Verklagsreglur Barnahúss
Efnisyfirlit
1. Almennt hlutverk Barnahúss
Barnahús sinnir málefnum barna sem grunur leikur á að hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni eða ofbeldi, líkamlegu ofbeldi eða hafa orðið vitni að heimilisofbeldi. Barnaverndarþjónusta ber ábyrgð á vinnslu slíkra mála og geta óskað eftir þjónustu Barnahúss.
Börn og forráðamenn þeirra geta með tilvísun barnaverndarþjónustu fengið alla þjónustu á einum stað, sér að kostnaðarlausu. Börn á aldrinum 3½ árs að 15 ára koma í skýrslutöku í Barnahús og er þá um eiginlegt þinghald að ræða. Börn á aldrinum 15-18 ára fara í skýrslutöku hjá lögreglu og er fulltrúi barnaverndarþjónustu ásamt réttargæslumanni barnsins þá viðstaddur. Þau bera síðar vitni fyrir dómstólum sé ákært í málum þeirra.
Barnaverndarþjónusta getur óskað eftir annarri þjónustu Barnahúss fyrir börn frá 3½ til 18 ára svo sem könnunarviðtölum vegna gruns um kynferðisofbeldi gegn börnum þegar ekki er um rökstuddan grun að ræða. Þegar grunur leikur á að barn hafi orðið fyrir líkamlegu ofbeldi eða heimilisofbeldi getur barnaverndarþjónusta óskað eftir þjónustu Barnahúss við könnun máls. Greini barn frá ofbeldi (kynferðislegu eða líkamlegu) í skýrslutöku eða könnunarviðtali í Barnahúsi eða frá því að hafa orðið vitni að alvarlegu heimilisofbeldi getur barnaverndarþjónusta óskað eftir meðferðarviðtölum í Barnahúsi. Fer þá fram greining og mat á vanda barnsins í Barnahúsi og meðferðarviðtöl sýni börnin einkenni áfallastreitu.
Barnahús veitir einnig ráðgjöf til barnaverndarþjónustu og annarra fagaðila sem vinna með börnum ásamt almenningi sem leitar sér upplýsinga. Barnahús miðlar einnig þekkingu og reynslu starfseminnar til annarra fagaðila hérlendis og sambærilegra stofnana erlendis.
2. Skilgreiningar Barnahúss á kynferðisofbeldi
Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðistofnuninni er kynferðisofbeldi þegar barn undir kynferðislegum lögaldri getur ekki gefið upplýst samþykki fyrir kynferðislegum athöfnum sökum ungs aldurs og þroska. Einnig þegar athæfið fellur undir brot á hegningarlögum samfélagsins.
Börn geta verið beitt kynferðisofbeldi af hendi fullorðinna en einnig af öðrum börnum sem eru sökum aldurs, þroska, trausts eða ábyrgðar í yfirburðarstöðu gagnvart barninu. Unglingar geta orðið fyrir kynferðisofbeldi af hendi fullorðinna en einnig jafnaldra í para og/eða vinasamböndum. Það er mat sérfræðinga Barnahúss hverju sinni hvort mál sem berast Barnahúsi falli undir ofangreindar skilgreiningar
3. Skilgreiningar Barnahúss á líkamlegu ofbeldi/heimilisofbeldi
Barnahús styðst við skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðistofnunarinnar á líkamlegu ofbeldi/heimilisofbeldi. Líkamlegt ofbeldi/heimilisofbeldi er þegar framferði forsjáraðila, umönnunaraðila eða annars í nærumhverfi barnsins veldur barni líkamlegum og/eða andlegum skaða sem getur haft áhrif á þroska og líðan þeirra til lengri eða skemmri tíma.
4. Skilgreiningar á stöðuheitum starfsmanna Barnahúss
Forstöðumaður ber faglega ábyrgð á daglegri starfsemi Barnahúss og samstarfi við þá aðila, hérlendis og erlendis, sem koma að málefnum barna sem fá þjónustu Barnahúss. Forstöðumaður tekur rannsóknarviðtöl við börn og sinnir meðferð í samræmi við verkaskiptingu Barnahúss.
Teymistjóri CPC-CBT ber ábyrgð á daglegri umsjón og faglegri stjórnun CPC-CBT teymis. Teymistjóri tekur rannsóknarviðtöl við börn og sinnir meðferð í samræmi við verkaskiptingu Barnahúss.
Sérfræðingar Barnahúss, sem hafa til þess tilskylda þjálfun sinna greiningu, meðferð og rannsóknarviðtölum. Hver og einn sérfræðingur ber faglega ábyrgð á eigin meðferðarvinnu. Sérfræðingar koma að þjálfun nema og verkefna þeirra auk þess að sinna fræðsluerindum víðsvegar um landið þegar þess er óskað.
Skrifstofustjóri Barnahúss ber ábyrgð á móttöku tilvísana og útdeilingu verkefna ásamt skráningu gagna í rafræna skjalavörslu.
Þjónustufulltrúi Barnahúss sinnir daglegri umsýslu, gagnagrunni og stjórnar tæknibúnaði hússins þegar rannsóknarviðtöl fara fram.
Starfsfólk og sérfræðingar Barnahúss sækja handleiðslu, námskeið og endurmenntun eftir því sem við á til að viðhalda þekkingu og hæfni sinni.
5. Ferli mála er þau berast Barnahúsi
Öll mál sem berast Barnahúsi eru lögð fyrir fund sérfræðinga Barnahúss þar sem ákvarðanir eru teknar um úrvinnslu málsins og þjónustu.
Barnahús veitir þeim börnum sem greina frá ofbeldi, greiningu og meðferð ef þörf er á samkvæmt beiðni frá barnaverndarþjónustu. Að öðrum kosti er það hlutverk barnaverndarþjónustu að finna viðeigandi úrræði.
Það er á ábyrgð barnaverndarþjónustu í viðkomandi sveitafélagi að taka ákvörðun um hvort senda eigi mál í opinbera rannsókn eða ekki í samráði við foreldra og barn eftir atvikum. Barnahús óskar eftir ítarlegum rökstuðningi barnaverndarþjónustu ef ákvörðun liggur fyrir að senda sakamál ekki í lögreglu rannsókn þegar um er að ræða kynferðisbrot gagnvart barni.
Meðferðarviðtöl á vegum Barnahúss hefjast að loknu rannsóknarviðtali (könnunarviðtali, skýrslutöku) hafi barn greint frá ofbeldi.
Hlé er gert á meðferðarviðtölum sé þess krafist af hálfu héraðssaksóknara eða lögreglu, ef barn þarf að fara í viðbótarskýrslutöku vegna máls síns eða í aðra skýrslutöku fyrir dómi hafi verið brotið á því á nýjan leik, bæði ef um sama eða annan geranda er að ræða.
Komi í ljós í könnunarviðtali að barn hafi orðið fyrir saknæmu athæfi er viðtalið stöðvað. Barnaverndarþjónusta tekur ákvörðun um framhald máls samkvæmt lögum og barn sækir ekki meðferðarviðtöl fyrr en að skýrslutöku lokinni fari málið í opinbera rannsókn lögreglu.
6. Almennt verklag
Sá sérfræðingur sem tekur rannsóknarviðtal við barn skal ekki hafa viðkomandi barn í meðferðarviðtölum/fræðsluviðtölum.
Komi barn fyrst í könnunarviðtal og síðar í skýrslutöku fyrir dómi er það alfarið í höndum dómara að ákveða hvort sami sérfræðingur og tók könnunarviðtalið, taki einnig skýrslutökuna eða ekki. Ef barn þarf að koma í viðbótarskýrslutöku í sama máli er það í höndum dómara hvort sami sérfræðingur taki viðbótarskýrslu eða hvort annar sérfræðingur Barnahúss komi þá að viðtalinu.
Sé sérfræðingur vanhæfur til dæmis vegna fyrri aðkomu að máli eða persónulegra tengsla skal annar sérfræðingur sinna rannsóknarviðtali og/eða meðferð.
Séu allir sérfræðingar vanhæfir vegna fyrri aðkomu, persónulegra eða faglegra tengsla skal Barna-og fjölskyldustofa finna annan sérfræðing sem er hlutlaus.
Sérfræðingar Barnahúss skrifa minnispunkta úr könnunarviðtölum sem sendir eru tilvísunaraðila. Sé um skýrslutökur fyrir dómi að ræða (lokað þinghald) eru ekki gerðir minnispunktar.
Engin persónugreinanleg gögn fara út úr Barnahúsi. Starfsmönnum Barnahúss er óheimilt að veita öðrum en forsjáraðila og tilvísunaraðila upplýsingar um gang mála í Barnahúsi. Forsjárlausum forsjáraðilum er bent á að leita til barnaverndarþjónustu óski þeir eftir upplýsingum um ferli mála barna sinna.
Barnaverndarþjónusta og lögregla geta óskað eftir læknisskoðun fyrir börn í Barnahúsi með skriflegum tilvísunum, þegar meira en 72 tímar eru liðnir frá meintu broti. Læknar og hjúkrunarfræðingur frá Landspítala - Háskólasjúkrahúsi sinna læknisskoðun ásamt því að senda tilvísunaraðila skriflegar upplýsingar um niðurstöður skoðunar. Barnahús fær ekki sendar skriflegar niðurstöður úr læknisskoðunum. Ef innan við 72 tímar eru frá atvikinu eða barnið er með verk, óþægindi frá leggöngum eða endaþarmi þá fer bráðalæknisskoðun/réttlæknisfræðileg skoðun fram á Neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisbrota (NM) á Landspítala í Fossvogi.
Barnahús heldur utan um tölulegar upplýsingar um fjölda mála, eðli brota, umfang þeirra og lyktir. Tölulegar upplýsingar eru gefnar út í ársskýrslu Barna- og fjölskyldustofu.
Óski forsjáraðilar eftir aðgangi að gögnum barns sem ekki hefur náð 18 ára aldri er málinu vísað á barnaverndarþjónustu í viðkomandi sveitarfélagi. Hafi barnið náð 18 ára aldri getur einstaklingurinn óskað eftir gögnum í sínu máli í gegnum Barna-og fjölskyldustofu.
7. Greining og meðferð
Í upphafi meðferðar er lögð áhersla á þrjú til fjögur fræðslu- og greiningarviðtöl þar sem sérfræðingur Barnahúss aflar upplýsinga um stöðu barnsins og metur meðferðarþörf eftir aldri og þroska. Í kjölfarið hefst áfallameðferð ef þörf er á. Hefðbundin áfallameðferð miðast við 12–20 meðferðarviðtöl en telji sérfræðingur þörf á frekari viðtölum skal það ákvarðað í samráði við barnið, forráðamenn og barnaverndarþjónustu. Sérfræðingur Barnahúss skoðar meðferðarþörf barnsins eftir átta viðtöl og metur þá í samráði við forsjáraðila og barnaverndarþjónustu áætlaðan meðferðartíma. Einnig upplýsir sérfræðingur Barnahúss bæði barnaverndarþjónustu og forsjáraðila ef barn hefur þörf fyrir aðra þjónustu en þá sem Barnahús veitir.
Meðferð í Barnahúsi miðast við aldur og þroska barna en ávallt er notast við gagnreyndar aðferðir svo sem áfallamiðaða hugræna atferlismeðferð (TF-CBT), hugræna atferlismeðferð (CBT), hugræna úrvinnslumeðferð (CPT), EMDR, og CPC-CBT (fjölskyldumiðaða hugræna atferlismeðferð).
Fræðsla til forsjáraðila er mikilvæg og stuðningur og leiðbeiningar um hvernig hjálpa megi barninu á sem bestan hátt við að takast á við afleiðingar áfalla. Þátttaka umönnunaraðila er nauðsynleg í meðferðarferlinu, sérstaklega þegar um ung börn er að ræða. Meðferðaraðili barnsins sinnir fræðslunni ásamt samskiptum við forráðamann og barnaverndarþjónustu.
Fyllsta trúnaðar skal haldið gagnvart barninu nema sérfræðingur meti að lífi og heilsu þess sé ógnað eða öðrum stafi ógn af hegðun barnsins. Sérfræðingar Barnahúss hafa tilkynningarskyldu gagnvart barnaverndarþjónustu samkvæmt 17 gr. laga nr. 80/2002.
Meðferð fer að öllu jöfnu fram í Barnahúsi en annars staðar þegar við á. Meðferðarviðtöl fara fram í heimabyggð þeirra barna sem ekki búa á höfuðborgarsvæðinu eða í næsta stóra sveitafélagi við heimabyggð barnsins. Kostnaður vegna ferða greiðist af viðkomandi barnaverndarþjónustu. Sérfræðingar Barnahúss gæta þess að samrýma ferðir vegna meðferðarviðtala út á land og skiptist kostnaður á milli þeirra nefnda sem sækja þjónustu á viðkomandi landsvæði. Sérfræðingar Barnahúss halda nákvæma skráningu um ferðir.
Telji meðferðaraðili ástæðu til aðkomu annarra fagaðila vegna erfiðleika barns eða þörf á öðrum úrræðum skal hann upplýsa forsjáraðila og barnaverndarþjónustu.
Meðferðaraðili skal rita dagála að loknu hverju viðtali með stuttri samantekt af því sem farið var yfir. Í dagála skal einnig skrá samskipti við forsjáraðila, starfsfólk barnaverndarþjónustu og aðra, mætingu og þær ákvarðanir sem teknar eru.
Barnaverndarþjónusta getur óskað eftir stöðumati og öðrum upplýsingum er varðar barn en beiðni um slíkt skal berast með skriflegu erindi.
Máli barns er lokið í samráði við forsjáraðila og barnaverndarþjónustu. Sérfræðingar Barnahúss rita lokaskýrslu sem skilað er til barnaverndarþjónustu.
Barnaverndarþjónusta getur með tilvísun og greinargerð óskað eftir meðferðarviðtölum fyrir börn sem áður hafa sótt þjónustu Barnahúss. Rökstyðja þarf hvers vegna óskað er eftir viðtölum að nýju, þ.e. að vanlíðan barns tengist því ofbeldi sem áður var til meðferðar.
Sérfræðingum Barnahúss ber skylda að rita vottorð að beiðni héraðssaksóknara, ríkissaksóknara og lögreglu um meðferð og mat á afleiðingum ofbeldisins. Senda ber afrit til barnaverndarþjónustu af vottorðum.
Sérfræðingur Barnahúss skal leyfa börnum og forsjáraðilum að lesa yfir lokaskýrslur og vottorð til Héraðssaksóknara áður en þau eru send úr húsi, í þeim tilvikum sem hann metur það gagnlegt og viðeigandi.
Óska verður eftir skriflegu leyfi barnaverndarþjónustu fyrir áframhaldandi meðferð þegar barn verður 18 ára en tilvísun um meðferð þarf að hafa borist Barnahúsi fyrir 18 ára aldur ungmennisins. Er það háð vilja og samþykki skjólstæðingsins sjálfs.