Jafnréttisáætlun
Í jafnréttisáætlun Lands og skógar er byggt á grunngildum stofnunarinnar, þekkingu, samvinnu og trausti, svo tryggja megi bæði velferð starfsfólks og þá þjónustu sem stofnunin veitir. Áætluninni er ætlað að sýna að Land og skógur hafi jafnrétti sem leiðarljós í starfi sínu og það sé grundvöllur fjölbreytni og virðingar. Jafnréttisáætlun stofnunarinnar miðar að því að gera stofnunina að góðum og eftirsóknarverðum vinnustað þar sem jafnrétti og jafnræði kynjanna er virt og allt starfsfólk hefur jöfn tækifæri til að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni.
Í jafnréttisnefnd Lands og skógar sitja Bjarki Sigurðsson og Salbjörg Matthíasdóttir ásamt Hönnu Þóru Hauksdóttur mannauðsstjóra sem á fast sæti. Bjarki og Salbjörg eru skipuð til þriggja ára og hófu nefndarstörf í febrúar 2024.
Áætlun gegn einelti, áreitni og ofbeldi
Markmið stefnu Lands og skógar um félagslegt öryggi og viðbragðsáætlunar vegna samskiptavanda sem og eineltis, kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni og ofbeldi (EKKO) er að tryggja að úrræði séu til staðar og stuðla að forvörnum og verkferlum í samræmi við löggjöf um þessi efni. Land og skógur vill skapa starfsumhverfi og menningu þar sem starfsfólk er öruggt og líður vel. Enn fremur er mikilvægt að stuðla að heilsueflandi úrræðum fyrir starfsfólk og stuðla að heilbrigðu vinnuumhverfi.
Jafnlaunastefna
Allt starfsfólk Lands og skógar á að njóta jafnra launa og sömu kjara fyrir sömu eða jafn verðmæt störf þannig að enginn ómálefnalegur launamunur sé til staðar. Jafnlaunastefna Lands og skógar tekur til sjálfrar stofnunarinnar og alls starfsfólks hennar. Þar er kveðið á um markmið og aðgerðir til að tryggja starfsfólki Lands og skógar þau réttindi sem kveðið er á um lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Jafnlaunastefnan er órjúfanlegur hluti af launastefnu Lands og skógar og er endurskoðuð árlega.
