Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Skráningareglur ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. október 2025 -

Gildir frá: 01.06.2024. Skráningareglur ökutækja eru fyrir fagaðila sem sinna skráningum í umboði Samgöngustofu eða tilkynna breytingar í ökutækjaskrá samkvæmt lögum.

    Tækniupplýsingaskráningar

    Eftirtaldir aðilar geta gert samning um að vinna í umboði Samgöngustofu hvað varðar öflun upplýsinga af ökutæki, staðfestingu á upplýsingum um ökutæki og um breytingar á skráningu ökutækja í tengslum við opinberar skoðanir þeirra (kallaðir þjónustuaðilar):

    • Faggiltar skoðunarstofur ökutækja

    • Umboð (ökutækja) með fulltrúa B (og C)

    Efni kaflans

    Ökutækisflokkur

    Þetta er flokkun ökutækisins í ökutækjaskrá til samræmis við gildandi lög og reglu­gerðir. Þetta er mjög mikilvægt skráningaratriði í ökutækjaskrá og hefur áhrif víða, s.s. hvað varðar tæknilegar kröfur og álagningu og upphæð opinberra gjalda.

    Yfirökutækisflokkar

    Allir neðangreindir ökutækisflokkar eru skráningarskyldir í ökutækjaskrá.

    Bifreið (M-N)

    Bifreið er vélknúið ökutæki sem er yfir 400 kg að eigin þyngd og hannað til hraðari aksturs en 30 km/klst. Er á hjólum eða er búið beltum og stýrimeiðum/stýrihjólum. Er aðallega ætlað til farþega-/farmflutninga eða til að draga annað ökutæki.

    Yfirflokkun bifreiða er þessi:

    • M : Bifreið sem er hönnuð og smíðuð í þeim tilgangi að flytja farþega og farangur þeirra. Einnig ef fleiri en 8 sætisrými eru til viðbótar við sætisrými ökumanns jafnvel þótt bifreiðin sé ætluð til annarra nota. Heimilt að hafa svæði fyrir standandi farþega. Þessar bifreiðir kallast fólksbifreiðir og hópbifreiðir, fer eftir fjölda sætisrýma.

    • N : Bifreið sem er hönnuð og smíðuð í þeim tilgangi að flytja vörur og/eða hefur áfastan búnað. Má hafa mest 6 (N1) eða 8 (N2 og N3) sætisrými til viðbótar við sætisrými öku­manns. Ekki heimilt að hafa svæði fyrir standandi farþega. Skilyrði gilda um útfærslu farmrýmis og áfasts búnaðar og miða skal flokkun í þennan flokk við tæknilega útfærslu. Þessar bifreiðir kallast sendibifreiðir og vörubifreiðir, fer eftir leyfðri heildarþyngd.

    Eftirvagn (O)

    Eftirvagn er ökutæki sem hannað er til að vera dregið af öðru vélknúnu ökutæki (þó ekki af dráttarvél eða vinnuvél). Eftirvagn getur bæði verið ætlaður til flutninga (á farmi eða fólki) eða ekki. Þegar eftirvagn er ekki ætlaður til flutninga þá er um að ræða einhverskonar einingu á hjólum, til dæmis matar­vagn, vinnuskúr, ljósavél, loftpressu, borkjarnavagn, tjaldvagn, fellihýsi eða hjólhýsi. Í eldri umferðarlögum voru þessar einingar á hjólum skilgreindar sem tengitæki og voru þau óskráningarskyld (og óskoðunarskyld) en þurftu þó að uppfylla allar tæknilegar kröfur eins og um sambærilegan eftirvagn væri að ræða. Með núgildandi umferðarlögum voru hins vegar ákvæði um tengitæki felld úr gildi og eru þau núna eftirvagnar. Um leið urðu þau skráningar­skyld (ökutæki flutt inn eða tekin í notkun frá og með 1. janúar 2020) og þar með líka skoðunar­skyld. Heimilt er að skrá tengitæki sem verið hafa á götunum fyrir þennan tíma.

    Yfirflokkun eftirvagna er þessi:

    • O : Eftirvagn (annarra vélknúinna ökutækja en dráttarvéla og vinnuvéla).

    Bifhjól (L) - tví/þrí/fjórhjól

    Bifhjól er vélknúið ökutæki að hámarki 4 m langt, 2 m breitt og 2,5 m að hæð og hannað til hraðari aksturs en 25 km/klst. Það getur verið á tveimur hjólum, með eða án hliðarvagns, á þremur eða fjórum hjólum. Er aðallega ætlað til farþega- eða farm­flutninga.

    Yfirflokkun bifhjóla er þessi:

    • L : Bifhjól.

    Dráttarvél (T)

    Dráttarvél er vélknúið ökutæki sem aðallega er hannað til að draga annað ökutæki og draga, ýta, flytja og knýja vinnutæki og er á hjólum og/eða beltum.

    Grunnflokkun dráttarvéla er þessi:

    • T : Dráttarvél á hjólum.

    Torfærutæki (TO)

    Torfærutæki er vélknúið ökutæki sem er aðallega ætlað notkunar utan vega (fólks- eða farmflutninga og/eða til að draga annað ökutæki) og er að hámarki 400 kg að eigin þyngd (þó 550 kg ef til farm­flutninga). Er á hjólum eða er búið beltum og stýrimeiðum/stýrihjólum. Þetta er sér­íslenskur ökutækisflokkur fyrir þau ökutæki sem eru á stærð við bifhjól sem ekki uppfylla skilyrði til skráningar í almenna umferð vegna hönnunar og ætlaðrar notkunar (hönnuð til notkunar utan vega). Sé ökutæki, sem sama gildir um, á stærð við bifreið flokkast það sem skráningarskyld bifreið til utanvega- eða undanþáguaksturs eða sem skráningarskyld dráttarvél.

    Grunnflokkun torfærutækja er þessi:

    • TO : Torfærutæki.

    Færsla milli ökutækisflokka

    Fyrsta flokkun gerðarviðurkenndra ökutækja við forskráningu er alltaf sú sem kemur fram á samræmisvottorði ökutækjanna. Við fyrstu flokkun skráningarviðurkenndra ökutækja við forskráningu er horft til hönnunar og smíði, leyfðrar heildarþyngdar og jafnvel eiginþyngdar, fjölda farþega, og skilyrða um útfærslu farm­rýmis og áfests búnaðar. Samgöngustofa metur útfærsluna heildstætt og mögulega í samhengi við notkunarflokk. Skráður ökutækisflokkur gildir þar til annað fæst samþykkt, fáist breyting ekki samþykkt ber að breyta ökutækinu til baka án tafar.

    Eftir fyrstu flokkun er heimilt að færa ökutæki milli ökutækisflokka innan yfirökutækisflokkanna (ekki milli yfirökutækisflokka). Sú tilfærsla skal þó alla jafna eiga sér stað eftir nýskráningu (þá megi breyta því til að falla í annan flokk). Þar sem flokkun ökutækja í ökutækisflokka er ein af grundvallarflokkun í ökutækjaskrá geta komið upp ýmis vafatilvik og þá úrskurðar Samgöngustofa. Með eftirfarandi punktum er þó reynt að útskýra algeng tilvik.

    • Samkvæmt reglugerð um gerð og búnað ökutækja þá skal ökutæki sem flutt er á milli ökutækisflokka uppfylla öll ákvæði reglugerðarinnar sem varða nýjan ökutækisflokk. Ekki er krafist nýrra staðfestinga eða tæknivottorða en miða verður við að hin breyttu atriði standist skoðun miðað við núgildandi reglur (s.s. gerð og búnaður fólks- og farmrýma, ljósabúnaður, hraðatakmarkari og þess háttar).

    • Sé ökutæki fært til skoðunar og það uppgötvast að því hafi verið breytt þannig að það uppfyllir ekki skráðan ökutækisflokk ber að hafna skoðun og ber eiganda (umráðanda) að breyta henni til baka. Sé ætlunin hins vegar að óska eftir breytingu á ökutækinu til samræmis við nýjan ökutækisflokk er ökutækið tekið til breytingaskoðunar (með þeim skilyrðum sem um þá skoðun gildir), þó ber að hafna þeirri skoðun uppfylli ökutækið ekki í meginatriðum nýjan ökutækisflokk (og sérstaklega ef ljóst er að bifreiðin er ekki að fara að uppfylla kröfur nýs ökutækisflokks nema með sérstaklega umfangs­miklum eða kostnaðarsömum breytingum).

    • Bifreið sem hefur fleiri en 8 sæti til viðbótar við sætisrými ökumanns fellur alltaf undir það að vera hópbifreið (flokka M2 eða M3, eftir leyfðri heildarþyngd). Sé slík bifreið ætluð til annarra nota líka (hóp­bifreið ætluð til vöruflutninga eða með áfastan búnað) skal sá hluti bifreiðarinnar uppfylla þau skilyrði sem gilda um bifreið í flokkum N af sömu leyfðu heildarþyngd (s.s. um útfærslu farmrýmis og festingar áfasts búnaðar).

    • Aðeins má skrá í ökutækjaskrá farþega í svæði fyrir standandi farþega í hópbifreiðum (flokkum M2 og M3). Komi í ljós í skoðun að svæði, ætlað standandi farþegum í hóp­bifreið sem skráð er fyrir stand­andi farþega, uppfyllir ekki skilyrði sem til þess eru gerð (s.s. um handslár eða handföng fyrir farþega), skal annað hvort bæta úr og koma svæðinu í lögmætt ástand eða fjarlægja skráða standandi farþega úr ökutækjaskrá (og uppfæra merkingar m.t.t. farþega­fjölda í bifreiðinni) og uppfæra undirflokk hópbíla (í III eða B í stað I, II eða A).

    • Bifreið sem skráð er í N-flokkana þarf alltaf að uppfylla skilyrði um útfærslu farmrýmis, áfasts búnaðar og þyngdar­skiptingu farþega og farms. Ekki heimilt að taka eitthvert þess­ara skilyrða úr sambandi með tiltölulega einfaldri breytingu bara til að geta fengið að skrá bifreiðina í flokk M1. Sú undantekning er þó á þessari reglu að bifreið sem uppfyllir skilyrði til að vera skráð til sérstakra nota í ökutækjaskrá má flokka í M1 og skrá í viðkomandi notkunarflokk (sjá einnig um breyttar torfærubifreiðir í flokkum N2 og N3 neðar).

    • Heimilt er að fækka sætisrýmum í fólksbifreið M1 með það fyrir augum að stækka farangursrýmið (enda farþegar og farangur í sameiginlegu rými). Ekki er skylt að breyta farþegaskráningu bifreiðarinnar (fækka farþegum) ef um tímabundna breytingu er að ræða en við reglubundna skoðun bifreiðarinnar skulu þó öll skráð sæti vera til staðar. Sé ætlunin að gera þessa breytingu varanlega er ekki skylt að breyta bifreiðinni yfir í N-flokk, jafnvel þótt þyngdarskipting fólks og farms gefi það til kynna að bifreiðin eigi frekar að tilheyra N-flokki (þá gætu önnur skilyrði verið óuppfyllt, eins og um festingar farms og farmskilrúm). Á móti kemur að óheimilt er að breyta bifreið í flokki N1, sem uppfyllir öll skilyrði sem slík, í fólksbifreið með einhverjum málamyndarbreytingum (fyrri punktur).

    • Bifreið sem er ekki yfir 3,5 tonnum að leyfðri heildarþyngd og hefur 6 eða færri sætis­rými til viðbótar við sætisrými ökumanns getur í sumum tilvikum farið milli flokka M1 eða N1 með einföldum breytingum. Bifreið heldur þó alltaf sínum ökutækisflokki þar til breyting yfir í hinn ökutækisflokkinn uppfyllir öll skilyrði sem til hans eru gerðar (annars verður að breyta til baka).

    • Bifreið sem er ekki yfir 3,5 tonnum að leyfðri heildarþyngd og hefur 7 eða 8 sætisrými til viðbótar við sætisrými ökumanns má ekki vera N1 (vegna fjölda farþega) og skal því skráð M1 (nema sætin séu fjarlægð). Þar með eru ekki gerðar sérstakar kröfur til út­færslu farmrýma í þeim tilvikum, séu þau til staðar. Sé mögulegt að fjarlægja 7. og 8. sætið getur bifreiðin verið N1 að uppfylltum öðrum skilyrðum um útfærslu farmrýmis og/eða áfasts búnaðar.

    • Bifreið, sem er yfir 3,5 tonnum að leyfðri heildarþyngd og með 8 sætisrými eða færri til viðbótar við sætisrými ökumanns, flokkast sem N2 eða N3 (eftir leyfðri heildar­þyngd) og skal uppfylla viðeigandi skilyrði um þá flokka (sjá um bifreið sem skráð er í N-flokkana ofar). Þó er heimilt að breytt torfærubifreið í flokki N2 sem er undir 5 tonnum að leyfðri heildarþyngd uppfylli ekki skilyrði um þyngdarskiptingu farþega og farms (hefur þá þyngst og burðargeta minnkað) og skal áfram flokkast sem N2.

    • Eftirvagn ætti ekki að flytjast á milli ökutækisflokka vegna þess að flokkunin byggir á leyfðri heildarþyngd, sem almennt er ekki breytt. Berist slíkt erindi ber að vísa því til Samgöngustofu.

    • Bifhjóli er heimilt að breyta á milli L3e og L4e ef um aftakanlegan hliðarvagn er að ræða.

    • Bifhjóli er heimilt að breyta á milli L-flokka við breytingu á afli ef það er samþykkt af framleiðanda. Sótt er um breytinguna til Samgöngustofu.

    • Óheimilt er að breyta bifhjóli í torfærutæki eða dráttarvél, eða öfugt. Þó gildir sú undantekning að hafi ranglega verið staðið að flokkun í upphafi er heimilt að leiðrétta það, sótt er um athugun á því til Samgöngustofu.

    Orðanotkun og skilgreiningar hugtaka

    • Farmur í N-flokki er hvaðeina sem flutt er, s.s. hlutir í stykkjatali eða tönkum, í föstu formi eða fljótandi, lifandi dýr og óskiptan­legur farmur.

    • Útfærsla farmrýmis í N-flokkum: Farmrými og fólksrými bifreiða í flokki N ættu, af grundvallar­ástæðum, að vera alger­lega aðskilin rými. Þó er heimilt að flytja farm og farþega í sama rými, að því gefnu að viðurkenndar festingar séu til staðar fyrir farminn og/eða farm­skilrúm sé milli farþega og farms, sjá nánar í skoðunarhandbók ökutækja. Útfærsla farmrýmis er skráð sem yfirbygging í ökutækjaskrá.

    • Farangur ökumanns og farþega er eitthvað sem tilheyrir þeim í ferðinni og telst ekki til farms (vara eða vöruflutnings) og þurfa farangursrými ekki að uppfylla skilyrði til farm­rýma. Til farangurs telst einnig flutningur á ýmsu hlutum í persónulegum tilgangi, s.s. með heimilisrusl eða almenn aðföng fyrir heimilið.

    • Útfærsla farangursrýmis í M-flokkum: Fólks- og farangursrými má vera í sama rými og ekki eru gerðar sérstakar kröfur til festinga eða skilrúma (sem hafa áhrif á flokkun bifreiðar).

    • Útfærsla áfasts búnaðar í N-flokkum: Áfastur búnaður bifreiðar í flokki N getur verið af ýmsu tagi, s.s. snjótönn, lyfta eða krani, og er skráður í ökutækjaskrá sem yfirbygg­ing.

    • Þyngdarskipting farþega og farms í N-flokkum: Um bifreið í flokki N gildir að hún verður að hafa sama eða meiri burð fyrir farm en farþega (miðað við 68 kg á farþega). Sé skráð yfirbygging bifreiðar í flokki N2 eða N3 ekki til flutnings á neinu, þ.e. eingöngu áfastur búnaður, er ekki gerð krafa um burð fyrir farm.

    • Yfirbygging skal skráð á allar bifreiðir í flokkum N2, N3, O3 og O4.

    • Farþegar eru allir þeir einstaklingar sem hafa heimild til að vera í bifreiðinni á meðan hún er í akstri, fyrir utan ökumann.

    • Sætisrými í bifreið er sæti sem ætlað er til notkunar á meðan bifreiðin er í akstri og hefur viðurkennt rými umhverfis. Sérhvert stakt sæti og sérhvert breiddarrými sem er að lágmarki 400 mm í samfelldum sætisbekk skal uppfylla viðeigandi skilyrði til sætis­rýmis (s.s. hvað varðar sætið og stærð þess, rýmið í kring og öryggisbeltakröfur).

    • Farþegasæti skulu uppfylla kröfur til sætisrýma.

    • Sæti fyrir áhöfn eru ökumannsæti og sérstök leiðsögumannssæti (eitt eða tvö, eingöngu í hópbifreið M2 og M3) sem bæði eru ætluð leiðsögumanni en má líka nýta fyrir auka ökumann (sem er í hvíld). Sæti fyrir áhöfn, nema ökumann, eru talin til farþega í reglugerð um ökuskírteini varðandi heimild til flutnings á farþegum.

    • Ökumannssæti er fyrir ökumann (sem er hluti af áhöfn) og skal uppfylla kröfur til sætisrýma og eftir því sem við á sérstakar kröfur sem gilda um sætisrými ökumanns hópbifreiðar M2 og M3. Ökumannsæti er ekki talið með í farþegafjölda

    • Leiðsögumannssæti eru sérstök sæti fyrir áhöfn sem merkt eru leiðsögumanni í hópbifreið M2 og M3. Þau þurfa ekki að uppfylla ítrustu kröfur til sætisrýma og má staðsetja í gangvegi eða fyrir dyrum, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum (tæknideild tekur út við yfirferð hópbílateikninga), eða framar en sæti ökumanns (sem annars má ekki nota fyrir aðra farþega).

    • Farþegar hjá ökumanni er fjöldi þeirra farþegasæta (af heildar farþegasæt­um) sem eru við hlið ökumanns (má segja að tilheyri sömu sætaröð og sæti ökumanns).

    • Óvirk sæti eru sæti í bifreið sem ekki eiga að falla undir það að vera sætisrými og þar af leiðandi eingöngu notuð í tilteknum tilgangi þegar ökutæki er kyrrstætt. Þau skulu merkt með skýrum hætti (mynd og/eða texti) í bifreiðinni. Í þessum tilvikum skulu sætin hafa sérstakan tilgang sem tengja má við skráða notkun ökutækisins (t.d. bekki í lögreglu­bifreið, vinnusæti í sjúkrabifreið, vinnusæti og bekki í matarvagni og samkomusæti í húsbifreið). Að öðrum kosti eru slík sæti óheimil og ber að fjarlægja eða koma þeim í lögmætt ástand sem sætisrými. Óvirk sæti eru ekki skráð sem sæti í ökutækjaskrá eða birt í skráningarskírteini.

    • Stæði fyrir standandi farþega má skrá í hópbifreiðum M2 og M3. Þeir bílar falla þá í undirökutækisflokka I, II eða A (en ekki III eða B).

    • Hjólastólasæti eru sætisrými sem gerð eru fyrir hjólastóla (fyrir farþega). Þessi sætisrými eru hluti af skráðum fjölda sæta í ökutækinu. Þau eru skráð í skráningar­skírteini sem sérbúnaður (021-024, festing fyrir hjólastól) fyrir sérhverja úttekna festingu. Nota má sætisrými sem gert er fyrir hjólastól fyrir hefðbundið sæti þegar hjólastóll er ekki í notkun, athuga þó að ef koma má fyrir tveimur (eða fleiri) hefðbundnum sætum þegar hjólastóll er ekki í notkun er sætafjöldinn miðaður við mesta fjölda hefðbund­inna sæta (hjólastóllinn kemur ekki sem viðbót).

    • Flutningur liggjandi, eins og sjúklingur í börum í sjúkrabifreið, telst ekki sem farþegi. Sama gildir um látinn einstakling í kistu í líkbifreið. Minnt er á að óheimilt er að liggja í rúmi, bekk, sófa eða þessháttar á meðan ökutæki er á ferð (eru allt óvirk sæti).

    • Þyngd farþega, við útreikning er miðað við 68 kg, en þó 71 kg í hópbifreið í undirflokkum II, III og B. Þyngd farþega í hjólastól í M1, N og O reiknast 160 kg og í M2 og M3 reiknast hann 250 kg.