Fara beint í efnið

Lifandi líffæragjafar

Hægt er að sækja um tímabundna fjárhagsaðstoð hjá Sjúkratryggingum Íslands vegna fjarveru frá vinnu eða námi vegna líffæragjafar.

Líffæragjafar á vinnumarkaði og líffæragjafar í námi geta sótt um greiðslur.

Tekjutengdar greiðslur til líffæragjafa sem er launamaður eða sjálfstætt starfandi skulu nema 80% af meðaltali heildarlauna tekjuárið á undan því ári sem viðkomandi leggur niður störf vegna líffæragjafar.

Líffæragjafi á vinnumarkaði

Skilyrði greiðslna til líffæragjafa á vinnumarkaði er að viðkomandi hafi verið á vinnumarkaði í a.m.k. 6 mánuði samfellt áður en hann verður óvinnufær vegna líffæragjafar.

Þá er skilyrði að líffæragjafinn eigi lögheimili hér á landi þegar hann verður óvinnufær vegna líffæragjafar sem og þann tíma sem greiðslur eru inntar af hendi.

Með umsókn þarf að fylgja

 • Vottorð sérfræðings sem annast líffæragjöfina þar sem fram kemur hve lengi og hvenær líffæragjafi verður frá vinnu

 • Staðfesting vinnuveitanda á að störf hafi verið lögð niður

 • Staðfesting vinnuveitanda á að launagreiðslur hafi fallið niður

 • Staðfesting vinnuveitanda á starfstímabili og starfshlutfalli

 • Tekjuáætlun

Líffæragjafi í námi

Skilyrði greiðslna til líffæragjafa í námi er að viðkomandi hafi verið í 75–100% námi í a.m.k. 6 mánuði á síðustu 12 mánuðum áður en hann gerði hlé á námi vegna líffæragjafar.

Þá er skilyrði að líffæragjafinn eigi lögheimili hér á landi þegar hann gerir hlé á námi sínu vegna líffæragjafar og það tímabil sem greitt er fyrir.

Heimilt er að veita undanþágu frá skilyrði um lögheimili hafi líffæragjafi flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis eftir að hafa átt lögheimili á Íslandi samfellt í að minnsta kosti fimm ár áður.

Með umsókn þarf að fylgja

 • Vottorð sérfræðings sem annast líffæragjöfina þar sem fram kemur tímabil sem líffæragjafi þarf að gera hlé á námi

 • Staðfesting frá skóla á að líffæragjafi hafi gert hlé á námi

 • Staðfesting frá skóla á fyrri skólavist líffæragjafa

 • Tekjuáætlun

Greiðslur sem ekki fara saman með greiðslum vegna líffæragjafa

 • Atvinnuleysisbætur fyrir sama tímabil

 • Greiðslur í fæðingarorlofi eða vegna fæðingarstyrks

 • Lífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar

 • Foreldragreiðslur samkvæmt lögum um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna

Kæruheimild

Heimilt er að kæra ákvarðanir um réttindi líffæragjafa til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Kæra skal berast nefndinni skriflega innan þriggja mánaða frá því niðurstaða var kynnt.

Úrskurðarnefndin skal leitast við að kveða upp úrskurð innan tveggja mánaða frá því kæra berst.

Vert að skoða

Lög og reglugerðir