Fara beint í efnið

Réttindi fatlaðra eða hreyfihamlaðra flugfarþega

Fatlaðir og hreyfihamlaðir flugfarþegar eiga að hafa sömu möguleika á að ferðast flugleiðis og aðrir farþegar. Til þess að það sé hægt skal veitt aðstoð sem hentar sérstökum þörfum þeirra.

Þau sem geta nýtt sér þessa þjónustu eru til dæmis:

  • eldra fólk

  • barnshafandi

  • fatlaðar og hreyfihamlaðir 

Til fatlaðra og hreyfihamlaðra telst til dæmis fólk:

  • sem notar hjólastóla

  • með sjón- eða heyrnarskerðingu

  • með langvinna sjúkdóma

  • með Alzheimerssjúkdóm

  • með ósýnilega fötlun eins og hjartasjúkdóma eða einhverfu

Þú þarft ekki að sýna vottorð til að sanna þörf fyrir aðstoð og flugfélög eiga ekki að biðja um slíkt.

Flugfélag má ekki neita farþega að fljúga með þeim vegna fötlunar, nema það sé af réttlætanlegum öryggisástæðum. Flugfélagið þarf í þeim tilvikum að veita upplýsingar um þessar ástæður.

Ef þú telur þig þurfa aðstoð þegar þú ferðast með flugi, ættir þú að hafa samband við flugfélagið þitt eða ferðaskrifstofu til að ræða þínar þarfir.

Þjónustuaðili

Samgöngu­stofa