Barnavernd í brennidepli
26. september 2025
Barna- og fjölskyldustofa stóð fyrir ráðstefnunni Barnavernd í brennidepli mánudaginn 15. september sl. en ráðstefnan markar upphaf innleiðingar Signs of Safety á Íslandi.

Ráðstefnan var einstaklega vel sótt en tæplega 400 fagaðilar alls staðar af landinu, bæði úr barnavernd og farsæld mættu á hótel Nordica, auk þess sem boðið var upp á streymi. Guðmundur Ingi Kristinsson, Mennta- og barnamálaráðherra opnaði ráðstefnuna og hvatti fólk áfram til góðra verka, auk ýmissa annarra fróðlegra erinda frá innlendum og erlendum sérfræðingum. Rannveig Einarsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og fulltrúi frá mennta- og velferðarnefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga horfði til framtíðar og lokaði ráðstefnunni. Í framhaldinu var boðið upp á tvö grunnnámskeið í hugmyndafræði og verkfærum Signs of Safety fyrir barnaverndarstarfsmenn og farsældarstarfsfólk, sem gerður var góður rómur að. Fleiri námskeið eru fyrirhuguð bæði í Reykjavík og á Akureyri en gert er ráð fyrir að um 350 manns ljúki grunnnámskeiðum að þessu sinni. Á nýju ári verður síðan boðið upp á 5 daga framhaldsnámskeið fyrir sama hóp. Samhliða þessu hefst þjálfun og handleiðsla yfirmanna, deildarstjóra og Signs of Safety leiðtoga, auk barnaverndarstarfsfólks. Segja má að það sé margt spennandi fram undan í Signs of Safety vegferð okkar hér á landi og að það ríki mikil jákvæðni og áhugi fagfólks á hugmyndafræði, verklagi og verkfærum Signs of Safety, sem hvetur okkur til áframhaldandi uppbyggingar og þróunar á landsvísu.
