Signs of Safety á Íslandi
2. maí 2025
Barna- og fjölskyldustofa innleiðir hugmyndafræði Signs of Safety (SofS) í þjónustu við börn og fjölskyldur á Íslandi.

Þann 30. apríl síðastliðinn var undirritaður tímamótasamningur við Elia heimssamtök Signs of Safety um heildræna kerfisbreytingu og innleiðingu hugmyndafræðinnar hér á landi. Markmiðið er að leggja áherslu á að barnaverndarstarf verði unnið með kerfisbundnari og markvissari hætti.
Signs of Safety er gagnreynd hugmyndafræði í barnavernd og félagsþjónustu sem býður upp á samræmt verklag og verkfæri til að vinna með fjölskyldum og tengslaneti þeirra. Lögð er sérstök áhersla á þátttöku barna og samstarf við foreldra og tengslanet án þess að missa sjónar af öryggi barns.
Með nýju gagnreyndu verklagi er lögð áhersla á að auka gæði faglegs starfs barnaverndarstarfsmanna, sem og að auka mannréttindi og þátttöku barna og foreldra í málum er þau varða.
