Ofbeldi og vanræksla á fósturheimili
Barnaverndarþjónustu sem ráðstafar barni í fóstur ber að fylgjast með aðbúnaði og líðan barns á meðan vistuninni stendur með það að markmiði að tryggja að ráðstöfunin nái tilgangi sínum og að réttindi barnsins séu virt. Barnaverndarþjónustan skal tryggja að fyrirkomulag úrræðisins og framkvæmd vistunar barna utan heimilis sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða, staðla og reglna skv. ákvæðum barnaverndarlaga. Starfsmaður barnaverndarþjónustu skal heimsækja barnið á fósturheimilið. Mikilvægt er að ræða alltaf við barnið sjálft í heimsókninni og að barnið fái tækifæri til að ræða einslega við starfsmann.
Eftirlit með barni í fóstri
Hlutverk barnaverndarþjónustu í að fylgjast með gæðum og árangri fósturs:
Fylgjast náið með aðbúnaði og líðan barns
Tryggja að ráðstöfun þjóni tilgangi sínum
Afla nauðsynlegra upplýsinga eins og ástæða þykir til í því skyni að sinna þessu hlutverki
Leitast við að vera í reglubundnu sambandi við barn sem vistað er utan heimilis
Gefa barni kost á að tjá sig um aðbúnað og líðan sína í samræmi við aldur og þroska. Það þykir vænlegt að taka barnið út af fósturheimilinu á meðan rætt er við það, t.d. með því að fara með það í göngutúr eða bíltúr.
Heimsækja börn á fósturheimili eins oft og ástæða þykir til, eigi sjaldnar en tvisvar sinnum fyrsta árið sem ráðstöfun varir og einu sinni á ári eftir það.
Grípa til viðeigandi ráðstafana vegna barns ef í ljós kemur að meðferð barnsins í fóstri er óviðunandi eða aðstæður þannig að ekki er hægt að sýna fram á að aðbúnaður og öryggi barnsins sé tryggt.
Barnaverndarþjónusta gegnir eftirlitshlutverki með þeim börnum sem hún ráðstafar í vistun. BOFS og GEV fara ekki með eftirlit með einstaka ráðstöfunum barna á fósturheimili. Meti barnaverndarþjónusta sem svo að aðstæður eða aðbúnaður barns á fósturheimilinu sé ekki viðunandi eða að ráðstöfunin sé ekki að þjóna tilgangi sínum er það á ábyrgð barnaverndarþjónustu að grípa til viðeigandi aðgerða.
Ofbeldi og vanræksla á fósturheimili
Gerðar eru ríkari kröfur til fósturforeldra en gerðar eru til foreldra almennt. Fósturforeldrar skulu vera í stakk búnir til þess að veita barni trygga umönnun og öryggi og til að mæta þörfum barns sem búið hefur við ótryggar aðstæður eða átt við erfiðleika að etja. Barn á ekki að búa við aðstæður þar sem það býr við ofbeldi eða illa meðferð á fósturheimili.
Ef grunur leikur á að barn búi við óviðunandi aðstæður á fósturheimili skal barnaverndarþjónustan tafarlaust kanna málið og grípa til viðeigandi ráðstafana. Meta skal hvort þörf sé á að fjarlægja barnið án tafar af fósturheimilinu.
Tilkynning um aðstæður barns á fósturheimili
Tilkynningar varðandi aðstæður barns hjá fósturforeldri, svo og upplýsingar um að fósturforeldri vanræki hlutverk sitt skulu berast til barnaverndarþjónustu sem fer með mál barnsins. Fara skal með tilkynningar um aðstæður barns á fósturheimili eins og aðrar tilkynningar er berast varðandi barn.
Barnaverndarþjónustu ber að taka tilkynninguna fyrir og taka ákvörðun um könnun máls.
Starfsmaður barnaverndar skal ræða við barnið. Sé þess þörf getur barnaverndarþjónusta óskað eftir að barnið fari í könnunarviðtal í Barnahús.
Ábendingu vegna aðstæðna barns á fósturheimili skal senda á Gæða- og eftirlitsstofnun, sem metur hvort tilefni sé að hefja frumkvæðiseftirlit, veita áminningu eða afturkalla fósturleyfi.
Barnaverndarþjónusta getur tafarlaust rift fóstursamningi ef:
fósturbarn býr við slæman aðbúnað hjá fósturforeldrum
fósturforeldri fremur brot ákvæðum almennra hegningarlaga eða refsivert brot á ákvæðum barnaverndarlaga gagnvart fósturbarni eða öðru barni
fósturforeldri fremur alvarlegt brot á ákvæðum almennra hegningarlaga eða annarra laga
Staðfestur grunur um ofbeldi eða illa meðferð á fósturheimili
Sé staðfestur grunur um ofbeldi eða illa meðferð skal fjarlægja fósturbarn án tafar af fósturheimilinu hafi það ekki verið gert þegar. Þá skal finna viðeigandi úrræði fyrir barnið þar sem öryggi þess og velferð er tryggt.
Frekari málsmeðferð
Ef könnun barnaverndarþjónustu leiðir í ljós staðfestingu á grun um ofbeldi eða illa meðferð á fósturheimili þarf að taka ákvörðun hvort óska skuli eftir rannsókn lögreglu.
Einnig ber barnaverndarþjónustu að tilkynna staðfestan grun um illa meðferð barns á fósturheimili til Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála sem metur hvort hefja skuli frumkvæðiseftirlit, veita áminningu eða afturkalla fósturleyfi.