Svæðisbundnir lýðheilsuvísar 2024 voru kynntir í níunda sinn í Grindavík þann 20. september 2024.
Ávarp
Eggert S. Jónsson sviðsstjóri hjá Grindavíkurbæ bauð gesti velkomna og bað fyrir góðar kveðjur bæjarstjóra. Hann sagði bjartsýni ríkja um uppbyggingu bæjarins þótt fáir væru með fasta búsetu í Grindavík í dag. Fyrir rýmingu í nóvember 2023 lagði sveitarfélagið mikinn metnað í íþrótta- og æskulýðsstarf og starf eldri borgara, s.s. með veglegum íþróttamannvirkjum og lágum tómstundagjöldum. Eggert lýsti áhyggjum af brottfalli Grindvíkinga úr tómstundastarfi eftir flutninga yfir í önnur sveitarfélög, s.s. vegna fjárhagsstöðu, kvíða, samgangna og fleiri þátta. Sveitarfélagið verði áfram að styðja við Grindvíkinga þrátt fyrir ástandið.
Þótt samheldni íbúa sé áberandi taka endurtekin áföll sinn toll af líkamlegri og andlegri heilsu. Í kjölfar áfalla er meiri hætta á ýmsum heilsufarslegum áskornum. Því er mikilvægt að hlúa vel að öllum verndandi þáttum og veita Grindvíkingum nauðsynlegan stuðning. Starfsfólk í heilbrigðiskerfinu og framlínu sveitarfélaga þarf að vera undir það búið að taka á móti Grindvíkingum með fjölþætt heilsufarsvandamál næstu árin. Grindvíkingar þurfa áfram að finna haldreipi í samfélaginu og viðhalda því félagslega afli sem felst í jafningjastuðningi og samveru. Þótt íbúar séu í dag dreifðir um landið eru þeir samt ennþá Grindvíkingar.
Þegar dynur yfir samfélag – lýðheilsuvísar og áföll
Alma D. Möller landlæknir fjallaði í framhaldinu um lýðheilsuvísa og hvernig nýta má gögn í heilbrigðisskrám embættisins til vöktunar á heilsu og líðan fólks þegar áföll dynja yfir.
Í tengslum við náttúruhamfarir á Reykjanesi hafa rauntímagögn úr lyfjagagnagrunni og samskiptaskrá heilsugæslunnar verið notuð til að fylgjast með andlegri og líkamlegri heilsu íbúa Reykjaness, nú síðast hjá þeim hópi sem búsettur var í Grindavík um mitt ár 2023.
Niðurstöður þeirrar greiningar benda til að notkun öndunarfæralyfja hafi aukist umtalsvert hjá íbúum Grindavíkur og sé nú nokkuð meiri en notkunin á landsvísu. Svo virðist sem notkun öndunarfæralyfja hafi aukist meira hjá konum en hjá körlum.
Einnig virðist hafa orðið aukning á kvíða og þunglyndi meðal íbúa Grindavíkur frá árinu 2021, samanborið við íbúa annars staðar á landinu. Jafnframt hafa náttúruhamfarir síðustu mánaða orðið til þess að fleiri hafa fengið afgreidd geðlyf samanborið við áður. Almennt séð er notkun geðlyfja hjá íbúum í Grindavík minni en hjá öðrum landsmönnum. Einkennandi eru þó tveir greinilegir toppar í notkun róandi og kvíðastillandi lyfja, í mars 2021 en þá hófst fyrsta eldgos þessarar hrinu, og aftur í nóvember 2023 þegar kvikuinnskotið undir Grindavík átti sér stað.
Atburðir á borð við þá sem nú ganga yfir Reykjanes geta haft merkjanleg áhrif á heilsu og líðan. Reynsla frá fyrri hamförum hefur leitt í ljós tvo fyrirbyggjandi lykilþætti varðandi langtímaafleiðingar á heilsu. Annars vegar er mikilvægt að styrkja stuðningsnet þeirra sem fyrir áföllum verða og hins vegar að leggja sérstaka áherslu á þolendur með börn á framfæri til að draga úr streitueinkennum umönnunaraðila.
Lýðheilsuvísar tengdir samfélaginu, heilsu og sjúkdómum
Sigríður Haraldsd. Elínardóttir og Dóra Guðrún Guðmundsdóttir sviðsstjórar hjá embætti landlæknis fóru yfir valda lýðheilsuvísa. Þar kom m.a. fram að hlutfallslega fleiri eiga við fjárhagserfiðleika að stríða árið 2023 samanborið við þrjú síðustu ár. Þegar heilbrigðisumdæmin eru borin saman eiga hlutfallslega flestir í fjárhagserfiðleikum á Suðurnesjum en fæstir á Austurlandi. Fátækt hefur skaðleg áhrif á heilsu og félagslega stöðu og mikilvægt að tryggja stuðning þar sem hans er þörf. Hlutfall þeirra sem meta andlega og líkamlega heilsu sæmilega eða lélega er svipað og á síðasta ári en áfram er staðan almennt sú að fleiri meta heilsu sína sæmilega eða lélega í landsbyggðarumdæmum samanborðið við höfuðborgarsvæðið. Nokkur aukning er á notkun blóðsykurslækkandi lyfja sem bæði kann að benda til þess að sykursýki 2 sé greind og meðhöndluð í vaxandi mæli og að tíðni sjúkdómsins fari vaxandi. Eins er líklegt að markaðssetning nýrra lyfja í flokki blóðsykurslækkandi lyfja, Ozempic og Wegovy, skýri hluta af aukningunni, en þau lyf eru einnig notuð til meðhöndlunar offitu. Þátttaka í skimunum fyrir krabbameini í brjóstum fer heldur upp á við og þátttaka í skimun fyrir krabbameini í leghálsi lækkaði ekki milli ára eins og fyrri ár.
Lýðheilsuvísar tengdir lifnaðarháttum og líðan
Í mælingum sem snúa að lifnaðarháttum og líðan má bæði finna jákvæða og neikvæða þróun. Meirihluti ungmenna líður almennt vel og hlutfallslega færri ungmenni í 7. bekk upplifa kvíða en áður í öllum umdæmum. Hins vegar eru fleiri ungmenni sem upplifa sig einmana en áður og 16% ungmenna í 10. bekk upplifa sig útundan eða utangarðs í skóla sem er áhyggjuefni þar sem það getur haft mjög neikvæð áhrif bæði á heilsu og líðan sem og á samfélagið í heild. Hlutfallið er enn hærra víða á landsbyggðinni með 22% á Vestfjörðum og 20% á Suðurnesjum. Þegar kemur að hreyfingu eru aðeins 18% ungmenna í 10. bekk sem hreyfa sig samkvæmt ráðleggingum samanborið við 70% fullorðinna og einungis helmingur nemenda í 4. bekk sem gengur eða hjólar í skóla. Þá er líka aðeins helmingur 7 ára barna sem tekur D-vítamín. Mikill meirihluti ungmenna í 10. bekk eða 95% hafa ekki orðið ölvuð en notkun nikótínpúða og orkudrykkja hefur aukist hjá ungmennum og þar er nokkur breytileiki milli umdæma. Þróun á áfengisneyslu fullorðinna er hins vegar í öfuga átt og eru nú 23% fullorðinna með áhættusamt neyslumynstur áfengis sem er áhyggjuefni þar sem neysla áfengis getur haft neikvæð áhrif á aðra en þá sem neyta þess og samfélagið í heild.
Hagnýt notkun lýðheilsuvísa við skipulag heilbrigðisþjónustu HSS
Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja fjallaði um hagnýta notkun lýðheilsuvísa við skipulag heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum. Hún lagði áherslu á hversu mikil áhrif áföll geta haft á samfélög. Greina megi ákveðin samkenni með áhrifum atburðanna í Grindavík og áhrifum efnahagshrunsins 2008 á heilsu fólks þó svo að atburðirnir séu vissulega ólíkir.
HSS hefur markvisst nýtt lýðheilsvísana í sinni stefnumótun með það að markmiði að færa þjónustuna nær íbúum. Var m.a. boðað til íbúafundar um hvernig snúa mætti vörn í sókn í þeim áskorunum sem vísarnir drógu fram. Í kjölfarið hefur verið gripið til aðgerða, s.s. að bjóða konum til brjóstaskimunar í húsnæði stofnunarinnar í afmælisviku í nóvember. Í nýútgefnum lýðheilsuvísum kemur m.a. fram að þunglyndislyfjanotkun ungmenna yngri en 18 ára sé yfir landsmeðaltali og nú bíði vinna við að takast á við þá áskorun. Að endingu nefnir Guðlaug Rakel að búið sé að skrifa undir viljayfirlýsingu um að opna heilsugæslu í Suðurnesjabæ og að til standi að flýta opnun heilsugæslunnar í Vogum.
Gígja Gunnarsdóttir, verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags, stýrði fundinum.
Svæðisbundnir lýðheilsuvísar 2023 voru kynntir í áttunda sinn í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur þann 14. september 2023.
Alma D. Möller landlæknir ávarpaði fundinn og talaði um áskoranir í heilbrigðisþjónustu sem eru m.a. aukin eftirspurn, skortur á starfsfólki og flóknara umhverfi. Til þess að mæta þessum áskorunum þarf að efla lýðheilsu og forvarnir sem miða að því að viðhalda og bæta heilbrigði fólks og koma í veg fyrir sjúkdóma eins og kostur er auk þess að nýta heilbrigðiskerfið skynsamlega. Í þessu samhengi ræddi Alma um áhrifaþætti heilbrigðis og heilsueflandi nálganir sem embættið stýrir; Heilsueflandi samfélag, Heilsueflandi leik-, grunn- og framhaldsskólar og Heilsueflandi vinnustaðir. Þá sagði landlæknir frá því að nú eru í fyrsta sinn birtir lýðheilsuvísar fyrir fjölmennustu sveitarfélögin til viðbótar við heilbrigðisumdæmi. Þá hafa allir vísar sem gefnir hafa verið út frá upphafi fyrir heilbrigðisumdæmin verið gerðir aðgengilegir í gagnvirkri birtingu á vef embættisins.
Gildi lýðheilsuvísa í starfi sveitarfélaga
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fjallaði um gildi lýðheilsuvísa fyrir starf sveitarfélaga. Í máli Dags kom fram að gagnasöfnun á borð við lýðheilsuvísa hjálpuðu til við markmiðasetningu og stefnumótun og stuðluðu þannig að betra samfélagi. Einnig kom hann inn á mikilvægi borgarskipulags fyrir líðan íbúa og ýmsa áhrifaþætti heilsu, s.s. ójöfnuð, en unnið hefur verið að greiningu á ójöfnuði í Reykjavíkurborg.
Dagur sagðist eiga sér þá von að í framtíðinni verði hægt að para saman gögn úr ýmsum áttum, þar á meðal lýðheilsuvísa, til að greina hvernig ýmsir áhrifaþættir hafa bein áhrif á lífslengd, lífsgæði og líðan. Dagur fagnaði því fyrir hönd borgarinnar að nú væru lýðheilsuvísar birtir fyrir stærstu sveitarfélögin til viðbótar við heilbrigðisumdæmi. Einnig nefndi hann mikilvægi þess fyrir borgina að skoða lýðheilsuvísa nánar eftir svæðum og borgarhlutum.
Lýðheilsuvísar tengdir samfélaginu og heilsu og sjúkdómum
Sigríður Haraldsd. Elínardóttir, sviðsstjóri heilbrigðisupplýsingasviðs, kynnti vísa sem tengjast samfélaginu sem og heilsu og sjúkdómum. Af samfélagsþáttum sem tengjast heilsu ber fyrst að nefna menntun en fjölmargar rannsóknir hafa sýnt jákvæð tengsl menntunar og heilsu. Almennt aðgengi að góðri menntun jafnar tækifæri fólks með margvíslegum hætti og hefur jákvæð áhrif á heilsu og lífsgæði. Þegar skoðað er hlutfall þeirra sem lokið hafa háskólamenntun sést munur milli karla og kvenna, heilbrigðisumdæma og sveitarfélaga. Árið 2022 höfðu tæplega 28% karla á landinu öllu lokið háskólaprófi en ríflega 43% kvenna. Hlutfall háskólamenntaðra karla og kvenna er hæst á höfuðborgarsvæðinu og vel yfir landsmeðaltali. Hlutfallið er talsvert undir landsmeðaltali í öllum landsbyggðarumdæmunum.
Samkvæmt Sigríði mátu marktækt fleiri fullorðnir líkamlega og andlega heilsu sína sæmilega eða lélega árið 2022 miðað við þrjú árin þar á undan. Ef á heildina er litið meta marktækt færri líkamlega heilsu sína sæmilega eða lélega á höfuðborgarsvæðinu samanborið við landið í heild en marktækt fleiri í landsbyggðarumdæmum. Minni munur er á umdæmum þegar kemur að mati á andlegri heilsu.
Notkun þunglyndislyfja dróst lítillega saman á landinu í heild milli áranna 2021 og 2022 og er það í fyrsta sinn sem greina má samdrátt í notkun þunglyndislyfja frá því lýðheilsuvísar litu fyrst dagsins ljós árið 2016. Notkunin dróst saman eða stóð í stað í öllum heilbrigðisumdæmum.
Sigríður greindi frá því að sykursýki væri einn af fjórum stóru flokkum langvinnra sjúkdóma sem valda hvað mestri sjúkdómsbyrði. Sýnt hefur verið fram á að koma má í veg fyrir stóran hluta tilfella sykursýki af tegund II með mataræði og hreyfingu, en um 85-90% sykursjúkra eru með þá tegund. Ekki liggja fyrir upplýsingar um algengi sykursýki eftir búsetusvæðum á Íslandi, en notkun blóðsykurslækkandi lyfja annarra en insúlíns, sem notuð eru við sykursýki af tegund II, gefa hins vegar vísbendingar um tíðni sjúkdómsins. Þannig hefur notkun blóðsykurslækkandi lyfja aukist á landinu í heild og í nánast öllum heilbrigðisumdæmum, einkum á síðustu þremur árum, sem gefur vísbendingu um aukna tíðni sjúkdómsins og tengdra áhrifaþátta.
Loks greindi Sigríður frá því að árið 2022 greindu 7,4% einstaklinga frá að þeir hefðu ekki leitað læknis á síðustu 12 mánuðum vegna þess að þeir höfðu ekki efni á því. Hlutfallið er lægst á Vesturlandi, 2,8% og hæst á Suðurnesjum, 10,3%.
Lýðheilsuvísar tengdir líðan og lifnaðarháttum
Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri lýðheilsusviðs, kynnti vísa tengda líðan og lifnaðarháttum. Í erindi Dóru kom fram að enn eitt árið dregur úr hamingju fullorðinna en hlutfall mjög hamingjusamra er núna 55% en var 61% árið 2016. Hamingja er mikilvæg fyrir samfélagið, lækkun um eitt stig á hamingjukvarða (1-10) kostar samfélagið rúmlega 2 milljónir á ári fyrir hvern einstakling og því mikilvægt að huga betur að því hvernig stuðla má að aukinni hamingju og velsæld í samfélaginu. Ein af skýringunum fyrir minnkandi hamingju gæti verið að finna í auknum einmanaleika en hann hefur vaxið jafnt og þétt síðan mælingar hófust árið 2016. Þá voru 11% ungs fólks á aldrinum 18-34 ára sem upplifði oft eða mjög oft einmanaleika samanborið við 18% í síðustu mælingu árið 2022.
Fram kom í máli Dóru að hlutfall nemanda í 10. bekk sem finnur fyrir kvíða daglega er 23%. Þetta er ekki mæling á kvíðaröskun heldur hlutfall þeirra sem upplifa tilfinninguna kvíða hér um bil daglega. Þó ekki sé um kvíðaröskun að ræða þá er mikilvægt að skoða hvað veldur og hvernig má lækka þetta hlutfall.
Jákvætt er að rúm 86% ungmenna í 8.-10. bekk eiga auðvelt með að fá tilfinningalegan stuðning og hjálp frá fjölskyldunni sinni. Mikilvægt er þó að huga að hinum 14% sem ekki fá stuðning frá fjölskyldu.
Einungis um helmingur sex ára barna tekur lýsi eða D-vítamín og er það svipað hlutfall og síðustu ár. Mikilvægt er að minna foreldra/forráðafólk að gefa börnum sínum D-vítamíngjafa.
Rúmur þriðjungur fullorðinna sögðust borða heilkornavörur daglega eða oftar árið 2022 en ráðlagt er að borða heilkornavörur tvisvar á dag (70 grömm á dag). Nokkur munur er á neyslu heilkornavara á milli heilbrigðisumdæma og er hlutfallið hæst á Vestfjörðum, 46,4%, en lægst á Vesturlandi, 31,7%.
Rúmlega helmingur barna í 4. bekk neytti gosdrykkja 1-2 sinnum í viku árið 2022. Rannsóknir sýna fylgni gosdrykkjaneyslu við langvinna sjúkdóma, þyngdaraukningu og tannskemmdir. Hér á landi eru gos- og orkudrykkir undanþegnir hefðbundnum virðisaukaskatti, sem fer þvert gegn öllum lýðheilsuráðleggingum.
Rúmlega 20% barna í 10. bekk hreyfir sig daglega. Nokkur munur er milli heilbrigðisumdæma þar sem Vestfirðir skera sig úr en þar eru hlutfallið 40%. Um 66% nemenda í 7. bekk, ganga eða hjóla í skólann. Nokkur munur er eftir heilbrigðisumdæmum þar sem hlutfallið er hærra í meiri þéttbýli. Hlutfall fullorðinna sem stundar litla rösklega hreyfingu er 25% á landsvísu. Yfir helmingur fullorðinna segist vera að reyna að létta sig og hefur þetta hlutfall lítið breyst milli ára.
Árið 2022 féll tæpur fjórðungur Íslendinga (24%) undir þá skilgreiningu að vera með skaðlegt neyslumynstur áfengis eða stunda svokallaða áhættudrykkju, 27% karla og 21% kvenna. Nokkur aukning hefur því orðið í áhættudrykkju milli ára, hvort sem litið er til heildarinnar eða þegar greint er eftir aldurshópum og kyni. Sé þetta hlutfall heimfært upp á þjóðina alla má gera ráð fyrir að um 33 þúsund karlar og 25 þúsund konur hafi verið með skaðlegt neyslumynstur áfengis árið 2022. Vert er að geta þess að samkvæmt nýjustu rannsóknum eru þekkt mörk um skaðleysi áfengis ekki til og því má halda því fram að öll áfengisdrykkja sé skaðleg þótt hér sé fjallað um skaðlegt neyslumynstur.
Um 15% nemenda í 10. bekk hefur notað nikótínpúða á landsvísu en hlutfallið er mun hærra í sumum umdæmum. Á Vesturlandi og Suðurlandi er hlutfallið 21% og á Austurlandi 25%. Mikilvægt er að skoða hvað veldur og hvernig megi draga úr þessari notkun. Þegar aldurshópurinn 18-34 ára er skoðaður hækkar hlutfallið í 23% á landsvísu en Norðurland og Austurland eru með hæsta hlutfallið 30%.
Í ár er í fyrsta sinn birtur lýðheilsuvísir um mismunun. Samkvæmt honum hafa 13% fullorðinna orðið fyrir einhvers konar mismunun. Þá eru konur mun líklegri til að verða fyrir mismunun, 16% samanborið við 9% karla. Sama kynjamun má sjá þegar kemur að kynferðisofbeldi, um 24% kvenna segjast hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi en 9% karla. Sláandi niðurstöður má einnig finna í nýjum vísi um kynferðisofbeldi af hálfu jafnaldra, þar greina 11% stúlkna í 8.-10. bekk frá því að hafa orðið fyrir alvarlegu kynferðisofbeldi (munnmök eða samfarir gegn vilja) af hálfu annars unglings.
Lýðheilsuvísar og starf Heilsueflandi samfélags
Gígja Gunnarsdóttir fjallaði um lýðheilsuvísa í starfi Heilsueflandi samfélags. Hún sagði stuttlega frá starfinu sem hefur það meginmarkmið að styðja sveitarfélög, skóla og vinnustaði í að vinna markvisst að því að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra. Þróað hefur verið vefkerfi með gátlistum sem aðstoða tengiliði og stýrihópa heilsueflandi starfs til að greina stöðuna, vinna að úrbótum og meta framvinduna hvað varðar umhverfi og aðstæður. Lýðheilsuvísar nýtast svo, ásamt ýmsum öðrum vísum og gögnum, til að greina stöðuna hvað varðar lifnaðarhætti, heilsu og líðan o.fl. Gígja sagði kærkominn áfanga að lýðheilsuvísar væru nú í fyrsta sinn gefnir út í heild sinni fyrir níu fjölmennustu sveitarfélögin og útskýrði af hverju væri að óbreyttu ekki mögulegt að gera það sama fyrir öll sveitarfélögin þó sannarlega væri vilji til þess. Hún ítrekaði það sem kom fram í fyrri erindum að þó svo að samanburður við önnur svæði geti verið gagnlegur væri mikilvægast að hvert og eitt sveitarfélag rýni lýðheilsuvísana og túlki stöðuna út frá þekkingu á sinni heimabyggð hverju sinni. Aðstæður geti verið svo ólíkar á milli og einnig innan sveitarfélaga. Einnig þurfi m.a. að spyrja sig hvort staðan sé ásættanleg þó svo að hún virðist vera góð/best í samanburði við aðra.
Næstu skref eru m.a. frekari kynning fyrir tengiliði Heilsueflandi samfélags á næstunni og miðla vísunum til fleiri sveitarfélaga eftir því sem gögnin leyfa. Áfram verður leitað leiða til að efla gögnin, samræma og samþætta þannig að starfið nýtist sem best fyrir sveitarfélögin.
Harpa Þorsteinsdóttir, verkefnastjóri lýðheilsumála hjá Reykjavíkurborg, stýrði fundinum.
Lýðheilsuvísar eftir heilbrigðisumdæmum á Íslandi 2022 voru kynntir í sjöunda sinn á Akranesi 13.6.2022.
Alma D. Möller landlæknir ávarpaði fundinn og talaði um áskoranir í heilbrigðisþjónustu, sem eru m.a. aukin eftirspurn, skortur á starfsfólki og flóknara umhverfi. Til að mæta þessum áskorunum þarf að efla lýðheilsu og forvarnir sem miða að því að viðhalda og bæta heilbrigði fólks og koma í veg fyrir sjúkdóma eins og kostur er og nýta heilbrigðiskerfið skynsamlega. Í þessu samhengi ræddi hún um áhrifaþætti heilbrigðis og m.a. heilsueflandi nálganirnar sem embættið stýrir n.t.t. Heilsueflandi samfélag, Heilsueflandi leik-, grunn- og framhaldsskólar og Heilsueflandi vinnustaðir. Kom hún sértaklega inn á svefn og kynnti nýjan lýðheilsuvísi um góðan svefn barna í 4. bekk grunnskóla. Hann sýnir að rúmlega 60% nemenda í 4. bekk gengur oft eða alltaf vel að sofna á kvöldin. Hún sýndi einnig stöðuna í 8.-10. bekk grunnskóla sem sýnir að tæplega helmingur nemenda á landsvísu sefur of stutt.
Alma fjallaði einnig um skimanir fyrir krabbameinum. Eins og fram kemur í skýrslu landlæknis fyrr á árinu um krabbameinsskimanir 2021 var þátttaka í skimunum heldur lakari árið 2021 en árin tvö á undan og eiga erfiðleikar í upphafi árs 2021 án efa þátt í að skýra það. Framkvæmd skimana fyrir bæði krabbameini í leghálsi og brjóstum hefur hins vegar slípast til. Framundan er það verkefni að bæta framkvæmdina enn frekar og sérstaklega að bæta mætingu kvenna sem er frumskilyrði þess að lýðgrunduð skimun skili þeim árangri sem til er ætlast. Heildardánartíðni vegna krabbameina hélt áfram að lækka á fimm ára tímabilinu 2017-2021 eins og hún hafði gert fimm ára tímabilin þar á undan.
Lýðheilsuvísar tengdir samfélaginu og heilsu og sjúkdómum
Sigríður Haraldsd. Elínardóttir, sviðsstjóri heilbrigðisupplýsingasviðs, kynnti vísa tengdum samfélaginu og heilsu og sjúkdómum. Samkvæmt Sigríði mátu marktækt fleiri fullorðnir andlega heilsu sína sæmilega eða lélega árin 2020 og 2021 miðað við árið 2019. Þá hefur komum á heilsugæslustöðvar vegna geð- og atferlisraskana á hverja 100 íbúa fjölgað jafnt og þétt undanfarin ár, ef undan er skilið árið 2020, þegar aðgengi að heilbrigðisþjónustu var hvað mest takmarkað vegna heimsfaraldurs COVID-19. Sérhæfð geðheilbrigðisþjónusta hefur almennt ekki verið veitt innan heilsugæslunnar en síðustu fimm ár hefur sá þáttur aukist í samræmi við markmið stjórnvalda um að heilsugæslan sé að jafnaði fyrsti viðkomustaður einstaklinga innan heilbrigðisþjónustunnar. Skráðum komum á heilsugæslustöðvar vegna geð- og atferlisraskana hefur fjölgað hvað mest á Vestfjörðum og Austurlandi.
Sigríður greindi frá því að sykursýki væri einn af fjórum stóru flokkum langvinnra sjúkdóma sem valda hvað mestri sjúkdómsbyrði. Talið er að 10-15% sykursjúkra séu með sykursýki af tegund I en meirihlutinn, eða um 85-90%, sé með tegund II. Sýnt hefur verið fram á að koma má í veg fyrir stóran hluta tilfella sykursýki af tegund II með heilbrigðu mataræði og hreyfingu. Ekki liggja fyrir upplýsingar um algengi sykursýki eftir búsetusvæðum á Íslandi. Notkun blóðsykurslækkandi lyfja, annarra en insúlíns, sem notuð eru við sykursýki af tegund II gefa hins vegar vísbendingar um tíðni sjúkdómsins. Þannig hefur notkun blóðsykurslækkandi lyfja aukist á landinu í heild og í öllum heilbrigðisumdæmum, einkum á síðustu tveimur árum, sem gefur vísbendingu um aukna tíðni sjúkdómsins og tengdra áhrifaþátta.
Lýðheilsuvísar tengdir líðan og lifnaðarháttum
Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri lýðheilsusviðs hjá embætti landlæknis, kynnti vísa tengdum líðan og lifnaðarháttum. Í erindi Dóru kom fram að líðan hefur almennt farið versnandi. Áfram dregur úr hamingju fullorðinna en hlutfall mjög hamingjusamra lækkaði markvisst milli áranna 2019 og 2020 þegar það fór í fyrsta skipti undir 60%. Hlutfall hamingjusamra unglinga í 10. bekk hefur heldur aldrei verið lægra og mælist nú undir 80% sem er marktæk lækkun frá síðustu mælingu sem var gerð árið 2018. Mikilvægt er að huga vel að þessu og skoða hvað hægt er að gera til að snúa þessari þróun við. Bresk stjórnvöld hafa reiknað út að lækkun um eitt stig á hamingjukvarða kostar samfélagið 13.000 pund á einstakling á ári eða sem svarar rúmum 2 milljónum íslenskra króna. Andleg heilsa framhaldsskólanema stendur í stað á milli ára en minna en helmingur framhaldsskólanema metur andlega heilsu sína góða. Einmanaleiki hefur vaxið jafnt og þétt síðan mælingar hófust árið 2016 en árið 2021 sögðust tæplega 13% fullorðinna finna oft eða mjög oft fyrir einmanaleika.
Almennt eru ekki vísbendingar um miklar breytingar í hreyfingu barna og ungmenna undanfarin ár. Á meðal grunnskólabarna má þó merkja minni notkun virks ferðamáta og einnig örlítið minni þátttöku í skipulögðu íþróttastarfi í elstu aldurshópunum. Hlutfall framhaldsskólanema sem stundar erfiða hreyfingu eykst. Hlutfall fullorðinna sem hreyfa sig lítið jókst tímabundið árið 2020 en er að lækka aftur. Það sama á við um notkun virks ferðamáta á meðal fullorðinna, sú breyting sem varð árið 2020 er að ganga til baka.
Rúm 10% fullorðinna sögðust borða grænmeti og ávexti fimm sinnum á dag árið 2021 en þetta hlutfall var rúm 9% árið 2020. Eins og áður er nokkur munur milli heilbrigðisumdæma og er hlutfallið lægst á Vestfjörðum, aðeins 4,3%, en hæst á höfuðborgarsvæðinu eða 11,5%. Grænmeti og ávextir eru mikilvægur hluti af hollu mataræði. Neysla þess minnkar líkur á hjarta- og æðasjúkdómum, sykursýki af tegund II og ýmsum tegundum krabbameina, auk þess að stuðla að heilsusamlegri líkamsþyngd. Ráðlagt er að borða 5 skammta af grænmeti og ávöxtum á dag eða minnst 500 grömm samtals. Samkvæmt niðurstöðum skólaheilsugæslunnar tók einungis tæplega helmingur sex ára barna lýsi eða D-vítamín daginn sem spurt var árið 2021 og er það svipað hlutfall og árin á undan. Það er sérstaklega mikilvægt að minna foreldra/forráðamenn 6 ára barna á að gefa börnum sínum D-vítamíngjafa þar sem mörg hver þeirra hafa fengið lýsi í leikskólanum og hafa því ekki þurft að huga að D-vítamíngjöfum fyrir börnin sín nema um helgar og í fríum.
Þeim fullorðnu, sem drukku gosdrykki (sykraða og sykurlausa samanlagt) daglega eða oftar, fjölgar úr 24% 2020 í 26% 2021 (þó ekki marktæk aukning). Þá drukku 30% framhaldsskólanema orkudrykki 4 sinnum í viku eða oftar árið 2021. Ofneysla koffíns getur haft neikvæð áhrif á hjarta- og blóðrásarkerfi, sem og taugakerfi. Algengar aukaverkanir ofneyslu eru hjartsláttartruflanir, svefnleysi, skaðleg áhrif á fóstur og mögulega kvíði. Hér á landi eru gos- og orkudrykkir undanþegnir hefðbundnum virðisaukaskatti, sem fer þvert gegn öllum lýðheilsuráðleggingum. Rannsóknir sýna sterka fylgni milli gosdrykkjaneyslu og neyslu annarrar óhollustu, sem og fylgni við langvinna sjúkdóma.
Í heildina virðist heldur hafa dregið úr áhættudrykkju fullorðinna meðan heimsfaraldur COVID-19 stóð sem hæst, þó það sé aðeins misjafnt milli umdæma en sjá má aukningu á Vestfjörðum og Norðurlandi árið 2021. Gera má ráð fyrir að þær samfélagslegu takmarkanir sem voru í gildi meðan heimsfaraldurinn stóð sem hæst, t.d. á skemmtanahaldi, hafi haft einhver áhrif á áfengisdrykkju. Á það sérstaklega við árið 2020, en nokkur aukning varð svo aftur á áfengisdrykkju árið 2021 og í heildina er staðan orðin svipuð og fyrir COVID-19. Þá er einnig ánægjulegt að sjá að langflest ungmenni hafa aldrei notað ólögleg vímuefni. Yfir landið allt segjast 81,4% framhaldsskólanema aldrei hafa notað ólögleg vímuefni. Hæst er hlutfallið á Norðurlandi, 86%.
Nýting lýðheilsuvísa á Vesturlandi
Alma, Sigríður og Dóra ræddu allar um mikilvægi þess fyrir samfélög að rýna vísana fyrir sitt heilbrigðisumdæmi, sjá hvað er vel gert og hvar séu tækifæri til umbóta.
Jóhanna Fjóla Jóhannsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vesturlands kynnti notagildi lýðheilsuvísa á Vesturlandi. Þar eru lýðheilsuvísar m.a. notaðir til stuðnings við stefnumótun, forgangsröðun aðgerða og til að fylgjast með þróun og breytingum yfir tíma. Í því samhengi nefndi hún einnig heilsueflandi nálganir embættis landlæknis og hve góður stuðningur þær væru í heilsueflingarstarfi almennt.
Að lokum talaði Jóhanna Fjóla um góðan árangur m.a. í tóbaksvörnum og minnti á mikilvægi þess að vera vakandi fyrir nýjum áskorunum og huga vel að forvörnum á öllum æviskeiðum.
Lýðheilsuvísar eftir heilbrigðisumdæmum voru kynntir í sjötta sinn í júní 2021.
Lýðheilsuvísar eru safn mælikvarða sem gefa vísbendingar um heilsu og líðan þjóðarinnar. Þeir eru settir fram til þess að veita yfirsýn og auðvelda heilbrigðisþjónustu og sveitarfélögum að greina stöðuna í eigin umdæmi þannig að vinna megi með markvissum hætti að því að bæta heilsu og líðan íbúanna.
Alma D. Möller, landlæknir ávarpaði fundinn. Í erindi hennar kom m.a. fram að heilsa er ekki einungis málefni heilbrigðisþjónustunnar heldur samfélagsins alls. Lifnaðarhættir, menntun og fjárhagslegt öryggi skipta þannig ekki síður máli þegar heilsufar er annars vegar. Þá nefndi Alma heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna en gott samræmi er milli þeirra og helstu áhrifaþátta heilbrigðis og vellíðanar. Ísland hefur einmitt skuldbundið sig til þess að vinna skipulega að innleiðingu þeirra.
Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri lýðheilsusviðs hjá embætti landlæknis greindi frá lýðheilsuvísum tengdum lifnaðarháttum og líðan. Í erindi Dóru kom fram að frá byrjun vöktunar á hamingju fullorðinna er í fyrsta sinn marktæk lækkun á hlutfalli þeirra sem telja sig mjög hamingjusama á milli ára. Hlutfallið fer niður á við í öllum umdæmum nema á Vestfjörðum og Austurlandi. Marktækur munur mælist ekki á streitu fullorðinna milli 2019 og 2020 fyrir landið allt og í flestum umdæmum er hlutfall þeirra sem finna oft eða mjög oft fyrir mikilli streitu lægra árið 2020 en það var 2019. Sveiflur hafa verið í mælingum embættisins á einmanaleika á milli mánaða. Lægra hlutfall fullorðinna upplifði einmanaleika í fyrstu bylgju COVID-19 hér á landi en jókst svo sumarið 2020 eins og síðustu ár. Þegar árið í heild er skoðað þá hefur orðið aukning á hlutfalli þeirra sem segjast oft eða mjög oft finna fyrir einmanaleika.
Mælingar á svefntíma hafa eins og mælingar á einmanaleika sveiflast nokkuð milli mánaða. Almennt hefur verið fækkun í hópi fullorðinna sem sofa of lítið en því miður hefur þróunin ekki verið sú sama á meðal barna. Árið 2019 sváfu 26,6% fullorðinna of lítið samanborið við 24,7% árið 2020. Hjá börnunum var þetta hlutfall 43,1% árið 2019 og 43,6% árið 2020. Ekki mikil aukning en samt neikvæð þróun. Það vekur athygli að flest börn á Austurlandi ná nægum svefni en Austurland er nær því að vera með rétt stillta klukku miðað við staðsetningu á jörðinni. Þar er skólabyrjun að auki seinna en gengur og gerist a.m.k. í einum stórum skóla. Dóra hvatti skólastjórnendur á landinu til að skoða það með opnum hug að seinka skólabyrjun, sérstaklega á unglingastigi. Hæst hlutfall ungmenna í 8.-10. bekk, sem skora hátt á vellíðan er á Austurlandi en lækkun á sér þó stað í öllum heilbrigðisumdæmum. Þá telur tæplega helmingur framhaldsskólanema andlega heilsu sína góða eða mjög góða en hæst hlutfall er á Vestfjörðum og Suðurnesjum.
Fullorðnum sem stunda litla sem enga eða miðlungserfiða hreyfingu hefur fjölgað hlutfallslega frá árinu 2019. Rúmlega helmingur framhaldsskólanema segist stunda erfiða hreyfingu þannig að þau mæðast og svitna þrisvar sinnum í viku eða oftar og um 16% nemenda í 10. bekk grunnskóla hreyfa sig í samræmi við ráðleggingar um hreyfingu, þ.e. 60 mínútur eða meira á hverjum degi.
Aðeins tæp 10% fullorðinna sögðust borða ávexti og grænmeti fimm sinnum á dag árið 2020 en þetta hlutfall var 11% árið 2019. Grænmeti og ávextir eru mikilvægur hluti af hollu mataræði. Neysla þess minnkar líkur á hjarta- og æðasjúkdómum, sykursýki af tegund 2 og ýmsum tegundum krabbameina, auk þess að stuðla að heilsusamlegri líkamsþyngd. Ráðlagt er að borða 5 skammta af grænmeti og ávöxtum á dag eða minnst 500 grömm samtals. Þá er aukning í gosdrykkjaneyslu fullorðinna á milli ára og um 20% framhaldsskólanema drekka gosdrykki fjórum sinnum í viku eða oftar. Hér á landi eru gosdrykkir undanþegnir hefðbundnum virðisaukaskatti og því má segja að um skattaafslátt sé að ræða, sem eykur aðgengi að vörunni, sem fer þvert gegn öllum lýðheilsuráðleggingum. Rannsóknir sýna sterka fylgni milli gosdrykkjaneyslu og annarra óhollustu og því er frekar mælt með auka álögum á gosdrykki en ekki afslátt af þeim til að draga úr neyslunni.
Ekki hafa orðið marktækar breytingar á ölvunardrykkju meðal nemenda í 10. bekk síðustu ár fyrir landið í heild. Hlutfall fullorðinna, sem falla undir þá skilgreiningu að vera með áhættusamt neyslumynstur áfengis, hefur minnkað síðustu ár og er marktækur munur frá 2018 þegar hlutfallið var 25,6% og er nú komið niður í 22,1% yfir landið í heild. Þá lækkar enn hlutfall fullorðinna sem reykja daglega og er nú 7,3% fyrir landið í heild.
Sigríður Haraldsd. Elínardóttir, sviðsstjóri heilbrigðisupplýsinga hjá embætti landlæknis fjallaði um lýðheilsuvísa sem tengjast samfélaginu og heilsu og sjúkdómum. Sigríður vakti athygli á því að hlutfallslega hefur hægt á íbúafjölgun á landinu öllu, einkum í þeim heilbrigðisumdæmum þar sem íbúafjölgun var mest síðastliðin ár. Ef á heildina er litið áttu marktækt færri erfitt með að ná endum saman árið 2020 heldur en 2019. Þessi munur var þó eingöngu marktækur á höfuðborgarsvæðinu og á Norðurlandi.
Hlutfall fullorðinna Íslendinga sem metur heilsu sína sæmilega eða lélega hefur vaxið á undanförnum árum. Hlutfallið var marktækt hærra 2020 en 2019 í þremur heilbrigðisumdæmum, á höfuðborgarsvæðinu, á Suðurnesjum og á Norðurlandi. Hlutfall fullorðinna sem metur andlega heilsu sína sæmilega eða lélega hefur einnig vaxið undanfarin ár. Hlutfallið var marktækt hærra 2020 en 2019 í þremur heilbrigðisumdæmum, á höfuðborgarsvæðinu, á Suðurnesjum og á Suðurlandi.
Á landinu í heild og í öllum heilbrigðisumdæmum hefur marktækt dregið úr ávísun sýklalyfja til handa börnum undir 5 ára aldri á hverju ári síðan 2016. Mest dró úr þessum ávísunum milli áranna 2019 og 2020, sem tengist án efa heimsfaraldri COVID-19, samkomutakmörkunum og aukinni áherslu á smitvarnir.
Lítil breyting varð á þátttöku í skimunum fyrir leghálskrabbameini milli áranna 2019 og 2020 þrátt fyrir takmarkanir í heilbrigðisþjónustu vegna COVID-19 faraldursins. Þátttaka í skimun fyrir brjóstakrabbameini jókst lítillega milli áranna 2019 og 2020 og marktæka aukningu mátti sjá í þátttöku á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurlandi.
Komur á heilsugæslustöðvar voru marktækt færri árið 2020 en 2019 í öllum heilbrigðisumdæmum en árin á undan hafði þeim alla jafna fjölgað marktækt ár frá ári. Þær hömlur sem setja þurfti á samskipti fólks til þess að hefta útbreiðslu COVID-19 höfðu þannig mikil áhrif á með hvaða hætti heilbrigðisþjónusta var veitt. Á sama tíma og komum á heilsugæslustöðvar fækkaði, fjölgaði rafrænum samskiptum og símtölum við heilsugæslu hins vegar gríðarlega á milli ára.
Að lokum fjallaði Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða um hvernig hægt er að nýta lýðheilsuvísa í heimabyggð. Sagði Gylfi mikla framþróun hafa orðið í söfnum og notkun ýmissa gagna undanfarin ár en með tímanum verður til heilsteypt mynd af stöðu mála og virði gagnanna eykst svo um munar. Nefndi hann lýðheilsuvísa embættis landlæknis sem gott dæmi enda stuðla þeir að betri ákvarðanatöku í heimabyggð, forgangsröðun verkefna og eftirfylgni. Þá óskaði Gylfi eftir nokkurs konar rafrænni gagnagátt þar sem allir lýðheilsuvísar væru birtir með aðgengilegum hætti.
Fundinum var stjórnað af Gígju Gunnarsdóttir, verkefnisstjóra heilsueflandi samfélags hjá embætti landlæknis.
Nýir lýðheilsuvísar eftir heilbrigðisumdæmum voru kynntir á Hótel Selfossi, Árborg 23. júní 2020. Er þetta í fimmta sinn sem lýðheilsuvísar embættis landlæknis eru gefnir út.
Lýðheilsuvísar eru safn mælikvarða sem gefa vísbendingar um heilsu og líðan þjóðarinnar. Þeir eru settir fram til þess að veita yfirsýn og auðvelda heilbrigðisþjónustu og sveitarfélögum að greina stöðuna í eigin umdæmi þannig að vinna megi með markvissum hætti að því að bæta heilsu og líðan íbúanna.
Við val á lýðheilsuvísum er sjónum einkum beint að þeim þáttum sem hafa áhrif á heilsu og líðan sem fela í sér tækifæri til heilsueflingar og forvarna. Þá er leitast við að velja þá þætti í sjúkdómabyrði sem mikilvægt er að heilbrigðisþjónusta hvers umdæmis geri sér grein fyrir og bregðist við.
Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri sveitarfélagsins Árborgar ávarpaði fundinn. Hann ræddi meðal annars um mikilvægi góðra lykilvísa og áskoranir við að nýta þá til beinna aðgerða. Landlæknir, Alma D. Möller, sagði frá samstöðu og samstarfi hér á landi á tímum COVID-19.
Dóra Guðrún Guðmundsdóttir sviðsstjóri lýðheilsusviðs hjá embætti landlæknis greindi frá lýðheilsuvísum tengdum lifnaðarháttum. Í erindi Dóru kom fram að Íslendingar eru heilt yfir hamingjusamir, rúmlega 60% landsmanna telja sig mjög hamingjusama og var hlutfallið hæst á Suðurlandi árið 2019. Hlutfall þeirra sem finna oft fyrir einmannaleika hefur aukist í tilteknum umdæmum en minnkað í öðrum. Þannig upplifðu tæplega 15% íbúa Austurlands oft einmannaleika árið 2019 í samanburði við ríflega 10% á landinu öllu. Heilt yfir virðist yngra fólk frekar einmana en þeir sem eldri eru en um 22% fólks á aldrinum18-25 ára sögðust finna oft eða mjög oft fyrir einmanaleika árið 2019. Hlutfall þeirra sem sofa of lítið er einnig breytilegt eftir umdæmum, þannig sofa um 35% fullorðinna og 46% unglinga á Suðurnesjum of lítið í samanburði við 24% fullorðinna og 42% unglinga á Austurlandi.
Það veldur áhyggjum hve mörgum nemendum líður ekki vel í skóla og hversu margir drengir hafa orðið fyrir ofbeldi í skóla. Um 14% nemenda í 5.-7. bekk langar að hætta í skóla og á Austurlandi er þetta hlutfall 21%. Þá hafa tæp 30% drengja í 5.-7. bekk á landinu öllu og 35% drengja á Austurlandi orðið fyrir ofbeldi í skóla síðastliðinn vetur.
Íslendingar hafa lengi átt Norðurlandamet í neyslu á gosdrykkjum. Enn frekari aukning á daglegri gosdrykkjaneyslu er því áhyggjuefni. Um fimmtungur fullorðinna og barna í 5.-7. bekk drakk gosdrykki daglega árið 2019. Þá ná aðeins um 11% fullorðinna ráðleggingum embættis landlæknis um neyslu á fimm skömmtun af ávöxtum og grænmeti á dag.
Aðeins 14% barna í 5.-7. bekk hreyfa sig í samræmi við ráðleggingar embættisins (a.m.k. 60 mín á dag) þrátt fyrir að 2/3 allra barna á landinu taki þátt í skipulögðu íþróttastarfi. Rúmlega 11% fullorðinna stundaði enga rösklega hreyfingu yfir vikuna árið 2019.
Heilt yfir hefur áhættudrykkja fullorðinna minnkað lítillega á landinu en tæplega fjórðungur landsmanna féll árið 2019 undir þá skilgreiningu að vera með áhættusamt neyslumynstur áfengis. Mánaðarleg ölvunardrykkja nemenda í tíunda bekk hefur aukist lítillega. Ánægjulegt er að sjá að enn dregur úr daglegum reykingum fullorðinna og rafrettunotkun ungmenna. Talsverð aukning hefur hins vegar orðið í notkun á tóbaki í vör, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum og er aukningin mest meðal ungra kvenna.
Sigríður Haraldsd. Elínardóttir sviðsstjóri heilbrigðisupplýsinga hjá embætti landlæknis fjallaði um lýðheilsuvísa sem tengjast samfélaginu og heilsu og sjúkdómum. Sigríður vakti athygli á því að íbúum á Suðurnesjum og Suðurlandi hefur fjölgað hlutfallslega meira undanfarin ár en íbúum í öðrum heilbrigðisumdæmum. Ör fjölgun íbúa gefur vísbendingu um áskoranir og tækifæri sem taka þarf tillit til í lýðheilsustarfi. Eitt af heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna til ársins 2030 snertir á þessu málefni þar sem fram kemur að þróa þurfi trausta, staðbundna innviði til að styðja við efnahagsþróun og velmegun fyrir alla.
Heldur lægra hlutfall fólks átti erfitt með að ná endum saman árið 2019 en árin á undan og hefur hlutfallið lækkað mest á Suðurlandi. Á síðustu 15 árum hefur dregið úr líkum á því að deyja fyrir 70 ára aldurs vegna tiltekinna langvinnra sjúkdóma en mismikið eftir heilbrigðisumdæmum. Í heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna er stefnt að því að fækka ótímabærum dauðsföllum af völdum annarra sjúkdóma en smitsjúkdóma um þriðjung með fyrirbyggjandi aðgerðum og meðferð.
Tíðni sýklalyfjaávísana til barna undir 5 ára hefur haldið áfram að lækka. Enn er þó talsverður munur á tíðni ávísana milli heilbrigðisumdæma. Hún er hæst á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum en fer lækkandi í báðum umdæmum. Lægst er tíðnin á Austurlandi.
Þátttaka í skimun fyrir leghálskrabbameini stendur í stað miðað við árið 2018 fyrir landið heild. Þátttaka í skimum fyrir brjóstakrabbameini jókst hins vegar lítillega milli ára í fyrsta sinn í nokkur ár og á það við um öll umdæmi.
Nýr lýðheilsuvísir greinir frá fylltum fullorðinstönnum við 13 ára aldur. Meðalfjöldi skemmdra og fylltra fullorðinstanna (tannátustuðull, DFT) hjá tólf ára börnum er notaður sem alþjóðlegur mælikvarði á tannheilsu. Alþjóðleg markmið stefna að því að lækka tannátustuðul tólf ára barna niður fyrir einn. Þar sem nær öll tólf og þrettán ára gömul börn eru í virku eftirliti hjá heimilistannlæknum hérlendis gefur tannfyllingastuðull (Filled teath, FT) þrettán ára barna vísbendingar um tannátustuðull (DFT) og þar með einnig um tannheilsu barna á Íslandi. Nú mælist þessi stuðull rúmlega 1,5 fyrir landið í heild og hefur lækkað frá árinu 2015. Talsverður breytileiki er á fjölda fylltra fullorðinstanna hjá börnum eftir heilbrigðisumdæmum.
Annar nýr vísir greinir frá fjöllyfjanotkun aldraðra, þ.e. hlutfall þeirra sem taka fleiri en fimm lyf samtímis. Árið 2019 féllu um 56% aldraðra, 75 ára og eldri, undir þessa skilgreiningu og hefur hlutfallið lítið breyst allra síðustu ár. Hlutfallið er nærri meðaltali nokkurra OECD landa.
Komum á heilsugæslustöðvar á íbúa heldur áfram á fjölga ef á heildina er litið. Mest er fjölgunin á höfuðborgarsvæðinu þar sem nýtt fjármögnunarkerfi var tekið í notkun á árinu 2017. Fjármögnunarkerfið hefur m.a. það markmið að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað sjúklinga. Á sama tíma hefur lítillega dregið úr komum til sjálfstætt starfandi sérfræðilækna og er fjöldi koma á íbúa enn mjög mismunandi eftir heilbrigðisumdæmum. Komur á íbúa voru flestar á höfuðborgarsvæðinu þar sem mest framboð er af þessari þjónustu.
Að lokum fjallaði Díana Óskarsdóttir , forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, um stefnu stofnunarinnar í lýðheilsumálum. Sagði Díana m.a. frá geðheilbrigðisteymi sem tók til starfa á HSU í árslok 2019 og frá lífsstíllsmóttökum þar sem fólki er kennt að bera ábyrgð á eigin heilsu.
Fundinum var stjórnað af Braga Bjarnasyni, deildarstjóra frístunda- og menningardeildar sveitarfélagsins Árborgar og tengiliðs heilsueflandi samfélags.
Nýir lýðheilsuvísar eftir heilbrigðisumdæmum kynntir í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ 6. júní 2019. Er þetta í fjórða sinn sem lýðheilsuvísar embættis landlæknis eru gefnir út.
Lýðheilsuvísar eru safn mælikvarða sem gefa vísbendingar um heilsu og líðan þjóðarinnar. Þeir eru settir fram til þess að veita yfirsýn og auðvelda heilbrigðisþjónustu og sveitarfélögum að greina stöðuna í eigin umdæmi þannig að vinna megi með markvissum hætti að því að bæta heilsu og líðan íbúanna.
Við val á lýðheilsuvísum er sjónum einkum beint að þeim áhrifaþáttum heilsu og líðanar sem fela í sér tækifæri til heilsueflingar og forvarna. Þá er leitast við að velja þá þætti í sjúkdómabyrði sem mikilvægt er að heilbrigðisþjónusta hvers umdæmis geri sér grein fyrir og bregðist við.
Birgir Jakobsson, aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra ávarpaði fundinn. Landlæknir, Alma D. Möller, greindi frá því hvers vegna embættið tekur saman og birtir lýðheilsuvísa árlega.
Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri áhrifaþátta heilbrigðis hjá Embætti landlæknis greindi frá lýðheilsuvísum tengdum lifnaðarháttum. Í erindi Dóru kom fram að Íslendingar eru heilt yfir hamingjusamir og um 60% landsmanna telja sig mjög hamingjusama. Jákvæð þróun hefur orðið á síðustu árum á hlutfalli þeirra sem velja virkan ferðamáta í skóla eða vinnu, en um 60% nemenda í 8.-10. bekk hjólar eða gengur í skólann og rúmlega 20% fullorðinna hjólar eða gengur þrisvar sinnum í viku eða oftar.
Einnig kom fram að hlutfall framhaldsskólanema sem hafa orðið ölvaðir einu sinni eða oftar síðustu 30 daga hefur lækkað á landsvísu en þar er þó nokkur breytileiki milli heilbrigðisumdæma. Hlutfall þeirra sem reykja daglega heldur áfram að dragast saman og er nú 8,6%.
Helstu áskoranir varðandi lifnaðarhætti landsmanna er of stuttur svefn, orkudrykkjanotkun, streita og andleg líðan ungmenna. Tæplega 30% fullorðinna og rúmlega 70% framhaldsskólanema ná ekki nægum svefni. Á sama tíma hefur gríðarleg aukning orðið á daglegri neyslu orkudrykkja meðal framhaldsskólanema en þar fer hlutfallið á landsvísu úr 21,7% árið 2016 í 54,6% árið 2018. Auk þess hefur gosdrykkjaneysla fullorðinna aukist á landsvísu. Dóra greindi frá því að rannsóknir sýni fram á að upplifun nemenda á því hvernig kennurum líki við þá hafi áhrif á líðan og námsárangur í skóla. Það er því umhugsunarvert að einungis 55,7% nemenda í 8.-10. bekk upplifi það að kennurunum líki vel við þá. Rannsóknir hafa einnig sýnt að samvera unglinga og foreldra sé verndandi þáttur fyrir áhættuhegðun og því áhyggjuefni að sjá hlutfall þeirra nemenda í 9.-10. bekk sem verja tíma með foreldum sínum utan skólatíma á virkum dögum lækka.
Sigríður Haraldsdóttir, sviðsstjóri heilbrigðisupplýsinga hjá Embætti landlæknis fjallaði um lýðheilsuvísa sem tengjast heilsu og sjúkdómum. Sigríður vakti athygli á því að tíðni sýklalyfjaávísana til barna undir 5 ára hefur lækkað á landinu í heild. Mest hefur tíðnin lækkað í þeim heilbrigðisumdæmum þar sem hún var hæst. Enn er þó mikill munur á tíðni ávísana milli heilbrigðisumdæma og er hún sem fyrr hæst á höfuðborgarsvæðinu. Þátttaka í skimun fyrir leghálskrabbameini og brjóstakrabbameini hefur minnkað undanfarin ár en þátttakan stóð í stað milli áranna 2017 og 2018 ef horft er á landið í heild. Þátttaka í þessum skimunum en þó enn talsvert breytileg milli heilbrigðisumdæma. Tíðni liðskiptaaðgerða á mjöðm og hné hefur farið vaxandi í kjölfar átaks til styttingar biðlista. Aldursstöðluð aðgerðatíðni er hæst á Norðurlandi og Austurlandi. Komum á heilsugæslustöðvar á íbúa hefur fjölgað síðustu 2 ár ef á heildina er litið. Mest er fjölgunin á höfuðborgarsvæðinu þar sem nýtt fjármögnunarkerfi var tekið í notkun á árinu 2017, sem hefur m.a. það markmið að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað sjúklinga. Á sama tíma hefur lítillega dregið úr komum til sjálfstætt starfandi sérfræðilækna og er fjöldi koma á íbúa mjög mismunandi eftir heilbrigðisumdæmum. Flestar eru þær á höfuðborgarsvæðinu þar sem mest framboð er af þessari þjónustu.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar sagði frá hvernig Reykjanesbær nýtir sér lýðheilsuvísa sem hvatningu til að bæta heilsu og líðan íbúanna. Einnig sagði hann frá samstarfi sveitarfélaga á Suðurnesjum og Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja um aðgerðir er varða lýðheilsu. Að lokum fjallaði Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga um hvernig sambandi vinnur með embættinu að innleiðingu Heilsueflandi samfélaga.
Afar góð mæting var á fundinn sem stjórnað var af Markúsi Ingólfi Eiríkssyni, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.
Lýðheilsuvísar 2018, eftir heilbrigðisumdæmum á Íslandi voru kynntir á Fljótsdalshéraði miðvikudaginn 6. júní.
Lýðheilsuvísar, sem nú koma út í þriðja sinn, eru safn mælikvarða sem gefa vísbendingar um heilsu og líðan þjóðarinnar. Þeir eru settir fram til að veita yfirsýn og auðvelda sveitarfélögum og heilbrigðisþjónustu að greina stöðu heilbrigðisumdæmanna.
Við val á lýðheilsuvísum er sjónum m.a. beint að þeim áhrifaþáttum heilsu og líðanar sem fela í sér tækifæri til heilsueflingar og forvarna.
Lifnaðarhættir, heilsa og líðan þjóðarinnar
Á fundinum sagði Alma D. Möller, landlæknir frá ástæðum þess að embætti landlæknis tekur saman lýðheilsuvísa, þá sagði Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri áhrifaþátta heilbrigðis hjá embætti landlæknis frá lýðheilsuvísum sem tengjast lifnaðarháttum.
Í erindi Dóru Guðrúnar kom fram að hamingja Íslendinga er svipuð í ár og hún var í fyrra en um 61% landsmanna telja sig mjög hamingjusama. Einnig kom fram að talsverður munur er á gosdrykkjaneyslu og virkum ferðamáta eftir heilbrigðisumdæmum. Um 10% ungmenna í 8.-10. bekk er oft einmana og líður illa í skóla og um 60% ungmenna og 70% fullorðinna ná nægum svefni. Einnig kom fram að yfir 20% nemenda í 10. bekk hafa reykt rafsígarettur s.l. mánuð.
Næst í pontu var Sigríður Haraldsdóttir, sviðsstjóri heilbrigðisupplýsinga hjá embætti landlæknis. Hún fjallaði um lýðheilsuvísa sem tengjast heilsu og sjúkdómum. Þar kemur m.a. í ljós að dregið hefur úr sýklalyfjaávísunum til ungra barna á landsvísu og í nær öllum heilbrigðisumdæmum.
Sigríður greindi einnig frá því að tíðni liðskiptaaðgerða á mjöðm hefur farið heldur vaxandi sem sýnir jákvæð áhrif átaks stjórnvalda til þess að draga úr bið eftir þessum aðgerðum. Þá eykst notkun þunglyndislyfja á landinu í heild milli ára en þó ekki jafn mikið og undanfarin ár.
Heilsueflandi Austurland í vexti
Eva Jónudóttir, forvarnarfulltrúi á Seyðisfirði sagði frá starfi heilsueflandi samfélaga á Seyðisfirði, Fljótsdalshéraði og Fjarðabyggð. Á þessu ári sem sveitarfélögin hafa unnið eftir nálgun heilsueflandi samfélags hefur mikið áunnist og ánægjulegt er hversu góð samvinna hefur verið milli sveitarfélaganna. Pétur Heimisson, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands sagði frá hvernig þau nýta lýðheilsuvísa í þeirra starfi og Sigurbjörg Hvönn Þrastardóttir, aðstoðarskólastjóri Egilsstaðaskóla sagði frá heilsueflingarstarfi Egilsstaðaskóla sem hefur verið í forystuskóli fyrir heilsueflandi grunnskóla.
Góð mæting var á fundinn sem stjórnað var af Björgu Björnsdóttur, bæjarfulltrúa á Fljótsdalshéraði og Björn Ingimarsson bæjarstóri Fljótsdalshéraðs ávarpaði fundinn
Lýðheilsuvísar 2017 voru kynntir þann 12. júní í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri.
Lýðheilsuvísar, sem nú koma út í annað sinn, eru safn mælikvarða sem gefa vísbendingar um heilsu og líðan þjóðarinnar. Þeir eru settir fram til að veita yfirsýn og auðvelda sveitarfélögum og heilbrigðisþjónustu að greina stöðu heilbrigðisumdæmanna. Ekki verður ætíð um sömu lýðheilsuvísa að ræða enda geta gögn verið þess eðlis að safna þarf upplýsingum yfir lengri tíma til að sjá breytingar í litlu samfélagi. Að sama skapi eru ekki alltaf miklar breytingar frá ári til árs.
Á kynningarfundinum fjallaði Birgir Jakobsson, landlæknir um hvers vegna við tökum saman lýðheilsuvísa, Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri áhrifaþátta heilbrigðis hjá embætti landlæknis, sagði frá lýðheilsuvísum tengdum lifnaðarháttum og Sigríður Haraldsdóttir, sviðsstjóri heilbrigðisupplýsinga hjá Embætti landlæknis fjallaði um lýðheilsuvísa tengdum heilsu og sjúkdómum. Þá sagði Kristinn J. Reimarsson sviðsstjóri samfélagssviðs Akureyrarbæjar frá lýðheilsuvísum og Heilsueflandi samfélagi á Akureyri og Guðný Friðriksdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands útskýrði hvernig heilbrigðisþjónustan getur notað þá. Kynningarfundinum lauk með pallborðsumræðum undir stjórn landlæknis.
Embætti landlæknis hefur í vetur verið með fjölmargar vinnustofur um landið undir formerkjum Heilsueflandi samfélags og Heilsueflandi skóla. Þar eru lýðheilsuvísar m.a. notaðir til að greina áherslur, styðja við skóla og sveitarfélög sem vilja skapa aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lífsháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa. Heilsa og líðan geta verið breytileg eftir þáttum sem ekki er hægt að breyta en einnig þáttum sem hafa má áhrif á. Þar má nefna lifnaðarhætti, samskipti við fjölskyldu og vini auk lífsskilyrða eins og menntun, atvinnu, húsnæði, heilbrigðis- og félagsþjónustu.
Mikil vinna liggur að baki því vali sem birtist í Lýðheilsuvísum og það er von embættisins að þeir muni nýtast bæði í stefnumótun og starfi almennt. Við valið er sjónum fyrst og fremst beint að þeim áhrifaþáttum heilsu og líðanar sem fela í sér tækifæri til heilsueflingar og forvarna. Það er gott að hafa í huga að hvert svæði hefur sína styrkleika og áskoranir.
Hér má nálgast erindi sem flutt voru á kynningarfundi í Safnahúsinu 6. júní 2016.
Ávarp - Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra
Hvers vegna lýðheilsuvísar? - Birgir Jakobsson, landlæknir
Lýðheilsuvísar tengdir lifnaðarháttum - Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, sviðsstjóri áhrifaþátta heilbrigðis hjá embætti landlæknis
Lýðheilsuvísar tengdir heilsu og sjúkdómum - Sigríður Haraldsdóttir, sviðsstjóri heilbrigðisupplýsinga hjá embætti landlæknis
Lýðheilsuvísar í Reykjavík - Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík
Þjónustuaðili
Embætti landlæknis