Tilkynningum vegna ofbeldis og áhættuhegðunar fjölgar á fyrstu níu mánuðum ársins 2025
18. desember 2025
Í þessari samantekt er að finna samanburð á fjölda tilkynninga til barnaverndarþjónusta samkvæmt sískráningu barnaverndar á fyrstu níu mánuðum áranna 2023, 2024 og 2025.

Í þessari samantekt er að finna samanburð á fjölda tilkynninga til barnaverndarþjónusta samkvæmt sískráningu barnaverndar á fyrstu níu mánuðum áranna 2023, 2024 og 2025.
Tilkynningar til barnaverndar voru 13.721 á fyrstu níu mánuðum ársins 2025 en voru 12.266 á sama tímabili árið á undan. Þetta er fjölgun um 11,9% á milli ára. Fjölgun tilkynninga á milli ára átti sér helst stað í nágrenni Reykjavíkur (17,1%) og á landsbyggð (12,4%), ólíkt því sem sjá mátti fyrir ári síðan þegar fjölgun tilkynninga milli 2023 og 2024 átti sér helst stað í Reykjavík. Líkt og fyrri ár voru flestar tilkynningar á fyrstu níu mánuðum ársins 2025 vegna vanrækslu en heilt á litið fjölgaði þeim þó lítið á milli ára. Tilkynningum vegna ofbeldis gegn börnum fjölgaði hins vegar um 19,1% og tilkynningum vegna áhættuhegðunar barna fjölgaði um 20,2%. Hlutfallslega fjölgaði tilkynningum vegna ofbeldis mest í undirflokknum tilfinningalegt ofbeldi (fjölgun úr 1.670 árið 2024 í 2.030 árið 2025) og hlutfallslega fjölgaði tilkynningum vegna áhættuhegðunar mest í undirflokkunum barn kemur sér undan forsjá (fjölgun úr 187 í 274 milli ára) og afbrot barns (fjölgun úr 760 í 1.076 á milli ára).
Samanlagður fjöldi barna sem tilkynnt var um á fyrstu níu mánuðum ársins 2025 var 10.379 börn en sambærilegur fjöldi barna fyrir árið 2024 var 9.333 börn og 8.484 börn árið 2023. Þess ber að geta að tölur um fjölda barna sem tilkynnt var um eru fengnar þannig að fjöldi barna sem tilkynnt var um í hverjum mánuði fyrir sig er lagður saman. Tilkynningar geta borist um sama barnið á milli mánaða, þannig að hér er ekki alltaf um að ræða fjölda einstaklinga yfir ákveðið tímabil heldur samanlagðan heildarfjölda barna í hverjum mánuði fyrir sig.
