Þjórsárdalur

Almennt um skóginn
Þjóðskógurinn í Þjórsárdal er í landi Skriðufells og Ásólfsstaða. Náttúrleg umgjörð skógarins fylgir fjölbreyttu landslagi þar sem mætast miklar andstæður, allt frá blómlegum skógum að ógrónum öskuflákum úr Heklu sem þó eru smám saman að klæðast birki á ný. Skógurinn er að mestu birkikjarr, auk blandskóga af greni, furu og lerki. Kjörinn staður til útivistar, enda er í skóginum fjöldi merktra og ómerktra stíga og skógarvega.

Staðsetning og aðgengi
Þjóðskógurinn í Þjórsárdal er vestan við þjóðveg 32 í Þjórsárdal og nær upp með daðnum þangað sem vegurinn fer að sveigja til austurs í átt að Búrfellsvirkjun. Hægt er að komast í skóginn af afleggjaranum að Ásólfsstöðum og einnig um göngubrú yfir Sandá spölkorn innar í dalnum. Tjaldsvæðið í Þjórsárdal er þar á milli og er vel merkt.
Aðstaða og afþreying
Í Þjórsárdal teygir skógur sig langt upp í hlíðar, landslag er fagurt, fjölbreytt og sannkallaður ævintýrabragur er á því. Í skóginum eru fjölmargir merktir og ómerktir stígar og slóðar til umferðar fyrir ferðalanga og göngugarpa, ár til að sulla í og hraun til að skoða. Á svæðinu eru stígar færir hjólastólum, góð tjaldstæði og sundlaug er í Árnesi um 15 kílómetrum neðar í sveitinni. Stutt er úr skóginum að Hjálparfossi, Þjóðveldisbænum og rústum fornbýlisins að Stöng. Þaðan má gagna upp með Fossá alla leið að Háafossi (122 m). Þá er einnig örstutt úr Þjórsárdal upp á hálendið.


Saga skógarins
Þjórsárdalur er austasti dalur Árnessýslu. Eftir honum renna Sandá og Fossá en Þjórsá fellur í dalsmynnið. Dalurinn er að mestu þakinn hrauni og vikri en talið er að mikill skógur hafi verið í honum öllum við landnám. Byggð í dalnum er talin hafa að mestu eyðst í Heklugosi árið 1104 en fundist hafa minjar um 20 bæi. Mikill hluti skógarins lifði gosið þó af og höfðu flestir bæir Árnessýslu og jafnvel víðar skógartekju um árhundruð í Þjórsárdal. Mestir birkiskógar voru eftir í Skriðufelli og á Ásólfsstöðum. Svo fór að skóglendið hvarf að mestu vegna rányrkju. Uppblástur geisaði í dalnum og var ekki óalgengt langt fram eftir 20. öld að moldrok úr Þjórsárdal bærist langar leiðir um Suðurland og byrgði sýn á Selfossi og víðar. Skógræktin keypti Skriðufell í Þjórsárdal árið 1938 og hluta úr jörðinni Ásólfsstöðum árið 1962. Þökk sé uppgræðslu- og skógræktarstarfi heyrir nú sögunni til að skyggni sé takmarkað vegna moldroks í Þjórsárdal. Myndirnar tvær hér að ofan sýna breytinguna á vikrum Þjórsárdals vestan Sölmundarholts frá 2003 til 2024.

Trjárækt í skóginum
Eftir friðun hafa birkiskógar breiðst út frá þeim 200 hekturum skógar sem voru til staðar árið 1939 og yfir meira en 600 hektara nú. Gróðursett var innan um kjarrið í Þjórsárdal fram undir 1990 en eftir það var farið að fikra sig með gróðursetningu niður á sandana. Grisjun fyrstu gróðursettu reitanna er farin að skila umtalsverðum tekjum með sölu viðarins, enda vöxtur trjáa góður í Þjórsárdal. Land og skógur rekur sögunarmyllu í starfstöð sinni að Skriðufelli. Skógrækt á söndum Þjórsárdals er nú hluti Hekluskógaverkefnisins sem er eitt hinna svokölluðu Bonn-verkefna. Hugmyndin með verkefninu er að endurheimta birkiskóga og víðikjarr í nágrenni Heklu. Sá gróður myndi minnka vikurfok í kjölfar gjóskugosa úr eldfjallinu og verja þar með land í nágrenni fjallsins fyrir jarðvegseyðingu. Skógur þolir umtalsvert öskufall sem legði skóglaust land í auðn. Með skógrækt má því minnka að mun áhrif öskugosa á gróðurþekju í nágrenni eldfjalla.
Nánari upplýsingar má finna á vef Hekluskógaverkefnisins

Annað áhugavert
Þriðji hæsti foss landsins, Háifoss í Fossá (122 m), fellur innst í dalnum. Annar þekktur foss, Granni, fellur fram af sömu bjargbrún við hlið Háafoss. Mun neðar í Fossá er síðan Hjálparfoss sem er tvískiptur foss í kvos einni á móts við Búrfell. Land og skógur hefur umsjón með umhverfi Hjálparfoss og hefur þar verið unnið að umfangsmiklum landbótum, gerð stígamannvirkja og annarrar aðstöðu til að staðurinn þoli sívaxandi ferðamannastraum. Bærinn að Stöng var grafinn upp árið 1939. Reist var skýli yfir rústirnar sem nýlega var endurgert svo hægt er að gera sér í hugarlund hvernig eldstæði og annað innan stokks leit þar út á söguöld. Þjóðveldisbærinn sem reistur var í tilefni 1100 ára byggðar í landinu 1974, stendur við Búrfellsvirkjun og er tilgátubær út frá minjunum að Stöng.
Talsverð uppbygging hefur verið í gangi á aðstöðu fyrir ferðafólk í Þjórsárdal, til dæmis á baðstanðum Fjallaböðum, þjónustumiðstöð og gistingu. Jafnframt hefur verið unnið að bættri og aukinni merkingu gönguleiða, áfangastaða og reiðleiða.


