Hér má finna upplýsingar um ýmislegt er varðar sambönd og samskipti ungmenna - Sambönd við kærustu, kærasta, vini, foreldra og fjölskyldu.
Fjallað er um heilbrigð sambönd og einnig gefin góð ráð um hvernig best er að bregðast við þegar fólk lendir í alvarlegum erfiðleikum í samböndum við kærustu/kærasta eða sína nánustu.
Ýmislegt um sambönd og samskipti
Þegar fólk byrjar að vera saman er mikilvægt að velta því fyrir sér hvað maður vill fá út úr sambandi. Við þurfum að gera kröfur um það hvernig er komið fram við okkur og vera óhrædd að láta vita af þeim. Það er misjafnt hvað skiptir okkur máli og mikilvægt er að gera sér grein fyrir því að ekkert samband er fullkomið. Það getur verið gott að skrifa niður hvað maður vill fá út úr sambandi og velta fyrir sér hvað manni finnst mikilvægast.
Svona vil ég að komið sé fram við mig:
Að mér sé treyst
Að ég njóti hvatningar
Að ég sé elskuð/elskaður
Að komið sé fram við mig af hreinskilni
Að það sé séð um mig
Að borin sé virðing fyrir mér
Að það sé haldið utan um mig
Að ég geti treyst honum/henni
Að við leiðumst
Annað sem skiptir máli __________________________
Fæ ég það sem ég vil út úr sambandinu?
Það getur verið gott að skoða reglulega þennan lista og velta fyrir sér hvort maður sé að fá það sem skiptir mann máli út úr sambandinu. Það er sérstaklega mikilvægt ef maður fer að efast eitthvað um sambandið.
Að sama skapi má snúa dæminu við og spyrja sig hvernig maður vill koma fram við kærustu eða kærasta. Gef ég af mér í sambandinu? Við getum ekki gert kröfur á aðra ef við ætlum ekki sjálf að leggja okkur fram. Við berum ábyrgð á framkomu okkar við aðra.
Hvernig kemur fólk fram í heilbrigðu sambandi?
Í heilbrigðu sambandi ríkir jafnrétti, heiðarleiki og virðing. Einnig þurfa samskiptin að vera góð. Í góðum samböndum eru góðu tímarnir fleiri en þeir slæmu.
Heiðarleiki
Það getur hljómað sem klisja en heiðarleiki er grunnur að góðu sambandi. Bæði hjá kærustupörum en líka í samböndum við fjölskyldu og vini er heiðarleiki mikilvægur. Í heiðarlegum samböndum geta báðir viðurkennt að hafa rangt fyrir sér, sagt sannleikann án þess að óttast og fyrirgefið mistök.
Virðing
Í góðum samböndum er virðing á báða bóga. Virðing er til dæmis að styðja við hinn í því sem hann eða hún hefur áhuga á. Það er mikilvægt að virða skoðanir annarra, vera næmur á tilfinningar og treysta hinum í sambandinu. Þegar virðing ríkir í sambandinu er annar ekki að reyna að stjórna hinum eða breyta því hvernig maður er.
Góð samskipti
Góð samskipti eru límið sem heldur fólki saman. Það er mikilvægt að geta rætt málin af heiðarleika. Maður þarf að hlusta á hinn aðilann og vera tilbúinn að ræða vandamál og ósamkomulag. Stundum verða rifrildin hreinlega til vegna misskilnings.
Til að efla góð samskipti er gott að hafa þetta í huga:
Verum nákvæm og skýr
Greinum frá tilfinningum okkar og spyrjum um tilfinningar hins aðilans (eða hinna)
Skoðið hvað það er sem skiptir ykkur máli og hvað skiptir máli fyrir hinn
Veltið upp mögulegum lausnum þar sem báðir aðilar (eða allir) fá sem mest af því sem þeir vilja.
Forðumst þetta:
Kaldhæðni
Uppnefningar
Að grípa fram í
Setja afarkosti (Ef þú kemur ekki með mér á ballið erum við bara hætt saman!)
Hvenær er það orðið skaðlegt?
Þegar við hugsum um ofbeldi kemur líkamlegt ofbeldi yfirleitt fyrst upp í hugann. Ofbeldi getur þó verið margþætt og er gjarnan skipt upp í þrjá flokka:
líkamlegt ofbeldi
andlegt ofbeldi
kynferðislegt ofbeldi.
Hér á eftir koma nokkur dæmi um ofbeldi og/eða kúgun:
Það er ekki nóg að vita hvernig gott samband er heldur þarf einnig að þekkja hvenær samband er orðið skaðlegt. Maður getur sjálfur lent í því að vera í skaðlegu sambandi eða átt vini sem eru í slíku.
Það er mikilvægt að þekkja bæði einkenni sem benda til þess að einstaklingur sé að verða fyrir ofbeldi eða kúgun og einkenni þess að einstaklingur sé að beita slíku.
En hvað ef vinur /vinkona beitir ofbeldi?
Það er ekki nóg að bregðast við og aðstoða þolandann, við þurfum að ganga lengra og aðstoða gerandann líka. Vissuð þið að flestir menn sem beita konur sínar heimilisofbeldi byrjuðu þann feril á unglingsárum? Með góðri hjálp má stöðva slíka þróun hjá ungu fólki. Það má heldur ekki gleyma því að konur geta beitt karlmenn ofbeldi, og það er ekki síður alvarlegt.
Stundum sýna sjónvarpsþættir og bíómyndir karlmenn sem verða fyrir ofbeldi en það er oft sett fram á skoplegan hátt, eins og það sé einhver skömm að verða fyrir slíku, eða þá að karlmennirnir eru sýndir eins og þeir séu alltaf tilbúnir til kynlífsathafna. Ekki láta blekkjast, prufið að snúa við hlutverkum karls og konu í slíku atriði og sjáið hvort það er ennþá fyndið.
Hvernig veit ég að einhver er að beita ofbeldi eða er beittur ofbeldi?
Sá sem beitir ofbeldi getur...
Notað hótanir eða ofbeldi til þess að leysa vandamál
Átt erfitt með að ráða við reiði eða vonbrigði
Missir stjórn á skapi sínu
Átt við vandamál í skóla
Verið óörugg/ur með sig, með lélegt sjálfstraust
Átt erfitt í samskiptum við aðra
Verið undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna
Átt erfitt með ræða málin (tala saman)
Sá sem er beittur ofbeldi getur...
Virst óttast kærustu/kærasta
Verið marin/n eða með klórför eða önnur merki um meiðsl sem ekki eru skýringar á.
Virst stjórnað af kærasta/kærustu, sem ákveður hvað á að gera, hvernig á að klæða sig, mála sig o.s.frv.
Afsakað hegðun kærasta/kærustu
Minnst á ofsafengið skap hins en gerir svo lítið úr því eða snýr því upp í grín
Misst áhuga á hlutum sem áður skiptu máli, svo sem áhugamálum eða að hitta vini sína
Skyndilega breytt útlit eða hegðun
Ofbeldi er oft stigvaxandi
Ofbeldi og kúgun í samböndum byrjar gjarnan smátt en vindur svo upp á sig. Ef ofbeldi eða kúgun endurtekur sig eru nánast engar líkur á að það muni allt í einu hætta, nema að viðkomandi fái hjálp hjá sérfræðingum. Þess vegna þýðir ekki að bíða og vona að einhvern daginn geti maður gert kærustu/kærasta til geðs og þá muni hann eða hún ekki taka skapofsaköst eða beita ofbeldi eða hótunum.
Sá sem beitir ofbeldinu ber alltaf ábyrgð á því!
Sá sem verður fyrir ofbeldinu hefur ekki kallað það yfir sig.
Kúgun byrjar smátt og smátt og því getur oft verið erfitt að átta sig á því að hún eigi sér stað. Í byrjun er það kannski bara afbrýðisamur kærasti/kærasta. Kannski er það bara skemmtilegt fyrst að einhver þarfnist manns og sé að vernda mann. En svo fer það að þýða að maður getur ekki verið með vinum sínum af því að kærastinn/kærastan vill það ekki, eða finnst maður hanga of mikið með vinum sínum.
Hvar og hvenær gerist ofbeldið?
Ofbeldi og kúgun á sér gjarnan stað þegar engin vitni eru. Ungt fólk er hins vegar oft saman í hóp og þá getur verið að vinirnir verði vitni að skaðandi hegðun eða framkomu. Mikilvægt er að hafa hugrekki til þess að skipta sér af því ef mann grunar að vinur eða vinkona beiti ofbeldi eða verði fyrir því. Við getum ekki stjórnað því hvað aðrir gera en oft getur hjálparhönd skipt miklu máli.
Ungt fólk leitar oft frekar til vina sinna heldur en foreldra eða annarra fullorðinna og þess vegna er gott að vita hvað maður getur sagt eða gert.
Flestir hugsa um nauðgun þegar kynferðisofbeldi ber á góma en rétt eins og með annað ofbeldi eru til margar tegundir kynferðisofbeldis.
Að segja nei á mismunandi hátt:
Stundum heyrum við að fólk eigi bara að segja nei ef það vill ekki eitthvað eða að hægt sé að koma í veg fyrir nauðgun ef viðkomandi virkilega vill það. Þetta er ekki svo einfalt og mikilvægt að skilja að þegar nauðgun á sér stað verður þolandi fyrir svo miklu áfalli að hann getur ekki barist á móti eða árásarmaðurinn getur verið mun sterkari.
Það er líka algengt að gerendur misnoti sér einstakling sem er undir áhrifum áfengis og lyfja eða hvetji til drykkju með það í huga að geta misnotað hann kynferðislega.
Stundum finnst fólki erfitt að segja nei með orðum en er með öllu líkamsfasi sínu að meina nei. Skoðum aðeins hvaða líkamsbeiting segir nei:
Að snúa sér undan.
Að krossleggja hendur eða fætur.
Að stífna upp eða frjósa.
Að reyna að fara að tala um allt annað.
Að hika og reyna að draga á langinn að gengið sé lengra.
Það geta verið margar ástæður fyrir því að við getum ekki sagt nei. Stundum gerast hlutirnir einfaldlega of hratt, við þorum ekki að segja nei af ótta við að eitthvað verra komi fyrir, eða áfengi eða lyf gera manni erfitt fyrir.
Stundum getur fólki fundist að það fái misvísandi skilaboð og ef svo er þá verður að skýra málið, spyrja einfaldlega „viltu ganga lengra“ eða „er í lagi að ég geri þetta“.
Ef manneskja stífnar upp eða virðist ekki með í atlotum er rétt að hætta og kanna hvort vilji sé til að halda áfram.
Það er ekki hægt að réttlæta nauðgun með því að segja að viðkomandi hafi ekki sagt nei. Þegar brotist er inn í hús sagði eigandinn ekki nei (hann var ekki spurður...) en samt vitum við að lögbrot var framið.
Hvað gerir áfengi?
Þrátt fyrir mikið tal um lyf og nauðganir er það engu að síður staðreynd að áfengi er oftast það vímuefni sem var haft um hönd þegar nauðgun er annars vegar.
Áfengi hefur ýmis áhrif á okkur en við verðum þó að bera ábyrgð á hegðun okkar undir áhrifum. Áfengi losar um hömlur og fólk notar það oft í þeim tilgangi að slappa af eða auka þor. Áfengi skerðir fljótt dómgreind og ekki þarf mikla neyslu til þess að rökrétt ákvarðanataka verði erfiðari. Eftir sem áður ber fólk ábyrgð á hegðun sinni.
Neikvæðar afleiðingar áfengis geta verið ýmsar.
Manneskja sem er mikið drukkin er ekki í ástandi til að veita meðvitað samþykki.
Manneskja sem er mikið drukkin á erfitt með að skýra frá tilfinningum sínum og ásetningi.
Skert hæfni/vilji til að taka því sem önnur manneskja segir (segir nei, snýr sér undan).
Skert hæfni til að standast þrýsting annarra um að ná sínu fram.
Manneskja sem er mikið drukkin getur átt erfitt með að átta sig á og bregðast við því að árás sé yfirvofandi.
Áfengi er aldrei afsökun!
Þrátt fyrir að algengast sé að áfengi hafi verið haft um hönd gerist það einnig að fólki sé byrlað lyfjum. Það er mikilvægt að fylgjast vel með glasinu sínu, fylgjast með vinum sínum og grípa inn í ef eitthvað virðist óeðlilegt.
Hvað get ég gert?
Það er ýmislegt sem við getum gert til þess að koma í veg fyrir kynferðisofbeldi. Þó ber að hafa í huga að sá sem verður fyrir slíku ofbeldi ber aldrei sökina. Ábyrgðin er gerandans.
Til að minnka líkur á að kynferðisofbeldi eigi sér stað:
Virðum skoðanir og mörk annarra.
Spyrjum beinna spurninga ef okkur finnst við fá misvísandi skilaboð.
Látum í ljós þá skoðun okkar að ofbeldi og nauðung sé aldrei ásættanleg eða afsakanleg.
Áfengisneysla er aldrei afsökun fyrir því að beita aðra ofbeldi!
Gætum hvert annars – fylgjumst með vinum okkar og skiptum okkur af því ef við höldum að verið sé að neyða einhvern til að gera eitthvað sem hann/hún vill ekki.
Tökum ábyrgð á áfengisneyslu okkar.
Hvað geri ég til ef einhver hefur þegar orðið fyrir ofbeldi?
Það getur verið erfitt að hlusta á einhvern segja frá því að hann eða hún hafi orðið fyrir ofbeldi. Engu að síður er mikilvægt að hlusta og reyna að aðstoða þolanda. Ef einhver trúir manni fyrir því að hafa orðið fyrir ofbeldi er gott að hafa þetta í huga:
Haldið ró ykkar. Ef maður verður mjög æstur er hætta á að stelpan/strákurinn þori ekki að segja meir eða finnist að þetta hafi verið sér að kenna.
Hlustið og trúið því sem hann eða hún segir.
Verið til staðar fyrir vin ykkar, það þarf ekki alltaf að tala.
Komið því áleiðis að enginn á skilið að vera beittur ofbeldi.
Útskýrið að þetta sé ekki henni eða honum að kenna.
Bjóðist til að hjálpa en ekki ákveða hvað vinur ykkar á að gera. Sá sem hefur orðið fyrir ofbeldi eða árás finnur þegar fyrir vanmætti þar sem völdin voru tekin af honum eða henni. Til þess að auka ekki frekar á vanmáttarkenndina er best að leyfa viðkomandi sjálfum/sjálfri að ráða ferðinni.
Hvetjið hann/hana til að leita hjálpar við að takast á við vandann og afleiðingar ofbeldisins.
Úrræði
Enda þótt við getum sjálf gert mikið til að aðstoða þann sem hefur orðið fyrir ofbeldi þá þarf fólk oft á sérfræðihjálp að halda. Hægt er að leita aðstoðar á ýmsum stöðum. þar á meðal eru:
Skólahjúkrunarfræðingar, námsráðgjafar
Stígamót - Ráðgjafar- og fræðslumiðstöð sem vinnur vegn kynferðisofbeldi
Hjálparsími Rauða Krossins, 1717
Áfallamiðstöð Landspítala
Áfallamiðstöð Landspítala, Neyðarmótttaka vegna nauðgunar:
Þjónustan stendur öllum til boða. Þeir sem hafa verið beittir kynferðisofbeldi geta leitað sér aðstoðar til þess að fá ráðgjöf og stuðning eða til þess að fá læknismeðferð og aðra meðferð. Best er að hringja fyrst og biðja um þjónustu hjá Neyðarmóttökunni (543-1000).
Lögreglan:
Hægt er að biðja um aðstoð lögreglu til að komast á Neyðarmóttökuna.
Á vefsíðu lögreglunnar er hægt að lesa sér til um hvað lögreglan gerir þegar ofbeldismál er rannsakað/kært og hvað viðkomandi þarf að gera.
Ef þig grunar að vinur eða vinkona sé að verða fyrir ofbeldi eða kúgun eða beitir því er gott að velja vandlega stað og stund til þess að ræða málin. Vertu viðbúin/n að viðkomandi neiti öllu eða bregðist illa við.
Að tala við þann sem er beittur ofbeldi eða kúgun:
Gætið þess líka að hugsa um ykkur sjálf, það er erfitt að aðstoða fólk í þessum sporum og gott að geta sjálfur talað við einhvern eins og vini, eða einhvern fullorðinn.
Stundum er sagt að samfélagið líði ekki ofbeldi. En til þess að það geti verið satt þurfum við öll að taka ábyrgð, bæði með því að sýna það í hegðun og með því að gera sömu kröfu til þeirra sem eru í kringum okkur.
Það krefst hugrekkis að ganga á vin sinn og spyrja hvort að hann eða hún sé í skaðlegu sambandi.
Áður en farið er að ræða málin er gott að velja vel stund og stað og vera búin/n að velta fyrir sér hver viðbrögðin gætu orðið. Viðkomandi gæti orðið reið/ur, sár, neitað öllu eða farið að gráta.
Mikilvægt er að tala af virðingu við fólk.
Spyrja spurninga sem krefjast nákvæmra svara og vera tilbúin/n að hlusta án þess að að dæma eða sýna hneykslun. Það er auðvelt að segja vini sínum eða vinkonu að „dömpa“ viðkomandi eða segja fólki fyrir verkum „þú átt bara að...“, en veltu fyrir þér hvernig þessi vinur á eftir að geta átt samskipti við þig í framtíðinni ef að hann eða hún ákveður að halda áfram að vera í sambandinu.
Að tala við vin eða ættingja sem beitir ofbeldi eða kúgun:
Ekki líta framhjá ofbeldi eða kúgun. Ef þú þegir hjálpar það viðkomandi að neita því að eitthvað sé athugavert við framkomu hans eða hennar.
Látið vin ykkar vita að hegðun hans eða hennar sé ekki í lagi.
Útskýrið fyrir vini ykkar hvað það er í hegðun hans/hennar sem er ofbeldisfullt.
Hjálpið vini ykkar að skilja hvað áhrif þetta hefur á þann sem fyrir verður (ótti, treystir ekki, gæti slitið sambandinu).
Sá sem beitir ofbeldi eða kúgun telur sér oft trú um að þetta sé þolanda að kenna. Ekki taka undir þá skoðun, þetta er notað til að réttlæta hegðunina.
Hjálpið vini ykkar að leita sér aðstoðar.
Bendið á að breytt hegðun mun gera sambandið betra fyrir báða aðila.
Af hverju beitir fólk ofbeldi og/eða kúgun?
Til þess að stjórna hinum aðilanum, hvað hann gerir og hvernig honum líður.
Viðkomandi heldur að um sé að ræða eðlilega hegðun.
Viðkomandi finnst hann hafa eignarhald yfir hinum.
Viðkomandi finnst hann alltaf þurfa að hafa völdin í sínum höndum.
Viðkomandi óttast að missa virðingu haldi hann eða hún ekki völdunum.
Viðkomandi kann ekki aðrar leiðir til að takast á við reiði og vonbrigði.
Viðkomandi hefur komist upp með að fá sitt fram með því að beita ofbeldi eða kúgun.
Ef þú (eða einhver sem þú þekkir) ert í ofbeldisfullu sambandi getur verið gott að búa sér til eins konar neyðaráætlun um hvernig hægt er að komast út úr hættulegum aðstæðum. Áætlanir sem þessar eiga við þegar um alvarlegt líkamlegt eða andlegt ofbeldi er að ræða.
Hvert er hægt að fara til að fá hjálp?
Hvern getur þú hringt í?
Hver getur hjálpað þér?
Hvernig getur þú komist út úr ofbeldisfullum aðstæðum?
Leiðir sem hægt er að fara:
Láttu vini eða fjölskyldu vita ef þú ert hrædd(ur) eða hjálparþurfi (hægt að semja um neyðarorð ef maður vill láta sækja sig).
Þegar þú ferð út, láttu vita hvert þú ert að fara og hvenær þú kemur heim
Í neyðartilfellum er hægt að hringja í 112 (eða 1717 fyrir andlegan stuðning)
Gott er að muna ákveðin símanúmer hjá fólki sem getur hjálpað eða staði sem hægt er að fara á í neyð.
Átta sig á hvenær meiri líkur eru á að ofbeldið eigi sér stað.
Læra að þekkja þegar spenna hleðst upp sem er líkleg til að leiða til ofbeldis.
Gott að hafa alltaf einhverja peninga á sér til þess að geta hringt ef farsími er ekki við hendina og til að koma sér á milli staða ef á þarf að halda.
Farið út með hóp af vinum eða öðrum pörum frekar en tvö ein.
Það eiga allir rétt á að lifa ofbeldislausu lífi – einnig þú!
Ef þú ert í sambúð (og með börn) þarf að hafa eftirfarandi í huga:
Hvernig kemstu öruggast og fljótlegast út?
Hvert getur þú leitað skjóls jafnt á nóttu sem degi?
Ef þú þarft skyndilega að yfirgefa heimilið hvað þarf að hafa með sér?:
lykla, föt, lyf, peninga/greiðslukort, skilríki, snyrtivörur, (fyrir börn: skóladót, föt, bangsa eða annað sem veitir þeim öryggi).
Á unglingsárunum eru margir að feta sín fyrstu skref í samskiptum við hitt kynið. Oftast er það ánægjuleg upplifun þó svo að því geti fylgt erfiðir tímar ef upp úr slitnar. Á þessum árum eru viðhorf ungmenna í mótun og þau gera sér ákveðna mynd af því hvað er eðlilegt og gott samband og hvað það felur í sér.
Rétt eins og meðal fullorðinna geta sambönd unglinga orðið ofbeldisfull og ungt fólk utan sambanda getur einnig átt á hættu að verða fyrir kynferðisofbeldi.
Að verða fyrir ofbeldi, hvort heldur sem er innan eða utan sambands, getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér, svo sem þunglyndi, áfengisvanda, lágt sjálfsmat og áfallastreitu.
Þessari samantekt er ætlað að styðja foreldra í uppeldishlutverki sínu, fjallað er um sambönd unglinga, hvernig greina má hættumerki sem benda til að ofbeldis og hvernig hægt er að bregðast við.
Þjónustuaðili
Embætti landlæknis