Stuðningur skal ákveðinn með hliðsjón af þeim markmiðum sem unnið er að á meðan vistun stendur. Stuðningurinn í máli á að vera í samræmi við og til þess fallinn að ná fram þeim markmiðum sem stefnt er að með vistun, sbr. 5. lið.
Hér þarf að telja upp þann stuðning sem á að veita á meðan vistun stendur miðað við þarfir barns eins og þær eru metnar út frá niðurstöðu könnunar. Fjalla þarf um hvernig árangur verður metinn af hverju og einu úrræði/inngripi/þjónustuþætti. Þetta á sérstaklega við um styrkt fóstur en einnig um aðrar vistanir.
Dæmi um stuðningsúrræði í 33. gr. áætlun:
Meðferðarviðtöl fyrir barn
Sérstök þjálfun barns
Svo sem vegna röskunar á einhverfurófi eða annarra þroskaraskana, (félags)færniþjálfun, sjúkra-/iðjuþjálfun, talþjálfun o.s.frv.
Heilbrigðisþjónusta við barnið
Sérstakur stuðningur við barn í skóla
Stuðningsfulltrúi
Námsstuðningur
Sérkennsla
Fagteymi í skóla.
Handleiðsla við fósturforeldra
Undirbúningur fósturforeldra áður en barn kemur á fósturheimilið (ef ekki komið fram áður).
Almenn handleiðsla eða annar stuðningur við fósturforeldra á meðan fóstri stendur.
Sérhæfð handleiðsla við fósturforeldra frá sérfræðingi á sviði þess vanda sem barn glímir við.
Aukið vinnuframlag fósturforeldra
Ef umönnunarþörf barns sem fara á í styrkt fóstur er metin þannig að þörf sé talin á auknum greiðslum til fósturforeldra vegna aukins vinnuframlags skv. 2. mgr. 6. gr. reglugerðar um fóstur þarf að taka fram hvaða skilyrðum þær greiðslur verða háðar, þ.e. í hverju aukna vinnuframlagið felst og hvort þörf er á sérstakri þjálfun, menntun eða aukinni handleiðslu til fósturforeldra. (Barna- og fjölskyldustofa og barnaverndarþjónusta ákveða síðan í sameiningu í fóstursamningi hvort um auknar greiðslur verður að ræða og hver ofangreind skilyrði skulu vera).
Annar stuðningur við barn, kyn- eða fósturforeldra
Gæti varðað fyrirhugaðar hvíldarinnlagnir barns og/eða stuðning við barn og kynforeldra meðan á heimsóknum og aðlögun barns að heimili þeirra stendur, eflingu á foreldrafærni eða meðferð kynforeldra (svo sem sálfræðimeðferð, geðlæknismeðferð, meðferð vegna fíknivanda) o.s.frv.
Við hvert ofangreindra atriða þarf eftir því sem við á að taka fram:
Hvernig stuðningur er veittur (til dæmis símtöl, skype, heimsókn, viðtöl, o.s.frv.).
Hvar stuðningurinn er veittur (á heimili fósturforeldra og/eða kynforeldra eða annars staðar, s.s. í skóla eða heilbrigðisstofnun).
Hverjir veita stuðninginn og taka þátt í þjónustunni (s.s. hvort og hvernig fósturforeldrar og/eða kynforeldrar barns verði þátttakendur). Ef fósturforeldrar eða kynforeldrar eru ekki beinir þátttakendur í stuðningi eða meðferð við barn er mikilvægt að tilgreina hvort og hvernig þau verði upplýst um áhrif stuðnings eða meðferðar á líðan og hegðun barns svo þau geti brugðist við fyrirsjáanlegum breytingum með viðeigandi hætti.
Hve oft stuðningurinn skuli inntur af hendi (vikulega, mánaðarlega o.s.frv.).
Hve lengi stuðningur á að vara.
Hvað tekur við ef stuðningi er ætlað að vara skemur en tímabil áætlunar.
Hvernig árangur verður metinn.