Allar upplýsingar sem tengjast einstaklingi og er hægt að nota til að auðkenna hann falla undir persónuverndarlög.
Hvað eru persónuupplýsingar?
Persónuupplýsingar eru allar upplýsingar sem hægt er að nota til að persónugreina einstakling, eins og:
nafn
kennitala
mynd
staðsetningargögn
eða annað sem hægt er að tengja við einstakling. Upplýsingar verða að vera nægilega nákvæmar til að hægt sé að átta sig á hverjum þær tilheyra.
Allar upplýsingar sem tengjast einstaklingi og er hægt að nota til að auðkenna hann falla undir persónuverndarlög.
Samsetning upplýsinga
Samansafn upplýsinga sem saman leiða til þess að upplýsingar eiga eingöngu við um þig geta verið persónnuupplýsingar.
Viðhorfskönnun, þar sem engum upplýsingum um þátttakendur er safnað nema upplýsingum um aldur og kyn, telst almennt ekki fela í sér söfnun persónuupplýsinga.
Ef hópurinn sem tekur þátt í könnuninni er aftur á móti þannig samansettur að mjög fáir einstaklingar eru á tilteknum aldri eða af ákveðnu kyni getur verið um persónuupplýsingar að ræða.
Við slíkar aðstæður getur verið mögulegt að vita hver svaraði, út frá upplýsingum um aldur og kyn viðkomandi.
Viðkvæmar persónuupplýsingar
Það er sterkari réttarvernd fyrir viðkvæmar persónuupplýsingar, svo sem:
kynþátt og þjóðerni
stjórnmála-, trúar- og lífsskoðanir
aðild að stéttarfélagi
heilsufarsupplýsingar
upplýsingar um kynlíf eða kynhneigð
erfðafræðilegar upplýsingar
lífkennaupplýsingar, til dæmis andlitsmyndir eða fingraför þegar þau eru notuð til auðkenningar
Í grundvallaratriðum er bannað að vinna viðkvæmar persónuupplýsingar, en það eru nokkrar undantekningar.
Það má vinna viðkvæmar persónuupplýsingar án samþykkis ef einstaklingur hefur greinilega birt upplýsingarnar fyrirfram.
Þar að auki má vinna viðkvæmar persónuupplýsingar ef það er nauðsynlegt vegna:
skuldbindingar ábyrðgaraðila svo þú getir nýtt þér ákveðin réttindi samkvæmt vinnulöggjöf, löggjöf um almannatryggingar eða félagslega vernd.
verulegra hagsmuna þinna eða annars einstaklings, ef hann er líkamlega ófær eða óhæfur samkvæmt lögum til að veita samþykki sitt.
lögmætrar starfsemi stofnunar, samtaka eða annars aðila sem starfar ekki í hagnaðarskyni og hefur stjórnmálaleg, heimspekileg, trúarleg eða stéttarfélagsleg markmið. Ekki má afhenda öðrum persónuupplýsingarnar þínar án þíns samþykkis.
svo hægt sé að stofna, hafa uppi eða verja réttarkröfur.
verulegra almannahagsmuna.
vinnslu innan heilbrigðiskerfisins, til að fyrirbyggja sjúkdóma eða vegna atvinnulækninga.
vinnslu sem varða almannahagsmuni á sviði lýðheilsu, svo sem til að verjast alvarlegum heilsufarsógnum sem ná yfir landamæri eða tryggja gæði og öryggi heilbrigðisþjónustu og lyfja eða lækningatækja.
skjalavistunar, vísinda- eða sagnfræðirannsókna eða í tölfræðilegum tilgangi.
Til þess að heimilt sé að vinna viðkvæmar persónuupplýsingar þarf vinnslan að byggja á einhverri af heimildum persónuverndarlaga og einni af ofantaldri undantekningu. Í sumum tilvikum þarf ábyrgðaraðili að gera sértækar ráðstafanir til að vernda grundvallaréttindi einstaklinga.
Upplýsingar sem eru viðkvæms eðlis
Sumar upplýsingar eru viðkvæms eðlis, þótt þær falli ekki undir skilgreiningu persónuverndalaganna um viðkvæmar upplýsingar, svo sem:
félagsleg staða
fjárhagsleg staða
hjúskaparstaða
barnaverndamál
Upplýsingar um refsiverðaháttsemi
Upplýsingar um refsiverða háttsemi einstaklinga teljast ekki viðkvæmar persónuupplýsingar. Samt eru sérstakar öryggisráðstafanir varðandi vinnslu slíkra upplýsinga.
Stjórnvöld mega aðeins vinna meðupplýsingar um refsiverða háttsemi sé það nauðsynlegt vegna lagalegrar skyldu þeirra.Stjórnvöld mega ekki miðla slíkum upplýsingum áfram nema:
einstaklingurinn hafi gefið afdráttarlaust samþykki sitt fyrir miðluninni
miðlun sé nauðsynleg vegna lögmætra hagsmuna hins opinbera eða einkaaðila sem auðsjáanlega vega þyngra en hagsmunir einstaklingsins af því að halda upplýsingum leyndum
miðlun sé nauðsynleg vegna lögbundinna verkefna viðkomandi stjórnvalds eða til að unnt sé að taka stjórnvaldsákvörðun
miðlunin sé nauðsynleg vegna verkefnis í þágu hins opinbera sem einkaaðila hefur verið falið á lögmætan hátt.
Einkaaðilar geta unnið með upplýsingar um refsiverða háttsemi ef einstaklingurinn hefur veitt afdráttarlaust samþykki sitt fyrir því. Auk þess getur vinnsla átt sér stað ef hún er nauðsynleg til að gæta lögmætra hagsmuna sem auðsjáanlega vega þyngra en hagsmunir einstaklingsins af því að halda upplýsingum leyndum.Einkaaðilar mega miðla slíkum upplýsingum áfram án samþykkis ef það er gert til að gæta almennings- eða einkahagsmuna, þar á meðal tillits til hlutaðeigandi, sem augljóslega er umfram þá hagsmuni sem réttlæta leynd.