Könnun máls þegar grunur leikur á líkamlegu ofbeldi forsjáraðila eða heimilismanns gagnvart barni
Líkamlegt ofbeldi er ofbeldi sem beint er að börnum og hefur leitt til þess að barnið skaðast andlega og/eða líkamlega eða er líklegt til þess.
Barnið getur borið merki ofbeldisins eins og t.d. marbletti, brunasár eða beinbrot sem barnið og/eða foreldrar reyna að fela og eiga erfitt með að útskýra á trúverðugan hátt. Hins vegar er ekki alltaf um sjáanlega áverka að ræða, jafnvel þó að um alvarlegt ofbeldi sé að ræða. Líkamlegar refsingar teljast til líkamlegs ofbeldis, enda er slíkt til þess fallið að valda börnum andlegu og líkamlegu tjóni.
Verklag við könnun máls
Barnaverndarþjónusta tekur við tilkynningum um vanrækslu og/eða ofbeldi gagnvart börnum sem dvelja í umdæmi þjónustur. Starfsfólk barnaverndarþjónusta starfa samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 56/2004. Þegar starfsmenn barnaverndarþjónustu taka við tilkynningu þarf að gæta þess að ræða nafnleyndarákvæði þegar tilkynnt er skv. 16. gr. Starfsmaður þarf að fá sem gleggstar upplýsingar um barnið; nafn, heimilisfang, tengsl tilkynnanda við barnið og tilefni tilkynninga.
Þegar fyrir liggur ákvörðun um að hefja könnun verður að hafa hugfast að barnaverndarlög leggja áherslu á að sýna þurfi þeim er málið varðar fyllstu nærgætni og að könnun megi ekki vera umfangsmeiri en nauðsyn krefur. Koma þarf fram við alla aðila málsins af virðingu og jafnframt að hafa í huga að könnunin snýst um barnið og aðstæður þess og að hagsmunir allra aðila málsins falla ekki endilega saman. Hins vegar þarf að gæta að því að afla nægilegra upplýsinga til að varpa ljósi á málið. Að jafnaði skal rætt við barnið sem um ræðir.
Athuga þarf að 43. gr. barnaverndarlaga um rannsóknarheimildir gildir um könnun mála ef grunur leikur á að barn hafi verið beitt ofbeldi af hálfu forsjáraðila/heimilismanns. Það er m.a. gert með þeim hætti að starfsmaður barnaverndarnefndar ræðir við barn án vitundar forsjáraðila, s.s. í skóla eða leikskóla, og metur þannig líðan þess án íhlutunar meints geranda. Forsjáraðili skal látinn vita af viðtalinu eins fljótt og kostur er og helst samdægurs. Ef forsjárhafi er meintur gerandi og/eða samstarf næst ekki um könnun máls, getur verið nauðsynlegt að beita neyðarráðstöfun skv. 31. gr. barnaverndarlaga.
Einnig þarf að afla nauðsynlegra upplýsinga til að upplýsa málið, s.s. frá heilsugæslu, skóla og lögreglu. Almennt skal afla skriflegra upplýsinga frá umræddum aðilum.
Atriði sem þarf sérstaklega að hafa í huga þegar könnun lýtur að grun um líkamlegt ofbeldi:
að meta hvort barnið sé í hættu eða hvort ástæða sé til þess að hafa áhyggjur af því
að safna staðreyndum varðandi þann grun sem fram hefur komið
að meta þörf á aðgerðum gagnvart barninu og mögulega öðrum
að taka ákvörðun um hvort óska eigi eftir læknisskoðun og/eða lögreglurannsókn
að tala við barn og tryggja aðgang þess að fullorðnum aðila sem það getur rætt við reglulega um líðan sína og aðstæður
Að jafnaði skal óska eftir læknisskoðun ef grunur um ofbeldi hefur verið staðfestur, sjáanlegir áverkar eru á barni, grunur leikur á að um sé að ræða endurtekið ofbeldi, grunur leikur á að barn hafi orðið fyrir innvortis áverkum, áverkum á höfði eða að um beinbrot geti verið að ræða. Hafa þarf í huga að líkamlegir áverkar geta leynst undir fatnaði barna. Ef barnaverndarnefnd tekur ákvörðun um að óska ekki læknisskoðunar er nauðsynlegt að í málinu sé skráður rökstuðningur fyrir þeirri ákvörðun.
Barnaverndarnefndir þurfa ávallt að kanna mál sjálfstætt á grundvelli barnaverndarlaga óháð því hvort óskað er lögreglurannsóknar.
Barnaverndarnefnd verður alltaf að hafa frumkvæði að því að meta hvort óska skuli lögreglurannsóknar vegna brots gegn barni. Samkvæmt 20. gr. rg. nr. 56/2004 um málsmeðferð skal barnaverndarnefnd að jafnaði óska lögreglurannsóknar ef grunur leikur á að alvarlegt refsivert brot hafi verið framið gagnvart barni.
Barnaverndarnefnd getur við könnun máls óskað eftir könnunarviðtali í Barnahúsi áður en ákvörðun er tekin um lögreglurannsókn.
Leita skal samþykkis forsjáraðila sem hefur barnið í sinni umsjá og haft samráð við barn eftir atvikum. Ef samþykki liggur ekki fyrir eða ekki þykir rétt að upplýsa foreldri um efni tilkynningar vegna ríkra rannsóknarhagsmuna getur barnaverndarnefnd óskað lögreglurannsóknar ef grunur leikur á að velferð, lífi eða heilsu barns eða annarra sé stefnt í verulega hættu. Mikilvægt er að bóka ákvarðanir sem barnaverndarnefnd/starfsmenn taka um þetta og ástæður þeirra.
Þegar metið er hvort um alvarlegt refsivert brot sé að ræða, sem skylt er að óska eftir lögreglurannsókn vegna, skal m.a. hafa í huga hvort
um rökstuddan grun er að ræða (sem dæmi um rökstuddan grun má nefna ef barn eða foreldri hefur skýrt frá eða staðfest ofbeldi eða ef vitni er að ofbeldinu).
sjáanlegir áverkar eru á barninu.
um er að ræða líkamlegt ofbeldi sem ekki getur talist til líkamlegra refsinga.
um endurtekið ofbeldi er að ræða (þ. á m. líkamlegar refsingar).
foreldri neitar að horfast í augu við atvikið og/eða neitar að þiggja nauðsynlegan stuðning.
Ef barnaverndarnefnd óskar ekki eftir lögreglurannsókn er nauðsynlegt að í málinu sé skráður rökstuðningur fyrir þeirri ákvörðun.
Þegar barn er brotaþoli vegna líkamlegs ofbeldis gilda almennar reglur um börn sem vitni. Dómari tekur ákvörðun um hvort skýrslutaka barna undir 15 ára aldri skuli fara fram í héraðsdómi eða Barnahúsi. Lögregla tekur skýrslur af börnum 15 ára og eldri.
Hlutverk starfsmanns barnaverndarnefndar við rannsókn máls hjá lögreglu felst fyrst og fremst í því að vera viðstaddur skýrslutöku, þ.e. að fylgjast með því hvernig barninu líður og tryggja að skýrslutakan gangi ekki gegn hagsmunum barnsins. Barnaverndarstarfsmaður getur komið með ábendingar eða gert athugasemdir við lögreglu ef ástæða þykir til.
Einnig þarf barnaverndarstarfsmaður að fylgjast með því sem fram kemur við skýrslutöku og meta hvaða áhrif þær upplýsingar hafa á meðferð málsins.
Nánari leiðbeiningar um könnun máls er að finna í 22. gr. og VIII. kafla barnaverndarlaga. nr. 80/2002. Sjá einnig V. og VII. kafla reglugerðar nr. 56/2004 um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd og kafla 9 og 11 í Handbók fyrir barnaverndarnefndir.
Ávallt þarf að meta þörf fyrir stuðningsúrræði þegar mál hefur verið nægjanlega kannað að mati barnaverndarnefndar. Það er á ábyrgð barnaverndarnefndar að hafa tiltæk úrræði til stuðnings barni og/eða fjölskyldu inni á heimili barnsins sbr. 24. gr. bvl. og úrræði til að taka á móti börnum í neyðartilvikum sbr. 84. gr. bvl. Ef þörf er á því að vista barn á fóstur- eða meðferðarheimili ber að senda umsókn til Barnaverndarstofu áður en vistun hefst.
Fyrsti stuðningur við barn og/eða fjölskyldu þess er alla jafna veittur inni á heimili barnsins til að raska sem minnst högum þess. Að leiðbeina foreldrum um uppeldi og aðbúnað barns er úrræði sem huga þarf að hvort sem það er notað eitt sér eða til viðbótar við ýmis önnur úrræði. Tryggja þarf að foreldrar sæki um og nýti sér þá þjónustu sem talin er nauðsynleg fyrir barnið og veitt er í öðrum kerfum, s.s. félagsþjónustu, svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra o.fl. Meta þarf hvaða stuðningur og/eða meðferð er viðeigandi fyrir barnið, s.s. viðtöl hjá sjálfstætt starfandi sérfræðingi, t.d. sálfræðingi eða félagsráðgjafa. Þá þarf að meta hvort barnið þurfi að komast í frekari greiningu og meðferð, t.d. á barnageðdeild. Einnig getur þurft að útvega barni eða fjölskyldu tilsjónarmann, persónulegan ráðgjafa eða stuðningsfjölskyldu.
Gera þarf skriflega áætlun um stuðning við barn og mögulega fjölskylduna alla sbr. 23. gr. bvl. og ákvæði reglugerðar um málsmeðferð. Það auðveldar stjórnun og yfirsýn, skapar samfellu í vinnslu máls, er hluti af því að vinna opið auk þess sem áætlun gerir vinnu með barni, fjölskyldu þess og mögulega öðrum auðveldari og skilvirkari.
Nánari leiðbeiningar um stuðningsúrræði er að finna í VI. kafla bvl. nr. 80/2002. Sjá einnig III., V. og VII. kafla reglugerðar nr. 56/2004 um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd og Handbók fyrir barnaverndarnefndir. Þá eru nánari upplýsingar um stuðningsúrræði á vegum Barnaverndarstofu að finna á heimasíðu stofunnar: www.bofs.is.