Fara beint í efnið
Barna- og fjölskyldustofa Forsíða
Barna- og fjölskyldustofa Forsíða

Barna- og fjölskyldustofa

Vistun fylgdarlausra barna

Barn sem kemur fylgdarlaust til Íslands lýtur almennt umsjá barnaverndar enda sé forsjáraðili barnsins ekki staddur á landinu.  Í þeim tilvikum þar sem barnaverndarþjónusta fær umsjá fylgdarlauss barns skal þjónustan vista það í samræmi við ákvæði barnaverndarlaga. Ein leið til að tryggja öryggi barns er að vista það á fósturheimili, sé vistuninni ætlað að vara í þrjá mánuði eða lengur. Aðrir möguleikar geta verið að vista barnið á grundvelli 84. gr. bvl. í viðeigandi úrræði. 

Við vistun fylgdarlauss barns í fóstur þarf að hafa í huga að málsmeðferðin getur verið ólík hefðbundnum vistunar- og fósturmálum þar sem forsjáraðilar eru ekki til staðar á landinu. Alltaf þarf að gæta að afla samþykki barns eldra en 15 ára áður en farið er í leit að hentugu fósturheimili. Leitast á eftir að ná sambandi við forsjáraðila barnsins til að leita eftir samþykki fyrir vistun. 

Ef um er að ræða barn sem hefur ekki búið við utanumhald og aðhald foreldris, eða ígildi þess, í einhvern tíma skal huga að því í aðlögunarferlinu að undirbúa barnið vel fyrir hvers er að vænta í fóstrinu og hvað vistunin felur í sér. Þá eins að undirbúa fósturforeldrana vel með skýr markmið vistunar, hvað ætlast er til af þeim og með upplýsingum um barnið, stöðu þess og lífsreynslu sem getur haft áhrif á daglegt líf. 

Það gildir sama málavinnsla við beiðni um fósturheimili fyrir fylgdarlaus börn  eins og gildir fyrir önnur börn. Þó er skráð í umsóknina að um sé að ræða fylgdarlaust barn og hvaða menningartengslum sé æskilegt að viðhalda á fósturheimilinu. Þá er skráð í 33.gr. áætlun um trygga umsjá hvað ætlast er til að fósturforeldrar fylgi eftir fyrir barnið, t.d. stuðning við málavinnslu vegna dvalarleyfis eða aldursgreiningar. 

Barna- og fjölskyldustofa safnar upplýsingum um menningarbakgrunn og tungumálakunnáttu fósturforeldra á Íslandi til að hafa frekari upplýsingar um hver væri best til fallinn til að sinna fjölbreyttum hópi fylgdarlausra barna. Við val á fósturheimili er reynt eftir fremsta megni að koma til móts við menningartengsl viðkomandi fósturbarns. Barnaverndarþjónustan veitir einnig stuðning til fósturforeldra um hvernig unnt er að koma til móts við menningarþarfir, t.d. með aðkomu menningarmiðlara. 

Þá geta fósturforeldrar nýtt sér aðrar leiðir til að viðhalda menningarbakgrunni eins og að gæta að því að barnið hafi aðgang að náms- og skemmtiefni tengt tungumáli þess og menningu.