Tilkynningum fjölgar á fyrstu 3 mánuðum ársins, mest vegna áhættuhegðunar barna
18. júlí 2024
Samanburður á fjölda tilkynninga til barnaverndarþjónusta á fyrstu þremur mánuðum áranna 2022 - 2024
Tilkynningum til barnaverndarþjónusta fjölgaði um 16,7% á fyrstu þremur mánuðum ársins 2024 miðað við sama tímabil árið á undan. Tilkynningum fjölgaði í öllum landshlutum, mest í Reykjavík eða um 20,3%.
Flestar tilkynningar á fyrstu þremur mánuðum ársins 2024 voru vegna vanrækslu líkt og árin á undan eða 40,4% allra tilkynninga. Næst flestar tilkynningar voru vegna áhættuhegðunar barns eða 33,9% sem er töluvert hærra hlutfall en árin áður. Hlutfall tilkynninga vegna ofbeldis voru 23,2%. Hlutfall tilkynninga þar sem að heilsu eða lífi ófædds barns var stefnt í hættu var um 0,5% á fyrstu þremur mánuðum ársins 2024.
Tilkynningum vegna vanrækslu varðandi umsjón og eftirlit fjölgaði um 10,9% á fyrstu þremur mánuðum ársins 2024 sé miðað við sama tímabil árið 2023 en slíkum tilkynningum hefur farið fjölgandi undanfarin ár. Í 34,1% tilvika bárust slíkar tilkynningar vegna áfengis- og/eða fíkniefnaneyslu foreldris, sem er örlítið lægra hlutfall en árin áður.
Tilkynningum vegna líkamlegs og tilfinningalegs ofbeldis hefur fjölgað ár frá ári, þegar bornar eru saman tilkynningar á fyrstu þremur mánuðum áranna. Til að mynda fjölgaði tilkynningum vegna líkamlegs ofbeldis á fyrstu þremur mánuðum 2024 um 34,9% miðað við sama tímabil árið áður en 71,3% ef miðað er við 2022.
Mikil aukning hefur orðið á tilkynningum vegna áhættuhegðunar á fyrsta fjórðungi ársins 2024 ef miðað er við sama tímabil árin á undan. Almennt fjölgaði tilkynningum í flokknum áhættuhegðun um 31,8% auk þess sem tilkynningum hefur fjölgað í öllum undirflokkum. Ber þar helst að nefna tilkynningum vegna neyslu barns á vímuefnum sem slíkum tilkynningum hefur fjölgað um 118,9% á milli ára.
Þá hefur einnig verið mikil aukning á tilkynningum vegna þess að barn stefnir eigin heilsu og þroska í hættu, eða um 17,5% á fyrsta ársfjórðungi ársins 2024 miðað við sama tímabil árið á undan en 66,5% ef miðað er við sama tímabil ársins 2022.
Tilkynningum fjölgar frá lögreglu og nágrönnum
Flestar tilkynningar bárust frá lögreglu, eða 40,4% allra tilkynninga á fyrstu þremur mánuðum ársins 2024 og hefur þeim fjölgað töluvert miðað við árin á undan. Tilkynningar fóru úr 1.234 í 1.802 sem nemur 46% aukningu á milli ára. Aftur á móti fjölgaði hlutfallslega mest tilkynningum frá nágrönnum, 95,1%, ef bornar eru saman tölur fyrsta ársfjórðungs áranna 2024 og 2023, en slíkar tilkynningar fóru úr 103 í 201.
Samanlagður fjöldi barna sem tilkynnt var um á fyrstu þremur mánuðum ársins 20224 var 3.329 börn en sambærilegur fjöldi fyrir árið á undan var 2.929 börn. Þess ber að geta að tölur um fjölda barna sem tilkynnt var um eru fengnar þannig að fjöldi barna sem tilkynnt var um í hverjum mánuði fyrir sig er lagður saman. Tilkynningar geta borist um sama barnið á milli mánaða, þannig að hér er ekki alltaf um að ræða fjölda einstaklinga yfir ákveðið tímabil heldur samanlagðan heildarfjölda barna í hverjum mánuði fyrir sig.
Skýrslan í heild: