Fara beint í efnið
Barna- og fjölskyldustofa Forsíða
Barna- og fjölskyldustofa Forsíða

Barna- og fjölskyldustofa

Við lok fósturs

Við lok fósturs má gera ráð fyrir að barn fari til foreldra sinna, í aðra vistun, annað fóstur eða fari í sjálfstæða búsetu sé það orðið sjálfráða.

Fósturlok

Í tímabundnu fóstri er markmiðið að barnið fari heim aftur eftir ákveðinn tíma. Óvissa um framtíðina getur valdið óöryggi og kvíða sem getur t.d. komið fram sem hegðunarerfiðleikar eða erfiðleikar í skóla hjá fósturbarninu. Ekki síðar en mánuði áður en fóstri lýkur skal barnaverndarþjónusta taka ákvörðun um áframhaldandi meðferð máls, þá hvort barnið fari heim til foreldra, gerður verði áframhaldandi samningur um fóstur eða aðrar ráðstafanir gerðar. Mikilvægt er að heimkoma barnsins aftur til kynforeldra sé vandlega undirbúin í samvinnu við foreldra, barn og fósturforeldra.

Varanlegu fóstri lýkur almennt við 18 ára aldur barnsins. Þrátt fyrir að fóstri sé lokið er markmið með varanlegu fóstri að barnið dvelji hjá fósturforeldrum þar til það sjálft getur staðið á eigin fótum og byggt upp sjálfstætt líf.

Þegar barnið er 17 ára er tímabært að skoða með málsaðilum hvað mun taka við þegar barnið verður 18 ára. Þá  getur mál barnsins verið flutt frá barnavernd til félagsþjónustu ef þörf er á stuðningi á grundvelli félagsþjónustulaga.

Tilkynning um lok fósturs skal sendast á BOFS og GEV. 

Fóstur 18 -20 ára

Ef fósturráðstöfun varir þar til barn verður 18 ára skal barnaverndarþjónustan meta þarfir barnsins fyrir frekar úrræði að minnsta kosti þremur mánuðum áður en barn verður 18 ára.  Ef barn þarf áframhaldandi stuðning barnaverndar og talið er að hagsmunum þess sé best gætt áfram í fóstri þá getur barnaverndarþjónustan, með samþykki barnsins, ákveðið að fósturráðstöfun haldi áfram eftir 18 ára aldur, allt til 20 ára aldurs.

Rétt er að barnaverndarþjónusta taki frumkvæði að því að meta þjónustuþörf barns fyrir áframhaldandi fósturráðstöfun og geri áætlun um stuðningsaðgerðir í samvinnu við barnið.

Barnið getur skotið synjun um að ráðstöfun haldist áfram eftir 18 ára aldur til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Tilkynning um áframhaldandi fósturráðstöfun barna allt til 20 ára aldurs skal sendast á Barna- og fjölskyldustofu og GEV.

Ótímabær fósturlok

Ótímabær fósturlok verða þegar fósturráðstöfun endar áður en gildistími fóstursamnings er runninn út, einnig kallað fósturrof. Margar samverkandi ástæður liggja oft að baki þegar fóstur rofnar en mikilvægt er að reyna eftir fremsta megni að fyrirbyggja að svo verði.

Þættir sem auka líkur á ótímabærum fósturlokum eru:

  • Viðhorf og hæfni fósturforeldra

  • Hegðunarerfiðleikar fósturbarns

  • Skortur á markvissum stuðningi barnaverndar við fósturforeldra og/eða fósturbarn.

  • Viðhorf foreldra og fósturbarns til fósturráðstöfunar.

  • Breytingar á fjölskylduhögum fósturforeldra s.s. veikindi, flutningar, skilnaður o.fl.

Þættir sem draga úr líkum á ótímabærum fósturlokum eru:

  • Jákvætt samstarf við fósturforeldra og foreldra.

  • Góður undirbúningur og aðlögun fósturbarns að fósturheimili.

  • Markviss stuðningur barnaverndar við fósturforeldra og fósturbarn.

  • Raunhæf markmið sem eru metin reglulega í teymi þeirra aðila sem koma að máli barnsins.

  • Fósturforeldrar sjá framfarir hjá fósturbarni, tengdar hegðun og líðan.

  • Því yngra sem barnið er þegar það fer í fóstur.

  • Jákvætt viðhorf og næmni fósturforeldra í garð fósturbarns.

  • Börnum fósturforeldra og fósturbarni kemur vel saman. 

  • Eigin börn fósturforeldra eru á öðrum aldri en fósturbörn. 

Til að reyna að fyrirbyggja ótímabær fósturlok er mikilvægt að vanda aðlögun fósturbarns. Fósturforeldrar þurfa að fá allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að vinna með barnið og hvaða hegðun er líkleg birtingarmynd fyrri upplifana. Komi erfiðleikar upp er nauðsynlegt að grípa fljótt inn í til dæmis með auknum stuðningi hvort sem fyrir fósturbarn og/eða fósturforeldra, fræðslu og handleiðslu. Hafa ber í huga að hegðun fósturbarna ræður ekki endilega úrslitum um hvort ótímabær fósturlok verði ef fyrir er ráðgjöf, stuðningur og handleiðsla í samstarfi við barnaverndarþjónustu.

Ef ljóst er að ótímabær fósturlok munu verða er nauðsynlegt að finna út hvað tekur við, þ.e.a.s. hvort barnið fari á annað fósturheimili, fari heim til foreldra eða í annað úrræði. Barnaverndarþjónusta skal senda tilkynningu um fósturrof til BOFS og GEV. Þar sem fyllt er út ástæða ótímabæra fósturloka og gerð greinargerð. Þessar upplýsingar eru mikilvægar svo BOFS hafi nýjustu upplýsingar um fósturforeldra og hvernig þau takast á við hlutverk sitt. Einnig má taka fram hvað var gert til fyrirbyggja að ekki yrðu ótímabær fósturlok og hvort fósturforeldrar náðu að nýta og tileinka þann stuðning sem barnaverndarþjónustan lagði til.