Fara beint í efnið
Barna- og fjölskyldustofa Forsíða
Barna- og fjölskyldustofa Forsíða

Barna- og fjölskyldustofa

Undirbúningur barns fyrir könnunarviðtal eða skýrslutöku fyrir dómi

Kynna skal fyrir barninu að það sé að fara í viðtal í húsi sem er sérstaklega hannað fyrir börn
og unglinga. Húsið er staðsett í íbúðarhverfi og lítur út eins og hvert annað heimili. Engar
merkingar eru utan á húsinu sem gefa til kynna hvað þar fer fram. Þar mun barnið hitta
sérfræðing sem vinnur við það að tala við börn og unglinga sem hafa orðið fyrir einhverju eða vilja segja frá einhverju sem hefur gerst. Það er mikilvægt að tala bara um það sem er satt og rétt í viðtalinu. Barnið og sérfræðingurinn eru tvö að ræða saman í sérútbúnu herbergi, svo barnið þurfi ekki að tala við marga fullorðna í einu og/eða segja oft frá því sama.


Forðast skal að yfirheyra barn eða ræða ítarlega um málsatvik áður en viðtalið fer fram svo
ekki sé haft áhrif á framburð barnsins.

Gott að hafa í huga

  • Mikilvægt er að barnið sé vel úthvílt og búið að borða.

  • Ef barnið tekur lyf þarf að taka tillit til þess varðandi tímasetningu viðtals.

  • Einnig er mikilvægt að hafa í huga að tímasetning skarist ekki við eitthvað sem barnið hefur ánægju af, t.d. æfingar, afmæli, skemmtidagskrá o.fl. (barn sem er að missa af einhverju skemmtilegu getur verið órólegt í viðtalinu og vill ljúka því af sem fyrst).

Þess ber þó að geta að ef um skýrslutöku fyrir dómi er að ræða getur verið ómögulegt að breyta tímasetningu.

Á vefsíðu 112 má finna myndrænar lýsingar á hvað gerist í Barnahúsi.