Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Barna- og fjölskyldustofa Forsíða
Barna- og fjölskyldustofa Forsíða

Barna- og fjölskyldustofa

Skráningar í farsæld

6. janúar 2026

Barna- og fjölskyldustofa birtir nú tölur um fjölda mála í samþættri þjónustu hjá tengiliðum farsældar í heilsugæslu, í leik- grunn- og framhaldsskólum, hjá félagsþjónustu og hjá málstjórum farsældar í félagsþjónustu og barnavernd fyrir fyrstu fjóra og fyrstu átta mánuði ársins 2025.

Barna- og fjölskyldustofa birtir nú tölur um fjölda mála í samþættri þjónustu hjá tengiliðum farsældar í heilsugæslu, í leik- grunn- og framhaldsskólum, hjá félagsþjónustu og hjá málstjórum farsældar í félagsþjónustu og barnavernd fyrir fyrstu fjóra og fyrstu átta mánuði ársins 2025. Hér er um að ræða upplýsingar um nýjar beiðnir um samþættingu þjónustu á tímabilinu og um fjölda mála sem voru í vinnslu í lok apríl og lok ágúst 2025. Þessum upplýsingum er safnað þrisvar á ári, næst fyrir september til desember 2025.

Helstu niðurstöður

Flest sveitarfélög skiluðu inn skráningu fyrir fyrstu fjóra mánuði ársins 2025, en þó skiluðu ekki öll þeirra allri skráningunni sem fellur undir sveitarfélagið, það er upplýsingum frá öllum tengiliðum farsældar í leikskólum, grunnskólum og félagsþjónustu og málstjórum farsældar í félagsþjónustu og barnavernd. Heldur færri sveitarfélög skiluðu skráningu fyrir tímabilið maí til ágúst. Þá voru 80% framhaldsskóla og rúmlega 50% af tengiliðum á heilsugæslu sem skiluðu inn skráningu fyrir maí til ágúst, sem eru einnig heldur færri en fyrir tímabilið janúar til apríl.

Samkvæmt innsendri skráningu voru í lok ágúst 2025 voru 4.488 mál barna í vinnslu í samþættri þjónustu hjá tengiliðum og málstjórum farsældar samanborið við 4.676 mál við lok apríl 2025. Ekki er hægt að draga þá ályktun að málum í samþættingu þjónustu hafi fækkað þar sem færri skiluðu inn skráningu fyrir seinna tímabilið sem hér er til umfjöllunar. Flest mál voru hjá tengiliðum í grunnskólum, eða 41,5%, en þar á eftir hjá málstjórum í félagsþjónustu, eða 33,2% mála. Skipting mála eftir staðsetningu er svipuð fyrir bæði tímabilin en langflest mál eru til vinnslu á höfuðborgarsvæðinu þar sem 64% barna á Íslandi búa.

Foreldrar og/eða barn geta óskað eftir samþættingu þjónustu með því að leita til tengiliðar farsældar eða málstjóra farsældar. Fjöldi nýrra beiðna um samþættingu þjónustu á tímabilinu maí til ágúst 2025 var 631 beiðni, samanborið við 1.328 á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2025. Hafa þarf í huga að vænta má færri beiðna yfir sumartímann þar sem grunn- og framhaldsskólar eru lokaðir yfir sumarmánuðina. Oftast bárust nýjar beiðnir um samþættingu þjónustu hjá tengiliði farsældar í grunnskóla, eða í tæplega 46% tilvika, næst oftast hjá tengiliðum í leikskóla og þar á eftir hjá málstjórum í félagsþjónustu.

Hlutfall barna á Íslandi sem er á grunnskólaaldri er 56% og því má telja eðlilegt að flestir foreldrar/börn leiti fyrst til tengiliðar í grunnskóla. Flestar nýjar beiðnir um samþættingu þjónustu voru á höfuðborgarsvæðinu og oftar var óskað eftir samþættingu þjónustu fyrir drengi en stúlkur. Hlutfall barna af erlendum uppruna á Íslandi var 26,5% á árinu 2024 en 22,3% nýrra beiðna var fyrir börn af erlendum uppruna, samanborið við 29,6% á fyrra tímabilinu.

Eins og fram hefur komið þá mun Barna- og fjölskyldustofa safna upplýsingum um mál í samþættri þjónustu þrisvar á ári. Mikilvægt er að fylgjast með þróuninni um leið og stutt er við innleiðinguna á farsældarlögunum. Við þökkum öllum þeim sem hafa aðstoðað við söfnun þessara upplýsinga og skilað til Barna- og fjölskyldustofu.

Skýrsluna í heild má nálgast hér.