Tilkynningum vegna áhættuhegðunar barna heldur áfram að fjölga
5. nóvember 2025
Í þessari samantekt er að finna samanburð á fjölda tilkynninga til barnaverndarþjónusta samkvæmt sískráningu barnaverndar á fyrstu sex mánuðum áranna 2023, 2024 og 2025.

Tilkynningar til barnaverndar voru 9.610 á fyrstu sex mánuðum ársins 2025 en voru 8.515 á sama tímabili árið á undan. Þetta er fjölgun um 12,9% á milli ára. Fjölgun tilkynninga á milli ára átti sér helst stað á landsbyggð (17,8%) og í nágrenni Reykjavíkur (19,4%) en var minni í Reykjavík (3,4%). Líkt og fyrri ár voru flestar tilkynningar á fyrstu sex mánuðum ársins 2025 vegna vanrækslu en þeim fjölgaði þó minna á milli ára en tilkynningum vegna ofbeldis gegn börnum, sem fjölgaði um 22,6%, og tilkynningum vegna áhættuhegðunar barna, sem fjölgaði um 17,2%. Ef tilkynningar vegna áhættuhegðunar barna eru skoðaðar yfir fyrstu sex mánuði ársins á tveggja ára tímabili, má sjá að slíkum tilkynningum hefur fjölgað um tæp 38% frá 2023-2025. Heilt á litið var ekki fjölgun á tilkynningum um áhættuhegðun barna vegna neyslu á vímuefnum eða öðrum skaðlegum efnum á milli 2024 og 2025, sem skýrist fyrst og fremst af fækkun tilkynninga á meðal stúlkna. Þess ber að geta að umtalsverð fjölgun var á tilkynningum í umræddum flokki árið á undan.
Samanlagður fjöldi barna sem tilkynnt var um á fyrstu sex mánuðum ársins 2025 var 7.214 börn en sambærilegur fjöldi barna fyrir árið 2024 var 6.481 börn og 5.946 börn árið 2023. Þess ber að geta að tölur um fjölda barna sem tilkynnt var um eru fengnar þannig að fjöldi barna sem tilkynnt var um í hverjum mánuði fyrir sig er lagður saman. Tilkynningar geta borist um sama barnið á milli mánaða, þannig að hér er ekki alltaf um að ræða fjölda einstaklinga yfir ákveðið tímabil heldur samanlagðan heildarfjölda barna í hverjum mánuði fyrir sig.
