Notkun geislunar í læknisfræði: Áhersla á réttlætingu árið 2026
2. janúar 2026
Þegar röntgengeislun er notuð í læknisfræði þá er réttlæting sérhverrar rannsóknar eða meðferðar ein meginstoð geislavarna. Möguleg skaðsemi röntgengeislunar er vel þekkt, en samt er hún mikið notuð í læknisfræði vegna þess að þegar á heildina er litið vegur ávinningurinn miklu þyngra en möguleg skaðsemi.

Með bættu aðgengi að tölvusneiðmyndum og mikilli fjölgun rannsókna hafa áhyggjur manna af því að réttlætingu notkunar í hverju tilfelli fyrir sig sé ábótavant, aukist.
Evrópusamvinnuverkefni um réttlætingu tölvusneiðmynda (EU-JUST) birti nýlega niðurstöður sínar og tilmæli um leiðir til að bæta réttlætingu tölvusneiðmynda. Réttlæting tölvusneiðmynda var skoðuð sérstaklega af því að nú er svo komið að tölvusneiðmyndir valda meira en helmingi geislaálags sem fólk verður fyrir vegna notkunar geislunar í læknisfræði.
Helstu ályktanir sem dregnar voru af niðurstöðu EU-JUST voru:
Það skilar árangri að vinna markvisst að því að bæta réttlætingu
Aðgengi að og notkun klínískra leiðbeininga fyrir myndgreiningu er lykilatriði í réttlætingu
Fræðsla og þjálfun í réttlætingu og klínískum úttektumer nauðsynleg
Hafa ætti eftirlit með réttlætingu og einnig ætti að gera klínískar úttektir á réttlætingu
Klínískar leiðbeiningar og ákvarðanastuðningskerfi eru mikilvæg verkfæri og því ætti að forgangsraða þróun þeirra, aðgengi og notkun
Það þarf að kynna hugmyndafræði klínískra úttekta og þjálfa fólk til að framkvæma þær
Hluti 2 af skýrslu EU-JUST eru leiðbeiningar til að aðstoða röntgendeildir við að bæta réttlætingu: Guidance to Assist Radiology Departments in Improving Justification.
Þar eru m.a. sett fram fimm hagnýt skref til að bæta réttlætingu tölvusneiðmynda:
Hafa samskipti við tilvísandi lækna / tilvísendur
Skilgreina hlutverk, ábyrgð og heimildir varðandi tilvísanir og réttlætingu
Setja stefnu og verklagsreglur fyrir réttlætingu
Tryggja aðgengi að klínískum leiðbeiningum fyrir myndgreiningu eða ákvarðanastuðningskerfum (Clinical Decision Support, CDS)
Fylgjast með og meta samræmi beiðna við viðurkenndar klínískar leiðbeiningar um myndgreiningu
HERCA herferðin Rétt myndgreining fyrir sjúklinginn minn var fyrsta skrefið í evrópsku réttlætingarátaki sem mun halda áfram á þessu ári. Næsta vetur munu Geislavarnastofnanir víða í Evrópu skoða réttlætingu sérstaklega, með samræmdum hætti, við eftirlit. Þá verður meðal annars skoðað: skilningur og ábyrgðarskipting í réttlætingarferlinu almennt, hvort til staðar séu viðmið um hvaða rannsóknir séu viðeigandi og hvort gerðar séu úttektir á réttlætingu rannsókna.
Á næsta ári mun einnig hefjast í Evrópu stórt samstarfsverkefni, SAMIRA Joint Action, þar sem Geislavarnir ríkinsins taka meðal annars þátt í verkefnum tengdum réttlætingu tölvusneiðmynda.
Í ljósi þessa verður sérstök áhersla á réttlætingu næstu árin í eftirliti Geislavarna með notkun geislunar í læknisfræði.