Fara beint í efnið
Hljóðbókasafn Íslands Forsíða
Hljóðbókasafn Íslands Forsíða

Hljóðbókasafn Íslands

Fyrir blinda, sjónskerta og fólk með lestrarhömlun

Starfsreglur

Starfsreglur Hljóðbókasafns Íslands

samkvæmt 1. mgr. 19. gr. e höfundalaga nr. 73 / 1972 með síðari breytingum nr. 13/2021

1. gr. Lagalegt hlutverk

Hlutverk Hljóðbókasafns Íslands er að sjá þeim sem ekki geta fært sér venjulegt prentað letur í nyt fyrir bókasafnsþjónustu með miðlun á fjölbreyttu safnefni, þar á meðal námsgögnum, í sem bestu samræmi við óskir og þarfir notenda (Bókasafnalög nr. 150/2012).

2. gr. Afnot verka og annars efnis sem nýtur verndar höfundalaga

Hljóðbókasafn Íslands er viðurkennd eining í skilningi 3. tölul. 19. gr. a höfundalaga og er heimilt skv. 2. mgr. 19. gr. c höfundalaga að nota verk og annað efni sem nýtur verndar skv. höfundalögum á þann hátt sem þar greinir.

3. gr. Val á verkum

Safnið hefur það hlutverk að miðla til lánþega fjölbreyttum safnkosti og velur sérstök bókvalsnefnd efni sem gera á aðgengilegt, sbr. heimild í 2. mgr. 19. gr. c höfundalaga. Nefndina skipa sérfræðingar safnsins og sjá þeir um samskipti við lesara sem starfa sem verktakar við safnið.

Safnið birtir og uppfærir á vef sínum skrá yfir safnkostinn og upplýsingar um á hvaða formi efnið er tiltækt. Allt efni sem gert er aðgengilegt er birt í ársskýrslu safnsins.

4. gr. Persónuvernd

Hljóðbókasafn Íslands leggur áherslu á að vernda persónuupplýsingar einstaklinga og virða rétt þeirra. Í persónuverndarstefnu safnsins kemur fram í hvaða tilgangi persónuupplýsingum er safnað og hvernig farið er með þær upplýsingar og hversu lengi þær eru varðveittar. Allar upplýsingar um einstaklinga, hvort sem þær koma frá þeim sjálfum, opinberum aðilum eða yfirvöldum eru meðhöndlaðar samkvæmt lögum 90/2018 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

5. gr. Greiðslur til höfunda

Hljóðbókasafn Íslands heyrir undir mennta- og menningarmálaráðuneytið og starfar skv. bókasafnslögum nr. 150/2012 og reglugerð nr. 939/2013 um Hljóðbókasafn Íslands. Bætur til rithöfunda, sbr. 19. gr. d höfundalaga eru ákvarðaðar samkvæmt samningi á milli Hljóðbókasafnsins og Rithöfundasambands Íslands. Að auki fá höfundar greitt samkvæmt útlánum safnsins með sama hætti og greitt er fyrir útlán hjá Háskólabókasöfnum og almenningsbókasöfnum sbr. III. kafla laga um bókmenntir 91/2007 og úthlutunar- og starfsreglu menntamálaráðuneytis um um greiðslur fyrir afnot á bókasöfnum frá 16. febrúar 2021. Hljóðbókasafn Íslands afhendir Rithöfundasambandi Íslands og úthlutunarnefnd greiðslna fyrir afnot á bókasöfnum útlánatölur ársins á undan í marsmánuði ár hvert. Kostnaður vegna þessa greiðist af árlegri fjárveitingu Alþingis sbr. 1. mgr. 7. gr. laga um bók­menntir.

6. gr. Meðferð 19. greinar höfundalaga

Efni Hljóðbókasafnsins skal aðeins aðgengilegt einstaklingum sem eiga við sjón- eða lestrarhömlun að stríða eða öðrum viðurkenndum einingum, sbr. 2. mgr. 19. gr. c höfundalaga. Samkvæmt 19. grein e sömu laga segir að tryggja skuli að safnið:

a. dreifi, miðli og geri eintök á aðgengilegu formi einungis aðgengileg einstaklingum með sjón- eða lestrarhömlun eða öðrum viðurkenndum einingum,

b. geri viðeigandi ráðstafanir til þess að vinna gegn óheimilli eftirgerð eintaka á aðgengilegu formi eða því að þeim sé dreift, miðlað til almennings eða þau gerð aðgengileg almenningi með óheimilum hætti,

c. sýni tilhlýðilega kostgæfni við umsjón sína með verkum eða öðru efni og eintökum þeirra á aðgengilegu formi og haldi skrá um hana og

d. birti og uppfæri, á vef sínum ef við á eða eftir öðrum leiðum á netinu eða utan þess, upplýsingar um hvernig hún uppfyllir þær skyldur sem mælt er fyrir um í a–c-lið.

Sömuleiðis skal viðurkennd eining (Hljóðbókasafnið) skv. 1. mgr. veita einstaklingum með sjón- eða lestrarhömlun, öðrum viðurkenndum einingum eða rétthöfum verka eftirfarandi upplýsingar á aðgengilegan hátt, sé þess óskað:    a. skrá yfir þau verk eða annað efni sem hún hefur eintök af á aðgengilegu formi og á hvaða formi þau eru tiltæk og    b. heiti og samskiptaupplýsingar viðurkenndra eininga sem hún hefur skipst á eintökum á aðgengilegu formi við.

Ráðstafanir safnsins eru að lágmarki þessar:

Lánþegum er gert að skila inn vottorði frá lækni, sérfræðingi og/eða sérkennara þar sem fram kemur hvernig lánþegi uppfyllir skilyrði laganna. Starfsfólk safnsins upplýsir með reglubundnum hætti þá sem skrifa upp á vottorð um ábyrgð sína og tilgang safnsins. Undanþágu frá vottorði hafa sjúkrastofnanir þar sem heimilismenn eru heilabilaðir og/eða verulega veikir, í þeim tilvikum hafa ábyrgðarmenn tímabundinn aðgang. Slíkur aðgangur er kannaður reglulega og fylgst með tímasetningum útlána.

Lánþegum er gert að skipta um lykilorð einu sinni á ári. Hægt er að undanskilja lánþega frá þessu þyki ástæða til s.s. vegna fötlunar eða aldurs.

Ekki er hægt að hlusta með sama aðgangi í fleiri tækjum en einu á sama tíma.

Öll útlán eru merkt lánþega og hægt að rekja þau.

Öllu efni safnsins fylgir eftirfarandi texti: „Hljóðbókasafn Íslands þjónar samkvæmt lögum eingöngu þeim sem ekki geta nýtt sér prentað letur. Þessi bók er gerð aðgengileg [ártal] í samræmi við ákvæði 19. greinar höfundalaga og samning Hljóðbókasafns Íslands og Rithöfundasambands Íslands. Eintak þetta er eign Hljóðbókasafns Íslands og það má ekki afrita. Útlán eru merkt lánþegum og bækur safnsins eru eingöngu fyrir skráða lánþega. Safnið áskilur sér rétt til að loka aðgangi verði misnotkunar vart. Athugið að geisladiskum ber að farga að notkun lokinni.“ Eldri eintök í safninu eru með sambærilegum texta.

Þeir sem eru eldri en 18 ára greiða árgjald og falli greiðslur niður lokast fyrir aðgang.

Upplýsingar um útlán eru aðgengilegar fyrir árið á undan í uppgjöri vegna greiðslna fyrir afnot á bókasöfnum sbr. lög nr. 91/2007 um bókmenntir.

Forstöðumaður metur með reglubundnum hætti verklag og starfshætti um meðferð 19. gr. höfundalaga og birtir á heimasíðu safnsins ef breytingar verða.

Samþykkt af mennta- og menningarmálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur, í september 2021

Hljóðbókasafn Íslands

Hafðu samband

Símaafgreiðsla: 545 4900

Hljóðver: 545 4910

Netfang: hbs@hbs.is

Opnun­ar­tími

Safnið er opið mánudaga til fimmtudag frá
10 til 16 og föstudaga 10 til 14:30

Símaafgreiðsla er opin alla virka daga 10 til 14

Heim­il­is­fang

Digranesvegur 5

200 Kópavogur