Fara beint í efnið
Barna- og fjölskyldustofa Forsíða
Barna- og fjölskyldustofa Forsíða

Barna- og fjölskyldustofa

Tilkynningum fjölgar á fyrstu 6 mánuðum ársins, mest vegna áhættuhegðunar

27. nóvember 2024

Tilkynningum til barnaverndarþjónusta fjölgaði um 10,9% á fyrstu sex mánuðum ársins 2024 miðað við sama tímabil árið á undan. Tilkynningum fjölgaði í öllum landshlutum, mest í Reykjavík eða um 18,4%.

Tölfræði

Flestar tilkynningar á fyrstu sex mánuðum ársins 2024 voru vegna vanrækslu líkt og árin á undan, eða 41,1% allra tilkynninga. Hlutfall tilkynninga vegna áhættuhegðunar barna var 34% á fyrstu sex mánuðum ársins 2024. Hlutfall tilkynninga vegna ofbeldis á fyrstu sex mánuðum ársins 2024 var 24,3% og hlutfall tilkynninga þar sem heilsu eða lífi ófædds barns var stefnt í hættu var 0,6% allra tilkynninga.

Vanræksla

Tilkynningum varðandi líkamlegrar vanrækslu fækkaði um 20,6% á fyrsta hálfa ári 2024 miðað við sama tímabil árið 2023, eftir 46.8% fjölgun á árinu 2023. Tilkynningum vegna vanrækslu á umsjón og eftirliti fjölgaði um 9,8%. Við slíkum tilkynningum er merkt hvort að tilkynning berist vegna þess að foreldri er í áfengis- og/eða fíkniefnaneyslu og fækkaði slíkum tilkynningum um 5,6% á fyrstu 6 mánuðum ársins 2024 miðað við sama tímabili árið á undan.

Ofbeldi

Tilkynningar á fyrsta hálfa árinu 2024 vegna ofbeldis voru 3% fleiri en á sama tímabili árið 2023. Tilkynningum vegna líkamlegs ofbeldis fjölgaði um 15,2% á fyrstu sex mánuðum ársins 2024 miðað við sama tímabil árið á undan. En tilkynningum hefur fjölgað úr 550 tilkynningum í 742 tilkynningar fyrir sama tímabil frá árinu 2022. Tilkynningum vegna tilfinningalegs ofbeldis fækkaði um 0,4% og einnig fækkaði tilkynningum vegna kynferðisofbeldis um 10,7%.

Áhættuhegðun barns

Mest fjölgaði tilkynningum í flokki áhættuhegðunar á fyrstu 6 mánuðum ársins 2024 samanborið við árið áður, eða um 17,6% auk þess sem tilkynningum fjölgaði í nær öllum undirflokkum. Ber þar helst að nefna að tilkynningum um að barn neyti áfengis eða annarra efna sem eru líkleg til að valda því skaða fjölgaði um 96,2% eða úr 312 tilkynningum í 612 tilkynningar. Fjölgunin er meiri hjá stúlkum en hjá drengjum. Þá hefur einnig verið aukning á tilkynningum um að barn komi sér undan forsjá forráðamanna og/eða virðir ekki reglur um útivistartíma eða um 44,6% og tilkynningum um að barn beiti ofbeldi hefur fjölgað um 24,4% á fyrstu sex mánuðum áranna 2024 miðað við sama tímabil árið á undan.

Flestar tilkynningar berast frá lögreglu

Líkt og áður bárust flestar tilkynningar frá lögreglu eða 38,8% fyrsta hálfa árið 2024 og hefur þeim fjölgað um 21,2% miðað við sama tímabil árið á undan. Næst flestar tilkynningar bárust frá skólum þar á eftir heilbrigðisþjónustu, í takt við sama tímabil fyrri ára. Þá má sjá að stór hluti tilkynninga er að berast úr nánasta umhverfi barns. Samanlagður fjöldi tilkynninga frá barninu sjálfu, ættingjum barns, nágrönnum og öðru nærumhverfi eru 1.204 eða 14,1% allra tilkynninga og er það fjölgun um 15,2% miðað við sama tímabil árið á undan.

Samanlagður fjöldi barna sem tilkynnt var um á fyrstu sex mánuðum ársins 2024 var 6.481 börn en 5.946 börn árið á undan og 5.206 árið 2022. Þess ber að geta að tölur um fjölda barna sem tilkynnt var um eru fengnar þannig að fjöldi barna sem tilkynnt var um í hverjum mánuði fyrir sig er lagður saman. Tilkynningar geta borist um sama barnið á milli mánaða, þannig að hér er ekki alltaf um að ræða fjölda einstaklinga yfir ákveðið tímabil heldur samanlagðan heildarfjölda barna í hverjum mánuði fyrir sig.