Vegna fréttar á mbl.is
29. apríl 2025
Barna- og fjölskyldustofa vill koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri vegna fréttar á mbl.is

Í frétt mbl.is 25.4.2025 undir yfirskriftinni Mörg börn með alvarlegan vanda bíða eftir meðferð komu eftirfarandi rangfærslur fram: „Samkvæmt heimildum mbl.is er einungis hægt að vera á biðlista eftir einu meðferðarúrræði í einu og gætu börn sem vitað er að þurfa á langtímameðferð að halda verið skráð á aðra biðlista.“ Hið rétta er að barnaverndarþjónusta getur ekki sótt um fyrir barn í fjölkerfameðferð (hér eftir MST) og á meðferðarheimili á sama tíma. Ástæðan er sú að eitt af markmiðum MST er að barn geti búið heima hjá sér á meðan á meðferð stendur þar sem unnið er með barnið og foreldra þess og nærumhverfi. Að öðru leyti eru ekki takmörk fyrir því hvað barnaverndarþjónustan sækir um fyrir skjólstæðinga sína. Í greiningu og meðferð á Blönduhlíð er metin þörf fyrir langtímameðferð skjólstæðinga.
Í sömu grein Mbl kemur eftirfarandi fram: „Drengir með mjög þungan vanda hafa þó í einhverjum tilfellum verið vistaðir í langtímameðferð á Stuðlum, en þar eru einnig börn í gæsluvarðhaldi og afplánun.“ Samkvæmt reglugerð um afplánun sakhæfra barna þá ber Barna- og fjölskyldustofu að veita þeim einstaklingum sem sæta gæsluvarðhaldi eða afplánun sambærilega meðferð og öðrum börnum á meðferðarheimilum Barna- og fjölskyldustofu. Í kjölfar þess að samningi Sameinuðu þjóðanna var veitt lagagildi hér á landi er óheimilt að börn sæti gæsluvarðhaldi eða afpláni dóma með fullorðnum. Stuðlar hafa tekið við börnum í þessari stöðu frá því að framangreind lög tóku gildi þann 13. mars 2013.
Í greininni fjallar Mbl um MST meðferð með eftirfarandi hætti: „Er það yfirleitt fyrsta inngrip þegar barn er farið að sýna mikla áhættuhegðun, en úrræðið hentar ekki þegar vandi barnsins er orðinn alvarlegur, að mati starfsfólks barnaverndarþjónustunnar.“ Barna- og fjölskyldustofa telur í þessu samhengi mikilvægt að koma því á framfæri að MST er úrræði sem hefur hjálpað hundruðum fjölskyldna og komið í veg fyrir alvarlegt inngrip eins og vistun utan heimilis. Árangur er mjög góður og ekki hægt að segja fyrir fram hvaða mál ganga og hvaða mál ganga ekki. Undanfarin ár hefur MST farið inn í mörg mjög þung mál og náð árangri í slíkum málum. MST virkar ekki fyrir alla og af þeim ástæðum eru önnur úrræði. Við val á úrræði ber að gæta meðalhófs út frá því hvaða inngrip getur komið að gagni auk þess að vera sem minnst íþyngjandi fyrir barnið sjálft og fjölskyldu þess. Það er ekkert meðferðarúrræði sem virkar fyrir alla og sumir þurfa meira en aðrir. Barna- og fjölskyldustofa telur að fréttaflutningur sem þessi sé til þess fallinn að draga úr trúverðugleika öflugs og góðs meðferðarúrræðis sem MST er.
Við minnum Mbl sem og aðra fjölmiðla á að vanda umfjöllun um börn og sérstaklega börn í mjög viðkvæmri stöðu (https://www.barn.is/media/utgafur/vidmid-um-opinbera-umfjollun-um-born.pdf ). Í þessu samhengi er rétt að árétta að umfjöllun á undanförnum mánuðum hefur ekki tekið mið af framangreindum viðmiðum.
