Fara beint í efnið
Barna- og fjölskyldustofa Forsíða
Barna- og fjölskyldustofa Forsíða

Barna- og fjölskyldustofa

Ferli umsóknar um fósturheimili

Barna- og fjölskyldustofa (BOFS) heldur utan um upplýsingar um fósturforeldra, bæði varðandi hæfni en einnig þá reynslu sem fæst af fósturforeldrum í gegnum vistanir á heimili þeirra, t.d. í gegnum greinargerðir um fósturrof og í ábendingum frá barnaverndarstarfsmönnum.

Lýsing ferlis

Barnaverndarþjónustur senda inn umsókn um fósturheimili til BOFS. Í umsókn eru tilteknar þarfir barns, hvað er ætlast til af fósturforeldrum að sinna og hvað æskilegt er að sé til staðar í nýju umhverfi barns, t.d. möguleikar til skólagöngu og tómstundaiðkunar. Hér má finna eyðublöð fyrir umsóknir og tilkynningar varðandi fóstur ásamt leiðbeiningum um útfyllingu þeirra.

Sérfræðingar fósturteymis BOFS fara yfir umsóknir og finna fósturheimili sem henta með tilliti til þarfa og hagsmuna barnsins. Hentugt fósturheimili er metið út frá upplýsingum í umsókn og samskiptum við starfsmann barnaverndar sem fer með mál barnsins. Ef óskað er eftir greiðsluþátttöku ríkisins vegna verulegs hegðunarvanda barns er það metið sérstaklega af sérfræðingum fósturteymis.

Þegar æskilegt fósturheimili hefur verið fundið hefur sérfræðingur fósturteymis samband við fósturforeldra í þeim tilgangi að athuga stöðuna á heimilinu og hvort viðkomandi geti tekið að sér fósturbarn með þær þarfir sem koma fram í umsókn um fósturheimili. Fósturforeldrar fá ópersónugreinanlegar upplýsingar um:

  • Aldur og kyn barns

  • Tímalengd vistunar 

  • Þarfir við daglega umönnun og stuðning

  • Helstu upplýsingar um heilsu og hegðun barns

  • Þarfir fyrir heilbrigðisþjónustu

  • Skóla- og námsþarfir

  • Ástæður þess að verið sé að ráðstafa barninu í fóstur

  • Áhugamál og styrkleikar barns

  • Helstu markmið fóstursins

Ábending um fósturforeldra, sem eru tilbúnir að taka á móti barninu, er send barnaverndarþjónustu. Í ábendingunni hafa sérfræðingar fósturteymis tekið saman upplýsingar um fósturforeldra, núverandi stöðu fósturheimilis og hvort hægt sé að koma til móts við allar þarfir og óskir barns eru komu fram í umsóknarferlinu.

Starfsmaður barnaverndarþjónustu tekur afstöðu til ábendingarinnar og hefur samband við viðkomandi fósturforeldra sem fyrst. Samtalið milli starfsmanns barnaverndar og fósturforeldra er litið á sem hluta af undirbúningi fyrir ráðstöfunina um leið og starfsmaður barnaverndar metur hvort hann telji fósturheimilið æskilegan vistunarstað fyrir barnið.

Allir sem vinna að barnavernd skulu gæta fyllsta trúnaðar um hagi barns, foreldra og annarra sem þeir hafa afskipti af. Fósturforeldrar eru einnig bundnir trúnaði varðandi þær upplýsingar sem þeir fá frá barnaverndarþjónustum. Fósturforeldrum ber að undirrita trúnaðareið þegar ákvörðun um fósturheimili hefur verið tekin. Í símtalinu er farið yfir persónulega hagi barns og annað sem metið er að skipti máli með tilliti til markmiða fósturs. Eins og:

  • Fjölskylduaðstæður og uppeldissaga barns

  • Áföll barns

  • Vandi foreldra og afstaða þeirra til fósturs

  • Nákvæm heilsufarssaga, þ.m.t. lyfjagjöf og meðferð

  • Greiningar sem liggja fyrir og verið er að vinna með

  • Frekari upplýsingar um áhugamál, tómstundir og styrkleika barns

  • Félags- og námsleg staða barns

  • Stuðningur og annað sem kemur fram í áætlun um trygga umsjá 

  • Sá hluti er snýr að fósturforeldrum er kemur fram í áætlun um meðferð máls

  • Aðrar upplýsingar sem munu koma fram í fóstursamningi 

  • Annað sem skiptir máli fyrir farsæld fóstursins

Starfsmaður barnaverndar upplýsir BOFS sem fyrst hvort áætlað sé að nýta fósturheimilið úr ábendingunni en það er ákvörðun barnaverndarþjónustu hvort barnið verði vistað á fósturheimilinu. Ef starfsmaður barnaverndarþjónustu vill frekari upplýsingar áður en ákvörðun er tekin er hægt að óska eftir umsögn um hæfni fósturforeldra..

Barnaverndarþjónusta sendir tilkynningu um gerð fóstursamnings til BOFS. Ef um er að ræða fóstur með greiðsluþátttöku ríkisins vegna verulegs hegðunarvanda barns þarf að senda drög að fóstursamningi til BOFS til samþykktar áður en fóstursamningurinn er undirritaður og sendur inn að nýju til BOFS. Það á einnig við um framlengingu fóstursamnings.