Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Barna- og fjölskyldustofa Forsíða
Barna- og fjölskyldustofa Forsíða

Barna- og fjölskyldustofa

Samanburður á fjölda tilkynninga til barnaverndarþjónusta á árunum 2022-2024

25. júní 2025

Tilkynningum til barnaverndar fjölgaði um 9,9% á árinu 2024 miðað við árið á undan, en tilkynningar á árinu 2024 voru 16.751. Fjölgunin er heldur minni en á milli áranna 2022 og 2023, en þá fjölgaði tilkynningum um rúmlega 11%.

Tilkynningum fjölgaði hlutfallslega mest í Reykjavík eða um tæplega 13%, hjá öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu um 11,7%, en minnst var fjölgunin í sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins eða 5,7%.

Flestar tilkynningar á árinu 2024 voru vegna vanrækslu á börnum eða 40,7% allra tilkynninga og er það aðeins lægra hlutfall en á árunum 2022 og 2023. Hlutfall tilkynninga vegna ofbeldis gegn börnum á árinu 2024 var 24,8%, einnig aðeins lægra hlutfall en árin á undan, Hlutfall tilkynninga vegna áhættuhegðunar barna var 33,7% og er það hærra hlutfall en á árunum 2022 og 2023. Fyrir COVID-19 voru almennt næstflestar tilkynningar vegna áhættuhegðunar barna og unglinga, en breyttist í faraldrinum þegar fleiri tilkynningar vegna ofbeldis fóru að berast. Árið 2022 snerist sú þróun við og áhættuhegðun varð aftur næststærsti flokkur tilkynninga. Á það einnig við um árið 2024. Hlutfall tilkynninga þar sem að heilsu eða lífi ófædds barns var stefnt í hættu var 0,7% sem er svipað og fyrri ár.

Tilkynningum vegna áhættuhegðunar fjölgaði um 14,5% árið 2024 samanborið við árið 2023. Er það heldur minni fjölgun en á milli áranna 2022 og 2023, en þá var fjölgunin um 25%. Mest fjölgar tilkynningum um neyslu barns á vímuefnum og öðrum efnum sem hafa skaðleg áhrif á heilsu þess og velferð, en slíkum tilkynningum fjölgaði um tæplega 60%. Fjölgunin varðar bæði stúlkur og drengi. Þá fjölgaði tilkynningum um að barn komi sér undan forsjá um rúmlega 30% og varða þær tilkynningar oftar stúlkur en drengi. Tilkynningum vegna afbrota barns fjölgaði einnig á milli ára, eða um 8%. Tilkynningum vegna þess að barn beitir ofbeldi fjölgaði um 21,9%. Flestar slíkar tilkynningar (vegna afbrota barns og barn beitir ofbeldi) eru vegna drengja, eða 82,6%.

Tilkynningum vegna vanrækslu á börnum á árinu 2024 fjölgaði um 8,2% frá árinu áður, samanborið við 6,4% fjölgun á milli áranna 2022 og 2023. Af þeim fjölgaði tilkynningum vegna vanrækslu varðandi umsjón og eftirlit um 5,9%. Slíkar tilkynningar eru sérstaklega merktar ef þær berast vegna þess að foreldrar eru í áfengis- og/eða fíkniefnaneyslu og fækkaði slíkum tilkynningum lítillega miðað við árin 2022 og 2023. Hlutfallslega fjölgaði tilkynningum um tilfinningalega vanrækslu mest.

Tilkynningum vegna ofbeldis gegn börnum á árinu 2024 fjölgaði um 6,5% miðað við árið á undan, en fjölgun var 4,3% milli áranna 2022 og 2023. Tilkynningum fjölgaði í öllum undirflokkum ofbeldis nema vegna kynferðisofbeldis þar sem tilkynningum fækkaði um 6,2% á milli ára. Mest fjölgaði tilkynningum vegna líkamlegs ofbeldis en slíkar tilkynningar voru 19,8% fleiri árið 2024 en árið 2023. Er það heldur meiri fjölgun en á milli áranna 2022 til 2023. Í 25,8% tilvika voru slíkar tilkynningar á árinu 2024 vegna ofbeldis af hendi aðila náinn barninu.

Flestar tilkynningar bárust frá lögreglu, eða 39,7% tilkynninga á árinu 2024, heldur hærra hlutfall en árin tvö á undan. Tilkynningum frá skólum og heilbrigðiskerfinu heldur áfram að fjölga. Tilkynningum frá skólum fjölgaði um 9,2% á milli ára en um 3,4% frá heilbrigðiskerfinu. Mest var fjölgun tilkynninga frá nágrönnum eða um 24,7% og þar sem barn tilkynnti sjálft, en 81 barn hafði sjálft samband við barnavernd, samanborið við 49 börn á árinu 2023 og 65 börn á árinu 2022.

Skýrsluna í heild má finna hér.