Fara beint í efnið

Akstur og bifreiðar

Ökunám og réttindi

Ökuréttindi fást að loknu námi hjá ökukennara og í ökuskóla. Almennur ökuprófsaldur hér á landi er 17 ár.

Ökunám

Ökunám á fólksbifreið getur hafist við 16 ára aldur en ökuréttindi eru fyrst veitt við 17 ára aldur. Réttindi til að aka bifhjóli (skellinöðru) er hægt að fá 15 ára og dráttarvél 16 ára.

Til að hefja ökunám þarf að hafa samband við löggiltan ökukennara. Hann hefur umsjón með bæði verklegum og bóklegum hluta námsins og vísar á ökuskóla þar sem bóklegt nám fer fram.

Ökunemar geta stundað æfingaakstur á bifreið með leiðbeinanda öðrum en ökukennara. Skilyrði fyrir leyfi til æfingaaksturs eru að:

  • nemandi hafi að minnsta kosti lokið fyrri hluta bóklegs náms og hlotið næga verklega þjálfun að mati ökukennara,

  • leiðbeinandi sé orðinn 24 ára og hafi að minnsta kosti 5 ára akstursreynslu,

  • leiðbeinandi hafi leyfi sem sótt er um til sýslumanns (í Reykjavík til sýslumannsins í Kópavogi).

Ökupróf

Ökupróf eru haldin reglulega á vegum Frumherja sem er með starfsemi víða um land og sér um framkvæmd prófa í umboði Samgöngustofu.

Að loknu bóklegu námi er skriflegt próf þreytt. Heimild til próftöku þarf að liggja fyrir en hún fæst með því að sækja um ökuskírteini til sýslumanna. Eyðublöð fást þar og í ökuskólum og hægt er að sækja um hvar sem er á landinu óháð búsetu.

Verklegt próf getur farið fram að loknu verklegu námi og þegar skriflegu prófi er náð.

Allt um ökunám og ökuréttindi hjá Samgöngustofu
Framkvæmd ökuprófa hjá Frumherja
Kennslumiðstöð Ökukennarafélags Íslands

Ökuréttindi

Þeir sem standast ökupróf geta fengið útgefna bráðabirgðaakstursheimild samdægurs hjá lögreglustjóra gegn framvísun ökunámsbókar með áritun prófdómara.

Ökuskírteini er afhent innan nokkurra daga frá því ökupróf er tekið. Fyrsta ökuskírteini er til bráðabirgða og gildir í þrjú ár.
Ökuréttindi og skírteini

Fullnaðarskírteini er gefið út í fyrsta lagi eftir eitt ár frá ökuprófi. Sækja þarf um fullnaðarskírteini hjá sýslumönnum.

Skilyrði fyrir útgáfu fullnaðarskírteinis er að ökumaður hafi ekki hlotið refsipunkta vegna umferðarlagabrota undangengið ár og hafi farið í akstursmat sem ökukennarar annast.

Endurnýjun

Almenn ökuréttindi gilda til 70 ára aldurs en eftir það þarf að endurnýja ökuréttindi reglulega. Endurnýjun ökuréttinda eldri borgara

Ef meira en tvö ár líða frá því að ökuréttindi renna úr gildi verður að taka hæfnispróf áður en réttindin fást endurnýjuð.

Þeir sem sviptir hafa verið ökuleyfi verða að standast ökupróf að nýju ef svipting hefur staðið lengur en eitt ár.

Byrjendur með bráðabirgðaskírteini, sem sviptir eru ökuréttindum eða hljóta akstursbann, verða að sækja sérstakt námskeið og standast ökupróf til að fá ökuréttindi á ný.

Umferðarlagabrot; akstursbann, refsipunktar og fleira á Ísland.is

Réttindaflokkar

Almenn ökuréttindi eru tilgreind sem B-réttindi í ökuskírteini og veita réttindi til að stjórna ýmsum ökutækjum auk fólksbifreiða. Nánar um flokka ökuréttinda á vef Samgöngustofu.

Til að öðlast aukin ökuréttindi, svo sem réttindi á vörubíla, rútur, leyfi til að aka með eftirvagna og til farþegaflutninga í atvinnuskyni þarf að sækja þar til gerð námskeið í ökuskólum.

Réttindi á vinnuvélar fást hjá Vinnueftirlitinu. Nánar um vinnuvélanámskeið hjá Vinnueftirlitinu.

Til minnis

Hefja ökunám hjá löggiltum ökukennara sem hefur umsjón með bóklegu og verklegu námi.

Sækja um sérstakt leyfi hjá sýslumanni til æfingaaksturs.

Sækja um ökuskírteini hjá sýslumanni til að fá heimild til próftöku í bóklegu námi.

Panta tíma í skriflegt próf þegar prófheimild er fengin hjá Frumherja.

Panta tíma í verklegt próf þegar viðkomandi hefur staðist bóklegt próf. Ökukennari gerir það yfirleitt fyrir hönd nemandans.

Sækja um fullnaðarskírteini í fyrsta lagi ári eftir útgáfu bráðabirgðaskírteinis hjá sýslumanni.

Fullnaðarskírteini gildir í 15 ár.

Endurnýja ökuréttindi reglulega eftir sjötugt.

Vert að skoða

Lög og reglugerðir