Börn á flótta - málþing um stöðu og velferð barna á flótta
2. september 2025
Þann 28. ágúst s.l. stóð Barna-og fjölskyldustofa fyrir málþingi í samvinnu við Rauða krossinn og UNICEF með yfirskriftinni Börn á flótta - málþing um stöðu og velferð barna á flótta. Málþingið var afar vel sótt en fullt var út úr dyrum í Norræna húsinu og mikill fjöldi fylgdist með í streymi.

Á málþinginu fjallaði Hadia Rahman, ung kona frá Afganistan, um líf sitt og fjölskyldu sinnar eftir komuna til Íslands en fjölskyldan kom til landsins ásamt hópi kvótaflóttafólks árið 2021. Hadia var barn þegar hún kom til landsins og hefur lagt áherslu á að mennta sig og læra íslensku. Þrátt fyrir ýmsar áskoranir þá stundar Hadia nú nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Hér má sjá viðtal sem RÚV tók við hana eftir málþingið.
Eva Bjarnadóttir frá UNICEF var með erindi um stöðu barna á flótta í heiminum og á Íslandi og breytingar sem hafa orðið í þjónustu við umsækjendur um vernd, hún fjallaði einnig um réttindi barna og minnti á barnasáttmála sameinuðu þjóðanna sem lögfestur var á Íslandi árið 2013. Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir og Vilborg Pétursdóttir teymisstjórar hjá Reykjanesbæ fluttu erindi undir yfirskriftinni Fjölskyldur á flótta: reynslusögur af starfi með fjölskyldum með flóttamannabakgrunn. Þær lögðu áherslu á mikilvægi þjónustu sveitarfélaga við bæði barnafjölskyldur sem eru umsækjendur um vernd og fjölskyldur sem komnar eru með vernd. Í kjölfar erindanna voru pallborðsumræður en í þeim tók þátt Páll Ólafsson framkvæmdarstjóri farsældarsviðs hjá BOFS, María Ingibjörg Kristjánsdóttir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, þær Hilma og Vilborg frá Reykjanesbæ og Tótla Sæmundsdóttir frá Barnaheill. Í umræðum komu fram áhyggjur af skertri þjónustu við börn á flótta, bæði þau sem eru umsækjendur um vernd og einnig þau sem komin eru með vernd en áform eru um breytingar á því móttökukerfi sem hefur verið við líði. Páll lagði áherslu á mikilvægi farsældarlaganna og samþættingar í þágu farsældar barna og minnti á að farsældarlögin eiga við um öll börn á yfirráðasvæði Íslands.
Hægt er að horfa á þetta mikilvæga og áhugaverða málþing í heild sinni hér.
