Velheppnað málþing um fyrstu þrjú ár innleiðingar farsældarlaganna (hlekkur á upptöku)
30. janúar 2025
Farsæld til framtíðar - málþing um fyrstu þrjú ár innleiðingar farsældarlaganna fór fram á Grandhótel mánudaginn 27. janúar síðastliðinn. Um 160 boðsgestir mættu í sal og um 700 fylgdust með á streymi.


Á málþinginu var farið yfir fyrstu þrjú ár innleiðingar laganna hjá hinum ýmsu stofnunum og sveitarfélögum sem hafa hlutverk samkvæmt farsældarlögunum en einnig var horft til framtíðar. Nú þegar 3 ár eru liðin frá gildistöku laganna stöndum við á ákveðnum tímamótunum og því gagnlegt að horfa yfir farinn veg, ræða það hvar við erum stödd, hvernig okkur hefur tekist til og sjá hverju vinna að farsæld barna hefur skilað.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra setti þingið og fór meðal annars yfir verkefni sem ráðuneytið hefur lagt sérstaklega áherslu á síðustu misseri, það er tilkomu svæðisbundinna farsældarráða ásamt kynningarátaki ætlað börnum og foreldrum. Einnig sagði ráðherra frá verkefnum sem framundan eru og ætlað er að vinna að farsæld allra barna á Íslandi.


Frumkvöðlasveitarfélögin, Akureyri, Akranes, Árborg og Vestmannaeyjar sögðu frá reynslu sinni við innleiðingu farsældarlaganna, áskorunum og tækifærum. Samstarfssamningur sveitarfélaganna við MRN lauk nú um áramótin en þeim var markað þriggja ára tímabil til að starfa sem frumkvöðlasveitarfélög og draga þannig vagninn þegar kemur að innleiðingu farsældarlaganna í þéttu samstarfi við MRN, SÍS og BOFS. Samvinnan hefur bæði verið lærdómsrík og árangursrík.


Eftir hádegi voru áhugaverð örerindi frá ýmsum þjónustuveitendum sem sinna þjónustu við börn og foreldra. Við fengum m.a. að heyra um verklag, framkvæmd og dæmi um þann ávinning sem hefur orðið af innleiðingu farsældarlaganna frá Sigurði í Húnaþingi vestra, Elísu í Kópavogi, Höllu Dröfn frá Fjölbrautaskóla Suðurlands, Sólveigu frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Þorleifi frá farsældarráðunum, Vigdísi og Christel frá Akranesi, Mariu Liv og Sólbjörtu Ósk frá Barnavernd Reykjavíkur, Jóhönnu Lilju frá þjónustuteymi Grindvíkinga, Páli Ólafssyni frá BOFS, Önnu Tryggvadóttur frá MRN og lokaorðin átti Ólöf Ásta forstjóri Barna- og fjölskyldustofu.
Fundarstjóri var Freyja Sigurgeirsdóttir, lögfræðingur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.


Við viljum þakka öllum þeim sem héldu erindi, þeim sem mættu og fylgdust með í streymi.
Hægt er að nálgast upptöku af málþinginu og horfa á í heild eða velja eftir þeim erindum sem voru flutt:
Farsæld til framtíðar - fyrstu þrjú ár innleiðingar farsældarlaganna