Verklag við beitingu neyðarráðstafana
Meginregla barnaverndarlaga er sú að viðhafa skuli ákveðna málsmeðferð áður en gripið er til þvingunarúrræða, svo sem að leiðbeina aðilum, kynna þeim gögn og gefa þeim kost á að tjá sig. Ef ljóst þykir að barni stafi hætta af því að fara þessa leið er hægt að grípa strax til ráðstöfunar sbr. 31. gr. barnaverndarlaga.
Þær ráðstafanir sem hér koma aðallega til skoðunar eru þær sem varða töku barns af heimili eða kyrrsetningu þess á stað þar sem það er. Hér geta þó komið til álita allar ráðstafanir barnaverndarþjónustu sem annars þyrfti að úrskurða um, svo sem að stöðva för barns úr landi eða stöðva umgengni við barn í fóstri.
Verklag við beitingu neyðarráðstafana skv. 31. gr. barnaverndarlaga
Í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 segir að börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Ákvæðið felur í sér stefnuyfirlýsingu og sækir m.a. fyrirmynd til ákvæða ýmissa alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að. Þetta er mikilvægt ákvæði sem undirstrikar að vernd barna skuli vera í fyrirrúmi og að réttindi annarra geti þurft að víkja ef hagsmunir barns krefjast þess.
Meginregla barnaverndarlaga er sú að viðhafa skuli ákveðna málsmeðferð áður en gripið er til þvingunarúrræða, svo sem að leiðbeina aðilum, kynna þeim gögn og gefa þeim kost á að tjá sig. Ef ljóst þykir að barni stafi hætta af því að fara þessa leið er hægt að grípa strax til ráðstöfunar sbr. 31. gr. bvl. Þær ráðstafanir sem hér koma aðallega til skoðunar eru þær sem varða töku barns af heimili eða kyrrsetningu þess á stað þar sem það er. Hér geta þó komið til álita allar ráðstafanir barnaverndarþjónustu sem annars þyrfti að úrskurða um, svo sem að stöðva för barns úr landi eða stöðva umgengni við barn í fóstri. Dæmi um aðstæður þar sem reynt getur á ákvæði um neyðarráðstöfun skv. 31. gr. eru t.d.:
barnaverndarstarfsmaður er kallaður út með lögreglu á heimili þar sem er mikil vímuefnaneysla eða ofbeldi, barn er í reiðileysi og hefur þörf fyrir að komast í öryggi og því reynist nauðsynlegt að vista barn
nauðsynlegt þykir að vista barn sem orðið er 15 ára í samráði við foreldra en gegn vilja barnsins, vegna hegðunar barnsins t.d. á neyðarvistun Stuðla
barn er í vistun utan heimilis og annað hvort foreldri eða barnið sjálft, ef það er orðið 15 ára, afturkallar samþykki sitt fyrir vistun sem engu að síður er talin nauðsynleg
nauðsynlegt þykir að fara með barn til sérstakrar rannsóknar eða skoðunar, t.d. í Barnahús vegna gruns um kynferðisofbeldi, og varasamt þykir að foreldri viti af því fyrr en um leið og það gerist eða um leið og rannsókn er lokið.
Heimild til að beita neyðarráðstöfun hafa þeir aðilar sem sveitarstjórn þess sveitarfélags sem um ræðir hefur veitt vald til fullnaðarafgreiðslu mála skv. 3. mgr. 12. gr. Það geta verið nokkrir aðilar, t.d. deildarstjóri barnaverndar og ákveðnir undirmenn hans, en fer allt eftir samþykkt sveitarfélagsins þar um.
Um leið og ákvörðun er tekin, eða svo fljótt á eftir sem unnt er, þarf að kynna hana foreldri og barni ef við á og leiðbeina um framhaldið. Eftir að gripið hefur verið til neyðarráðstöfunar verður barnaverndarþjónusta að taka málið til meðferðar án tafar. Ekki er gert ráð fyrir að úrskurðað sé sérstaklega um neyðarráðstöfunina sem slíka en mikilvægt er að fjalla um hana og færa hana til bókar ásamt þeim rökum sem lágu til grundvallar. Barnaverndarþjónusta þarf einnig að horfa fram í tímann og meta hvort ástæða er til að grípa til frekari aðgerða og hefur nefndin 14 daga til að komast að niðurstöðu um þetta. Ef barnaverndarþjónusta telur þörf fyrir áframhaldandi ráðstöfun, svo sem lengri vistun utan heimilis, þá er rétt að leitast við að gera skriflega áætlun um stuðningsúrræði. Náist ekki samkomulag um beitingu stuðningsúrræða verður umdæmisráð barnaverndar að kveða upp úrskurð um frekari ráðstafanir innan 14 daga frá því að gripið var til neyðarráðstöfunar, s.s. kveða upp úrskurð skv. 27. gr., eða taka ákvörðun um málshöfðun fyrir dómi skv. 28. eða 29. gr., að öðrum kosti fellur ákvörðun skv. 1. mgr. 27. gr. úr gildi. Um undirbúning þess úrskurðar gilda hefðbundnar málsmeðferðarreglur sbr. VIII. kafla bvl. Ef úrskurður umdæmisráðsr liggur ekki fyrir innan 14 daga fellur neyðarráðstöfun úr gildi
Hafa ber í huga að neyðarráðstöfun skv. 31. gr. bvl. er ekki úrræði sem barnaverndarþjónusta úrskurðar um að beita. Um er að ræða heimild starfsmanna nefndarinnar til að beita úrræðum án samþykkis foreldra þegar aðstæður barns eru með þeim hætti að ekki er hægt að bíða eftir því að barnaverndarþjónusta komi saman til að úrskurða.
Tilkynning berst í gegnum Neyðarlínu 112 eða með öðrum hætti, um að barn sé talið í bráðri hættu, s.s. vegna þess að það er talið geta farið sér að voða, aðrir geti verið barninu hættulegir, barn er á vergangi eða hafi strokið úr meðferð. Meta þarf hvort þörf sé á aðkomu lögreglu ef grunur er um varasamt fólk á staðnum til að tryggja öryggi starfsmanns barnaverndar og barna eftir atvikum. Athugið að sýna tillitssemi og nærgætni ef þörf er á aðkomu lögreglu, s.s. að það komi óeinkennisklædd lögregla ef kostur er.
Starfsmaður barnaverndar fer á heimili eða þann stað þar sem barnið er, s.s. skóla og ræðir við barn og foreldra eftir atvikum. Athuga þarf að 43. gr. barnaverndarlaga um rannsóknarheimild gildir um könnun mála ef grunur leikur á að barn hafi verið beitt ofbeldi af hálfu forsjáraðila/heimilismanns (sjá nánar verklag um könnun máls þegar grunur leikur á líkamlegu- eða kynferðislegu ofbeldi gagnvart barni). Þetta getur t.d. átt við þegar barn segir starfsmanni skóla frá ofbeldi og starfsmaður barnaverndar kemur á staðinn til að ræða við barnið. Meta þarf hvort farið verði fram á rannsókn lögreglu og haft samráð við lögreglu um það hvenær á að ræða við foreldra
Starfsmaður metur þörf á því að vista barn tafarlaust utan heimilis eða fara með barn til sérstakrar rannsóknar eða skoðunar. Hann leitar samþykkis foreldra og/eða barns 15 ára eða eldra og ef aðilar samþykkja ekki þá ráðstöfun kemur til álita að beita neyðarráðstöfun skv. 31. gr. bvl. Þetta getur einnig átt við ef stöðva þarf umgengni barns við foreldri sem því stafar hætta af. Gæta þarf að því að draga ekki samningaviðræður á langin heldur taka ákvörðun út frá hagsmunum barnsins og þá ber að hafa í huga aldur barns. Þær aðstæður sem kalla á beitingu neyðarráðstöfunar vegna ungra barna eiga ekki endilega við um unglinga sem þurfa ekki jafn mikla aðgæslu og umönnun og ung börn.
Starfsmaður ráðfærir sig við yfirmann eða annan starfsmann eftir atvikum í samræmi við ákvæði í samþykkt sveitarstjórnar um það hver fer með vald til fullnaðarafgreiðslu mála. Ef niðurstaðan er að beita neyðarráðstöfun skv. 31. gr. útbýr starfsmaður bréf í tvíriti, foreldrum er afhent annað bréfið en kvitta fyrir móttöku á hitt.
Taka þarf ákvörðun um hvort barni er skipaður talsmaður en að jafnaði er barni skipaður talsmaður þegar ákveðið er að vista barn utan heimilis. Ef ekki er talin ástæða til að skipa 3 barni talsmann er nauðsynlegt að rökstyðja þá ákvörðun, s.s. ef barn 15 ára eða eldra hafnar því að fá talsmann.
Hafa samband við væntanlegan vistunaraðila eða þann sem sinnir rannsókn/skoðun og undirbúa komu barnsins. Undirbúa þarf barnið fyrir vistun eða rannsókn/skoðun og ákveða hver fylgir barni ásamt starfsmanni barnaverndar, s.s. ættingi, starfsmaður skóla. Þá þarf að huga að því hvort notast er við einkabíl, leigubíl eða fengin aðstoð lögreglu við að koma barni á áfangastað. Nota þarf viðeigandi öryggisbúnað, s.s. barnabílstól eða púða.
Heimilt er skv. 44. gr. rg. nr. 652/2004 um úrræði á ábyrgð sveitarfélaga samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga, að vista börn í undantekningartilvikum áður en leyfi Gæða- og eftirlitsstofnunar (GEV) liggur fyrir. Í þeim tilvikum þarf að senda um það tilkynningu til GEV á sérstöku eyðublaði sem er að finna á heimasíðu GEV.
Umdæmisráð barnaverndar skal án tafar taka málið til meðferðar og innan 14 daga kveða upp úrskurð skv. 26 og/eða 27 gr. bvl. eða taka ákvörðun um málshöfðun fyrir dómi skv. 28. eða 29. gr. bvl. að öðrum kosti fellur ákvörðun skv. 1. mgr. 27. gr. úr gildi. Um málsmeðferð samkvæmt þessari málsgrein gilda ákvæði VIII. kafla bvl.
Neyðarráðstafanir geta reynt mjög á þá starfsmenn sem koma að máli og því er mikilvægt að huga að stuðningi við þá. Mikilvægt er að starfsmaður fái svigrúm til að fylgja máli eftir, s.s. viðtöl við barn (sjá vinnulag sem lýst er í fræðsluefninu „Talaðu við mig!“), stuðningur við vistforeldra, stuðningur við kynforeldra, umsóknir til Barna- og fjölskyldustofu vegna vistunar skv. 84. gr., fósturheimili eða meðferðarheimili, tilvísun í Barnahús og samstarf við réttarvörslukerfið. Þá er mikilvægt að huga að handleiðslu og koma á „rewiev“ fundum í kjölfar erfiðra mála þar sem kallaðir eru saman allir þeir aðilar sem að neyðarráðstöfun komu.