haraldsd. Elínardóttir, sviðsstjóri heilbrigðisupplýsingasviðs, kynnti vísa sem tengjast samfélaginu sem og heilsu og sjúkdómum. Af samfélagsþáttum sem tengjast heilsu ber fyrst að nefna menntun en fjölmargar rannsóknir hafa sýnt jákvæð tengsl menntunar og heilsu. Almennt aðgengi að góðri menntun jafnar tækifæri fólks með margvíslegum hætti og hefur jákvæð áhrif á heilsu og lífsgæði. Þegar skoðað er hlutfall þeirra sem lokið hafa háskólamenntun sést munur milli karla og kvenna, heilbrigðisumdæma og sveitarfélaga. Árið 2022 höfðu tæplega 28% karla á landinu öllu lokið háskólaprófi en ríflega 43% kvenna. Hlutfall háskólamenntaðra karla og kvenna er hæst á höfuðborgarsvæðinu og vel yfir landsmeðaltali. Hlutfallið er talsvert undir landsmeðaltali í öllum landsbyggðarumdæmunum.
Samkvæmt Sigríði mátu marktækt fleiri fullorðnir líkamlega og andlega heilsu sína sæmilega eða lélega árið 2022 miðað við þrjú árin þar á undan. Ef á heildina er litið meta marktækt færri líkamlega heilsu sína sæmilega eða lélega á höfuðborgarsvæðinu samanborið við landið í heild en marktækt fleiri í landsbyggðarumdæmum. Minni munur er á umdæmum þegar kemur að mati á andlegri heilsu.
Notkun þunglyndislyfja dróst lítillega saman á landinu í heild milli áranna 2021 og 2022 og er það í fyrsta sinn sem greina má samdrátt í notkun þunglyndislyfja frá því lýðheilsuvísar litu fyrst dagsins ljós árið 2016. Notkunin dróst saman eða stóð í stað í öllum heilbrigðisumdæmum.
Sigríður greindi frá því að sykursýki væri einn af fjórum stóru flokkum langvinnra sjúkdóma sem valda hvað mestri sjúkdómsbyrði. Sýnt hefur verið fram á að koma má í veg fyrir stóran hluta tilfella sykursýki af tegund II með mataræði og hreyfingu, en um 85-90% sykursjúkra eru með þá tegund. Ekki liggja fyrir upplýsingar um algengi sykursýki eftir búsetusvæðum á Íslandi, en notkun blóðsykurslækkandi lyfja annarra en insúlíns, sem notuð eru við sykursýki af tegund II, gefa hins vegar vísbendingar um tíðni sjúkdómsins. Þannig hefur notkun blóðsykurslækkandi lyfja aukist á landinu í heild og í nánast öllum heilbrigðisumdæmum, einkum á síðustu þremur árum, sem gefur vísbendingu um aukna tíðni sjúkdómsins og tengdra áhrifaþátta.
Loks greindi Sigríður frá því að árið 2022 greindu 7,4% einstaklinga frá að þeir hefðu ekki leitað læknis á síðustu 12 mánuðum vegna þess að þeir höfðu ekki efni á því. Hlutfallið er lægst á Vesturlandi, 2,8% og hæst á Suðurnesjum, 10,3%.
Lýðheilsuvísar tengdir líðan og lifnaðarháttum
Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri lýðheilsusviðs, kynnti vísa tengda líðan og lifnaðarháttum. Í erindi Dóru kom fram að enn eitt árið dregur úr hamingju fullorðinna en hlutfall mjög hamingjusamra er núna 55% en var 61% árið 2016. Hamingja er mikilvæg fyrir samfélagið, lækkun um eitt stig á hamingjukvarða (1-10) kostar samfélagið rúmlega 2 milljónir á ári fyrir hvern einstakling og því mikilvægt að huga betur að því hvernig stuðla má að aukinni hamingju og velsæld í samfélaginu. Ein af skýringunum fyrir minnkandi hamingju gæti verið að finna í auknum einmanaleika en hann hefur vaxið jafnt og þétt síðan mælingar hófust árið 2016. Þá voru 11% ungs fólks á aldrinum 18-34 ára sem upplifði oft eða mjög oft einmanaleika samanborið við 18% í síðustu mælingu árið 2022.
Fram kom í máli Dóru að hlutfall nemanda í 10. bekk sem finnur fyrir kvíða daglega er 23%. Þetta er ekki mæling á kvíðaröskun heldur hlutfall þeirra sem upplifa tilfinninguna kvíða hér um bil daglega. Þó ekki sé um kvíðaröskun að ræða þá er mikilvægt að skoða hvað veldur og hvernig má lækka þetta hlutfall.
Jákvætt er að rúm 86% ungmenna í 8.-10. bekk eiga auðvelt með að fá tilfinningalegan stuðning og hjálp frá fjölskyldunni sinni. Mikilvægt er þó að huga að hinum 14% sem ekki fá stuðning frá fjölskyldu.
Einungis um helmingur sex ára barna tekur lýsi eða D-vítamín og er það svipað hlutfall og síðustu ár. Mikilvægt er að minna foreldra/forráðafólk að gefa börnum sínum D-vítamíngjafa.
Rúmur þriðjungur fullorðinna sögðust borða heilkornavörur daglega eða oftar árið 2022 en ráðlagt er að borða heilkornavörur tvisvar á dag (70 grömm á dag). Nokkur munur er á neyslu heilkornavara á milli heilbrigðisumdæma og er hlutfallið hæst á Vestfjörðum, 46,4%, en lægst á Vesturlandi, 31,7%.
Rúmlega helmingur barna í 4. bekk neytti gosdrykkja 1-2 sinnum í viku árið 2022. Rannsóknir sýna fylgni gosdrykkjaneyslu við langvinna sjúkdóma, þyngdaraukningu og tannskemmdir. Hér á landi eru gos- og orkudrykkir undanþegnir hefðbundnum virðisaukaskatti, sem fer þvert gegn öllum lýðheilsuráðleggingum.
Rúmlega 20% barna í 10. bekk hreyfir sig daglega. Nokkur munur er milli heilbrigðisumdæma þar sem Vestfirðir skera sig úr en þar eru hlutfallið 40%. Um 66% nemenda í 7. bekk, ganga eða hjóla í skólann. Nokkur munur er eftir heilbrigðisumdæmum þar sem hlutfallið er hærra í meiri þéttbýli.
Hlutfall fullorðinna sem stundar litla rösklega hreyfingu er 25% á landsvísu. Yfir helmingur fullorðinna segist vera að reyna að létta sig og hefur þetta hlutfall lítið breyst milli ára.
Árið 2022 féll tæpur fjórðungur Íslendinga (24%) undir þá skilgreiningu að vera með skaðlegt neyslumynstur áfengis eða stunda svokallaða áhættudrykkju, 27% karla og 21% kvenna. Nokkur aukning hefur því orðið í áhættudrykkju milli ára, hvort sem litið er til heildarinnar eða þegar greint er eftir aldurshópum og kyni. Sé þetta hlutfall heimfært upp á þjóðina alla má gera ráð fyrir að um 33 þúsund karlar og 25 þúsund konur hafi verið með skaðlegt neyslumynstur áfengis árið 2022. Vert er að geta þess að samkvæmt nýjustu rannsóknum eru þekkt mörk um skaðleysi áfengis ekki til og því má halda því fram að öll áfengisdrykkja sé skaðleg þótt hér sé fjallað um skaðlegt neyslumynstur.
Um 15% nemenda í 10. bekk hefur notað nikótínpúða á landsvísu en hlutfallið er mun hærra í sumum umdæmum. Á Vesturlandi og Suðurlandi er hlutfallið 21% og á Austurlandi 25%. Mikilvægt er að skoða hvað veldur og hvernig megi draga úr þessari notkun. Þegar aldurshópurinn 18-34 ára er skoðaður hækkar hlutfallið í 23% á landsvísu en Norðurland og Austurland eru með hæsta hlutfallið 30%.
Í ár er í fyrsta sinn birtur lýðheilsuvísir um mismunun. Samkvæmt honum hafa 13% fullorðinna orðið fyrir einhvers konar mismunun. Þá eru konur mun líklegri til að verða fyrir mismunun, 16% samanborið við 9% karla. Sama kynjamun má sjá þegar kemur að kynferðisofbeldi, um 24% kvenna segjast hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi en 9% karla. Sláandi niðurstöður má einnig finna í nýjum vísi um kynferðisofbeldi af hálfu jafnaldra, þar greina 11% stúlkna í 8.-10. bekk frá því að hafa orðið fyrir alvarlegu kynferðisofbeldi (munnmök eða samfarir gegn vilja) af hálfu annars unglings.
Lýðheilsuvísar og starf Heilsueflandi samfélags
Gígja Gunnarsdóttir fjallaði um lýðheilsuvísa í starfi Heilsueflandi samfélags. Hún sagði stuttlega frá starfinu sem hefur það meginmarkmið að styðja sveitarfélög, skóla og vinnustaði í að vinna markvisst að því að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra. Þróað hefur verið vefkerfi með gátlistum sem aðstoða tengiliði og stýrihópa heilsueflandi starfs til að greina stöðuna, vinna að úrbótum og meta framvinduna hvað varðar umhverfi og aðstæður. Lýðheilsuvísar nýtast svo, ásamt ýmsum öðrum vísum og gögnum, til að greina stöðuna hvað varðar lifnaðarhætti, heilsu og líðan o.fl. Gígja sagði kærkominn áfanga að lýðheilsuvísar væru nú í fyrsta sinn gefnir út í heild sinni fyrir níu fjölmennustu sveitarfélögin og útskýrði af hverju væri að óbreyttu ekki mögulegt að gera það sama fyrir öll sveitarfélögin þó sannarlega væri vilji til þess. Hún ítrekaði það sem kom fram í fyrri erindum að þó svo að samanburður við önnur svæði geti verið gagnlegur væri mikilvægast að hvert og eitt sveitarfélag rýni lýðheilsuvísana og túlki stöðuna út frá þekkingu á sinni heimabyggð hverju sinni. Aðstæður geti verið svo ólíkar á milli og einnig innan sveitarfélaga. Einnig þurfi m.a. að spyrja sig hvort staðan sé ásættanleg þó svo að hún virðist vera góð/best í samanburði við aðra.
Næstu skref eru m.a. frekari kynning fyrir tengiliði Heilsueflandi samfélags á næstunni og miðla vísunum til fleiri sveitarfélaga eftir því sem gögnin leyfa. Áfram verður leitað leiða til að efla gögnin, samræma og samþætta þannig að starfið nýtist sem best fyrir sveitarfélögin.
Harpa Þorsteinsdóttir, verkefnastjóri lýðheilsumála hjá Reykjavíkurborg, stýrði fundinum.