Ný forysta hjá Landi og skógi
9. janúar 2026
Ráðið hefur verið í fjórar stöður sviðstjóra hjá Landi og skógi sem auglýstar voru lausar til umsóknar í desember. Nýtt skipurit gekk í gildi hjá stofnuninni um áramótin.

Umsóknarfrestur um stöðurnar fjórar rann út 11. desember og bárust alls 28 umsóknir eins og við sögðum frá í frétt 15. desember. Auglýst var eftir fólki til að stýra fjórum af þeim fimm sviðum sem skipulögð hafa verið í nýju skipuriti Lands og skógar en þegar hafði verið Hanna Þóra Hauksdóttir mannauðsstjóri verið skipuð í stöðu sviðstjóra mannauðs og og miðlunar.
Rannsóknir, vöktun og árangur
Í starf sviðstjóra rannsókna, vöktunar og árangurs hefur Bryndís Marteinsdóttir verið ráðin. Bryndís er með meistaragráðu og bakkalárgráðu í líffræði frá Háskóla Íslands og doktorsgráðu í plöntuvistfræði frá Stokkhólmsháskóla. Hún hefur einnig lokið viðbótardiplóma í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands.
Bryndís hefur umtalsverða reynslu af stjórnun og sjálfbærri landnýtingu. Hún hefur meðal annars starfað sem sérfræðingur, verkefnastjóri og sviðstjóri sviðs sjálfbærni og loftslags hjá Landgræðslunni og síðustu tvö ár sem sviðstjóri sviðs sjálfbærrar landnýtingar hjá Landi og skógi.
Rekstur, fjármál og stafræn þróun
Gunnlaugur Guðjónsson hefur verið ráðinn sviðstjóri reksturs, fjármála og stafrænnar þróunar. Gunnlaugur er með meistaragráðu í International Forestry frá University of British Columbia og bakkalárgráðu í alþjóðamarkaðsfræðum frá Háskólanum í Reykjavík.
Gunnlaugur er með umtalsverða reynslu af stjórnun, fjármálastjórnun, skógrækt og stafrænni þróun og starfaði um 23 ára skeið sem sviðstjóri rekstrarsviðs Skógræktar ríkisins og svo Skógræktarinnar. Frá sameiningu Landgræðslunnar og Skógræktarinnar fyrir tveimur árum hefur Gunnlaugur starfað sem sviðstjóri gagna, miðlunar og nýsköpunar hjá Landi og skógi.
Þjóðskógar, lönd og innviðir
Sviðstjóri þjóðskóga, landa og innviða verður Hreinn Óskarsson. Hann er með meistaragráðu í skógfræði frá landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn og doktorspróf í skógfræði frá Kaupmannahafnarháskóla. Hreinn hefur einnig lokið viðbótardiplóma í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands.
Hreinn er með umtalsverða starfsreynslu í stjórnun og skógrækt. Hreinn hefur meðal annars starfað sem skógræktarráðunautur, sérfræðingur hjá Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins og skógarvörður. Síðustu tíu ár hefur Hreinn starfað sem sviðstjóri, átta ár hjá Skógræktinni og síðustu tvö ár hjá Landi og skógi sem sviðstjóri þjóðskóga og landa.
Þjónusta, ráðgjöf og umbreyting
Loks hefur Jónína Sigríður Þorláksdóttir verið ráðin sviðstjóri þjónustu, ráðgjafar og umbreytinga. Jónína Sigríður er með BS-próf í líffræði og meistarapróf í umhverfis- og auðlindafræði frá Háskóla Íslands. Hún stundar doktorsnám í umhverfisfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands sem hún stefnir að því að ljúka í vetur. Titill verkefnisins hennar er „The Common Ground: Integration, influence and potential of stakeholder engagement for sustainable land use and ecological restoration in Iceland“.
Jónína Sigríður hefur verið í launuðu doktorsnámi við Landbúnaðarháskóla Íslands og þar áður vann hún meðal annars hjá Rannsóknastöðinni Rifi á Raufarhöfn sem verkefnastjóri og forstöðumaður, hjá CAFF-skrifstofunni (Conservation of Arctic Flora and Fauna), hjá Háskóla Íslands og Norrænu ráðherranefndinni sem aðstoðarmaður við rannsóknir. Jónína Sigríður var á liðnu ári ráðin til Lands og skógar sem ráðgjafi í skógrækt og landgræðslu og hefur sinnt því starfi síðustu mánuði.
Hanna Þóra Hauksdóttir hafði áður verið skipuð sviðstjóri mannauðs og miðlunar en hún hefur starfað sem mannauðsstjóri Lands og skógar frá því snemma á liðnu ári. Sviðstjórar Lands og skógar mynda framkvæmdaráð stofnunarinnar ásamt forstöðumanni og fundi þess sitja einnig lögfræðingur stofnunarinnar og kynningarstjóri. Fyrsti fundur nýs framkvæmdaráðs verður á þriðjudaginn kemur, 13. janúar. Í kjölfar hans verður boðað til starfsmannafundar og farið yfir þær breytingar sem þegar hafa orðið með nýju skipuriti og fjallað um næstu skref.
