Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Skráningareglur ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. október 2025 -

Gildir frá: 01.06.2024. Skráningareglur ökutækja eru fyrir fagaðila sem sinna skráningum í umboði Samgöngustofu eða tilkynna breytingar í ökutækjaskrá samkvæmt lögum.

    Umferðarskráningar (í og úr umferð)

    Með umferðarskráningu er átt við skráningu á notkunarstöðu ökutækisins, þ.e. hvort það er skráð í umferð eða ekki. Eftirtaldir aðilar geta gert samning um að vinna í umboði Samgöngustofu hvað varðar umferðarskráningu (kallaðir þjónustuaðilar):

    • Faggiltar skoðunarstofur ökutækja

    Efni kaflans

    Skráning ökutækis úr umferð

    Við skráningu úr umferð er notkun ökutækis óheimil. Hægt er að skrá ökutæki úr umferð á tvo vegu, annars með því að leggja inn skráningarmerki þess og hins vegar með því að tilkynna það úr umferð og líma notkun bönnuð yfir skoðunarmiða.

    Bann við notkun ökutækis miðast við móttöku beiðnar um skráningu úr umferð eða móttöku skráningarmerkja. Óheimilt er að skrá ökutæki úr umferð aftur í tímann nema gegn staðfestri kvittun, sambærilegri sönnun á móttöku tilkynningar um skráningu úr umferð eða skráningarmerkja þjónustuaðila.

    • Ef af ökutæki er greitt kílómetragjald samkvæmt löggiltum ökumæli (þyngri bifreiðir og eftirvagnar ásamt bifreiðum skráðum til sérstakra nota) er nauðsynlegt að lesa af ökumæli við skráningu úr umferð og tilkynna álestur til Skattsins (sjá eyðublað Skattsins). Eigandi (umráðandi) skal upplýstur um þetta og ber ábyrgð á útfyllingu eyðublaðsins og á að koma því til Skattsins.

    • Ef af ökutæki er greitt kílómetragjald samkvæmt akstursmæli (rafmagnsbílar, vetnisbílar og tengiltvinnbílar) má skila inn álestri akstursmælis og skrá stöðuna við innlögn (í vefþjónustunni). Sé það ekki gert þá heldur Skatturinn áfram að áætla mánaðarlega og rukka þótt ökutæki sé skráð úr umferð, alveg þar til staðan verður skráð inn (þá leiðréttist það sem áður hefur verið áætlað og álagning er stöðvuð þar til ökutækið verður skráð í umferð á ný).

    Úr umferð með innlögn skráningarmerkja

    Eigandi (umráðandi) ökutækis eða aðrir fyrir hönd þeirra (þarf ekki umboð) geta óskað eftir því að það verði tímabundið skráð úr umferð með því að skila inn skráningarmerkjum ökutækisins. Ef ökutæki ber tvö skráningarmerki skal skila þeim báðum inn.

    • Ástæða skráningar úr umferð skal vera "Úr umferð (innlögn)". Ef innlögnin er vegna tjóns að ósk tryggingafélags, eða ef ökutæki er skráð tjónaökutæki, skal ástæðan vera "Úr umferð v/tjóns".

    • Ekki er leyfilegt að leggja inn bara annað skráningarmerkið (á þeim ökutækjum sem eiga að hafa tvö), sjá þó næsta punkt. Sé bara öðru skilað inn er viðkomandi skylt að panta og greiða fyrir eitt nýtt skráningarmerki og má þá skrá innlögn (hið nýja merki er svo skráð í innlagnargeymslu þegar það kemur úr framleiðslu). Hafi ökutækið skráningarmerki af eldri gerð, og bara öðru skilað inn, er þessu eina fargað og viðkomandi skylt að panta tvö ný skráningarmerki sem skulu ekki skráð í innlögn fyrr en þau koma úr framleiðslu. Tryggingafélagi (eða aðila fyrir hönd þess) er þó heimilt að

    • Heimilt að skrá úr umferð þrátt fyrir að aðeins öðru skráningarmerkinu hafi verið skilað inn af tryggingafélagi (og lögreglu, sjá neðar). Í slíkum tilvikum þarf eigandi (umráðandi) að panta nýja plötu og hún þarf að vera móttekin hjá afhendingaraðila áður en hægt að skrá ökutækið í umferð á ný.

    • Á kvittun sem þjónustuaðili afhendir við móttöku merkja skal koma fram athugasemd um að merkjunum verði fargað eftir eitt ár í geymslu.

    Úr umferð með álímingu akstursbannsmiða

    Eigandi (umráðandi) ökutækis getur óskað eftir því að það verði tímabundið skráð úr umferð með því að framvísa tilkynningu (US.159) um skráningu úr umferð með miða (aðrir þurfa umboð).

    • Ástæða skráningar úr umferð skal vera "Úr umferð (miði)". Ef ökutæki er skráð tjónaökutæki skal ástæðan vera "Úr umferð v/tjóns".

    • Eigandi (umráðandi) fær afhentan miða með áletruninni "Notkun bönnuð" við afgreiðslu tilkynningar. Honum ber að líma hann yfir skoðunarmiða á skráningarmerki. Ef ökutæki ber eldri gerð skráningarmerkja skal er miðinn settur í framrúðu ökutækisins í stað skoðunarmiða. Minnt skal á að bann við notkun ökutækis miðast við móttöku tilkynningar, óháð því hvenær miði er límdur á skráningarmerki eða rúðu ökutækis.

    • Úr umferð með miða verður til þess að ekki eru lögð vanrækslugjöld á ökutækið, hafi það ekki verið skoðað á tilsettum tíma. Ökutækið skal þá skoða við skráningu í umferð.

    • Hafa skal í huga þegar ökutæki er skráð úr umferð með miða að ekki er öruggt að tryggingar falli niður líkt og þegar skráningarmerki eru lögð inn.

    • Minnt er á að lögreglu heimilt að fjarlægja skráningarmerki af ökutækjum sem skráð eru úr umferð með miða sem standa á lóðum við almannafæri, á götum og í almennum bifreiðastæðum. Í þeim tilvikum er eins ástatt og um ökutæki sem er án skráningarmerkja.

    Úr umferð eftir afklippingu lögreglu

    Lögregla getur fjarlægt skráningarmerki af ökutæki ef tiltekin skilyrði eru fyrir hendi. Lögreglan skilar skráningarmerkjum til þjónustuaðila ásamt upplýsingum um ástæðu afklippingar og er ástæðan skráð í ökutækjaskrá um leið og ökutæki er skráð úr umferð.

    • Ástæða skráningar úr umferð skal vera sú afklippingarástæða sem tilgreind er af lögreglu (sjá yfirlit yfir ástæðurnar "Afklippt vegna ..." í úttekt merkja eftir afklippingu).

    • Ef ástæður afklippingar eru fleiri en ein skal skrá þá ástæðu sem gerir mestar kröfur við skráningu í umferð (yfirleitt er það vegna skoðunar).

    • Þó gildir að ef klippt var af vegna tjóns, jafnvel þótt aðrar ástæður séu tilgreindar, skal skrá ökutækið "Úr umferð v/tjóns" (og minna á að lögregla þurfi að skila inn tilkynningu um tjónaökutæki, annað hvort á pappír með merkjunum eða með tölvupósti til Samgöngustofu). Hafi ökutæki þegar verið skráð úr umferð vegna tjóns og skráningarmerki sögð í vörslu lögreglu þarf bara að breyta geymslustað þeirra.

    • Skili lögregla inn plötu/plötur sem klipptar hafa verið af ökutæki sem þegar hefur verið skráð úr umferð skal ógilda umferðarskráninguna með því að skrá ökutækið í umferð sama dag og það var tekið úr umferð. Ökutækið er svo skráð úr umferð frá því að afklippta platan/plöturnar berast.

    • Heimilt að skrá úr umferð þrátt fyrir að aðeins öðru skráningarmerkinu hafi verið skilað inn af lögreglu. Í slíkum tilvikum þarf eigandi (umráðandi) að panta nýja plötu og hún þarf að vera móttekin hjá afhendingaraðila áður en hægt að skrá ökutækið í umferð á ný.

    Gjaldtaka

    • Gjald Samgöngustofu vegna skráningar úr umferð er 1.153 krónur.

    • Samgöngustofa innheimtir ekki gjald fyrir skráningu úr umferð ef skráningarmerki voru afklippt af lögreglu eða ef ökutæki var skráð úr umferð vegna tjóns.

    Tölvuvinnsla

    Þjónustuaðilar skrá sjálfir ökutæki úr umferð í gegnum vefþjónustu skv. ofangreindum reglum.