Fara beint í efnið

Að hefja nám

Upplýsingar um skólakerfið á Íslandi, nám, fjármögnun og húsnæði fyrir námsmenn.

Efnisyfirlit

Svona er skólakerfið á Íslandi

Hér á landi er menntakerfið sett saman úr leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla. Mótun menntastefnu er í höndum mennta- og menningarmálaráðuneytisins og á sama stað er gerð aðalnámskrá fyrir leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og tónlistarskóla á öllum stigum.

Skólastefna er ákveðin af sveitarfélögum og mennta- og menningarmálaráðuneyti. Hún er almennur leiðarvísir um áherslur sem samfélagið vill leggja. Hver skóli útbýr sína skólanámskrá og starfsáætlun, hana má finna á vef hvers skóla.

Skólaskylda til 16 ára aldurs

Leikskóli er ætlaður börnum að 6 ára. Að honum loknum hefst skyldunám í grunnskóla til 16 ára aldurs. Skólaaldur miðast við fæðingarár barns og er hvert skólaár miðað við ágúst–maí og spannar því tvö dagatalsár.

Rekstur leik- og grunnskóla er á færi sveitarfélaga, en í sumum tilvikum hafa sveitarfélög gert samning við einkarekna leikskóla um þjónustu við íbúa.

Þú velur nám sem hentar þér

Allir eiga jafna möguleika á að afla sér menntunar óháð kyni, búsetu, fötlun, fjárhagsstöðu, trúarbrögðum, og menningar- eða félagslegum bakgrunni.

Í sumum skólum eru inntökuskilyrði eða fjöldatakmarkanir. Í háskólum, framhaldsskólum og hjá skólum á sviði símenntunar er boðið upp á fjölbreytt námskeið í mörgum starfsgreinum. Með þeim hætti er hægt að sækja afmörkuð námskeið án þess að skrá sig í nám til lengri tíma.

Flestir háskólar og nokkrir framhaldsskólar bjóða upp á fjarnám og sama má segja um símenntunar- og fræðslumiðstöðvar víðs vegar um land.

Húsnæði fyrir nema

Nemum á efri skólastigum (framhalds- og háskóla) bjóðast mismunandi kostir í húsnæðismálum eftir því í hvaða sveitarfélagi þeir nema eða eiga lögheimili.

Í framhaldsskólum á landsbyggðinni stendur víða til boða að búa á heimavist eða nemendagörðum og nokkur sveitarfélög hafa yfir að ráða námsmannaíbúðum til útleigu.

Nemendur við Háskóla Íslands geta sótt um húsnæði á stúdentagörðum og við flesta aðra háskóla eru nemendagarðar eða nemendaíbúðir.

Fjármögnun náms

Menntasjóður veitir námslán til námsmanna til að framfleyta sér meðan á háskólanámi hér heima eða í útlöndum stendur. Sjóðurinn lánar einnig þeim nemum á framhaldsskólastigi sem stunda löggilt iðnnám og annað samþykkt starfsnám.

Námslán eru veitt að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, upphæð miðast við framfærslu hér á landi og að auki önnur útgjöld þegar það á við.

Skoða nánar á vef Menntasjóðs.

Nám í útlöndum

Þótt þú vitir hvað þú vilt læra getur reynst þrautin þyngri að hefja leit að skóla og námi við hæfi. Öll Norðurlöndin halda úti opinberum síðum þar sem hægt er að leita að námi eftir ýmsum leiðum. Á vefnum farabara.is er hægt að leita að námi eftir löndum og finna þannig nám sem vekur áhuga þinn. Hjá og HR má fá leiðbeiningar og upplýsingar um skiptinám og starfsnám um allan heim.

Íslendingum stendur til boða skiptinám í Evrópu, í Bandaríkjunum og víðar í takmarkaðan tíma. Þá er yfirleitt gerð sú krafa að menntastofnun hér á landi standist skilyrði sem sett eru í viðeigandi landi.

Nokkur félög og samtök með starfsemi hér á landi skipuleggja skiptinám og nám í tengslum við ferðalög.