Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Land og skógur Forsíða
Land og skógur Forsíða

Land og skógur

Ný stefna og skipulag Lands og skógar kynnt

27. nóvember 2025

Starfsfólki Lands og skógar var í dag kynnt ný stefna stofnunarinnar ásamt nýju skipuriti sem gengur í gildi 1. janúar. Stofnunin skiptist þar með í þrjú kjarnasvið og tvö stoðsvið. Auglýst hefur verið eftir fjórum stöðum sviðstjóra og umsóknarfrestur er til 11. desember.

Nær allt starfsfólk Lands og skógar sótti starfsmannafundinn. Flest safnaðist fólkið saman á helstu starfstöðvum í landshlutunum þar sem boðið var upp á köku með fallegri mynd af Þórsmörk og nýjum kjörorðum Lands og skógar. Kjörorðin verða hér eftir „Land og skógur – leiðandi í sjálfbærri landnýtingu“.

Undanfarna mánuði hafa tveir ráðgjafar frá KPMG, Sævar Kristinsson og Jóhanna Gunnþóra Guðmundsdóttir, unnið með forystufólki Lands og skógar að endurskoðaðri stefnu stofnunarinnar og nýju skipulagi. Þau kynntu nýju stefnuna og vinnuna að henni þar sem gerðar voru kannanir, bæði meðal starfsfólks og hagaðila, ásamt því að gögn sem safnast hafa á málfundum stofnunarinnar voru nýtt. Í framtíðarstefnunni er lögð áhersla á öflugan mannauð, skilvirka starfsemi, þjónustu, samstarf og faglega upplýsingagjöf. Gildi Lands og skógar verða:

ÞEKKING – SAMSTARF – JÁKVÆÐ ÁHRIF

Ágúst Sigurðsson, forstöðumaður Lands og skógar, kynnti svo nýtt skipulag og skipurit stofnunarinnar sem frá og með áramótum skiptist í þrjú kjarnasvið og tvö stoðsvið. Undir skrifstofu forstöðumanns fellur stefnumörkun stofnunarinnar, stjórnsýsla, alþjóðasamskipti og lögfræðileg úrlausnarefni.

Kjarnasvið

  • Þjónusta, ráðgjöf og umbreyting. Á þessu sviði sameinast öll ráðgjöf og áætlanagerð á vegum stofnunarinnar í meginviðfangsefnum hennar, hvata- og styrkjakerfi, úttektir og eftirfylgni

  • Rannsóknir, vöktun og árangur. Hér fellur undir eitt svið allt rannsóknar- og þróunarstarf, vöktun, loftslagsbókhald og árangursmat verkefna í sjálfbærri landnotkun.

  • Þjóðskógar, lönd og innviðir. Þetta svið tekur að sér alla umsjón með þjóðskógum, landgræðslusvæðum og öðru ríkislandi í umsjón Lands og skógar en sér einnig um innviði svo sem ferðamannastaði á þessum svæðum ásamt fræmálum og rekstri véla og tækja sem stofnunin nýtir á svæðunum.

Stoðsvið

  • Mannauður og miðlun. Þetta stoðsvið sér um mannauðs- og kjaramál, meðal annars launavinnslu, og einnig miðlun og upplýsingagjöf innan og utan stofnunarinnar.

  • Rekstur, fjármál og stafræn þróun. Hér verður loks umsjón fjármála og stafrænnar þróunar, landupplýsingamál og einnig umsjón með húsnæði og bifreðum Lands og skógar.

Nýlega ráðinn mannauðsstjóri Lands og skógar verður sviðstjóri sviðs mannauðs og miðlunar en auglýst hefur verið eftir umsóknum um stöður sviðstjóra hinna sviðanna fjögurra. Auglýsingarnar eru á Starfatorgi með umsóknarfresti til og með 11. desember:

Nánar má kynna sér nýja stefnu og skipulag Lands og skógar í meðfylgjandi skjölum: