Vegna frétta um meðferðarheimilið Blönduhlíð
21. mars 2025
Í ljósi frétta hjá Ríkisútvarpinu þann 20. mars sl. telur Barna- og fjölskyldustofa (BOFS) rétt að koma á framfæri eftirfarandi leiðréttingum um starfsemi Blönduhlíðar á Vogi.

Meðferðarheimilið Blönduhlíð er fyrir unglinga með hegðunar og vímuefnavanda. Starfsemin hófst í byrjun febrúar sl. og hafa fimm skjólstæðingar verið innskrifaðir síðan þá. Meðferðarstarfið hefur gengið framar vonum þessar fyrstu vikur.
Meðferðarheimilið Blönduhlíð er opið úrræði sem felur í sér að skjólstæðingar þar eru ekki læstir inni auk þess sem skjólstæðingur er ekki stöðvaður með líkamlegu afli ætli hann sér að hlaupa á brott. Nokkuð hefur verið um brotthlaup þessar fyrstu vikur eins og við var búist og er hluti af starfseminni. Brotthlaup skilgreinast ekki sem óvænt eða alvarleg atvik eitt og sér en ákveðnu verklagi er ávallt fylgt til að fá skjólstæðinga sem fyrst í öruggt skjól. Ef óvænt eða alvarleg atvik eiga sér stað þá ber að tilkynna slíkt til gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála.
Barna- og fjölskyldustofa áréttar ennfremur að stofnunin hefur ekki heimild til þess að fjalla sérstaklega um einstök mál sem eru til meðferðar hjá BOFS.