Fara beint í efnið

Skráningareglur ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. ágúst 2024 -

Gildir frá: 01.06.2024. Skráningareglur ökutækja eru fyrir fagaðila sem sinna skráningum í umboði Samgöngustofu eða tilkynna breytingar í ökutækjaskrá samkvæmt lögum.

    Notkunarflokkaskráningar

    Eftirtaldir aðilar geta gert samning um að vinna í umboði Samgöngustofu hvað varðar skráningu ökutækja í notkunarflokk í tengslum við opinberar skoðanir þeirra eða nýskráningar (kallaðir þjónustuaðilar):

    • Faggiltar skoðunarstofur ökutækja

    • Umboð (ökutækja) með fulltrúa B

    Efni kaflans

    Skilgreining notkunarflokkana

    Um eftirfarandi notkunarflokka í ökutækjaskrá er að ræða.

    Notkunarflokkur "Neyðarakstur"

    Ökutæki sem búið er neyðarakstursljóskeri. Aðeins þeir sem hafa heimild til mega búa ökutæki sín til neyðaraksturs og fá þau skráð sem slík.

    • Tilvist: Notkunarflokkurinn er til vegna þess að hann er skilgreindur í reglugerð um gerð og búnað ökutækja og sérstakar kröfur eru gerðar til ökutækja sem notuð eru í neyðarakstri.

    • Skráningarheimild/skylda: Það er skylt að skrá ökutæki í þennan notkunarflokk uppfylli það kröfurnar sem lýst er í þessu skjali (óheimilt annars). Óheimilt er að stunda neyðarakstur eða hafa neyðarakstursbúnað á ökutæki sem ekki er skráð sem slíkt.

    • Fyrir ökutækisflokka: Alla.

    • Skoðunarregla: Fólks- og sendibifreið skal færa árlega til skoðunar. Hefur ekki áhrif á skoðunarreglu annarra ökutækisflokka.

    Skoðunarstofa sér um að tilkynna ökutæki í notkunarflokkinn á US.111 samhliða breytingaskoðun. Ökutæki sem skráð í þennan notkunarflokk má breyta til baka í almenna notkun standist það breytingaskoðun þar að lútandi.

    Kröfur til ökutækjanna

    Kröfur til ökutækja í neyðarakstri

    Eignaraðild

    Samgöngustofa hefur gefið út heimild til að skrá til neyðaraksturs ökutæki í eigu Ríkislögreglustjóra, opinberra slökkviliða, Almannavarna ríkisins, Rauða kross Íslands og björgunarsveita Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. Ef ökutæki slökkviliða eru skráð í eigu sveitarfélags skal framvísa yfirlýsingu frá sveitarfélaginu um að um ökutæki slökkviliðs sé að ræða.

    Einnig er heimilt að skrá til neyðaraksturs ökutæki í eigu annarra opinberra stjórnvalda s.s. sjúkrabifreiðir, björgunarbifreiðir og hliðstæð ökutæki þó þau séu í einkaeign en í slíkum tilvikum skal liggja fyrir sérstök heimild innviðaráðuneytisins. Henni skal framvísað við breytingaskoðun hjá skoðunarstofu og látin fylgja með breytingatilkynningu til Samgöngustofu.

    Neyðarakstursljós

    Ökutæki til neyðaraksturs skal búið neyðarakstursljóskeri (einu eða fleirum) sem uppfyllir skilyrði um slík ljós, sjá skoðunarhandbók ökutækja (skjal um ljós og glit).

    Glitmerkingar

    Glitmerkingar ökutækja í neyðarakstri skulu hafa eftirfarandi litasamsetningar:

    • Ökutæki lögreglu: Gulur og blár.

    • Ökutæki slökkviliðs: Gulur og rauður.

    • Ökutæki til sjúkraflutninga: Gulur og grænn.

    • Ökutæki björgunarsveita: Gulur og appelsínugulur.

    Glitmerkingarnar skulu uppfylla skilyrði um slíkar merkingar, sjá nánar í skoðunarhandbók ökutækja (skjal um ljós og glit).

    Hraðatakmarkari

    Bifreið til neyðaraksturs er undanþegin ákvæðum um hraðatakmarkara.

    Hljóðmerkisbúnaður

    Ökutæki til neyðaraksturs má hafa tveggja tóna sjálfvirkan hljóðmerkisbúnað sem skiptir stöðugt milli tveggja aðskilinna fastra tónhæða með svipaðri tónlengd.

    Hjólbarðar

    Hjólbarðar á ökutæki til neyðaraksturs skulu gerðir fyrir a.m.k. tæknilegan hámarkshraða þess, þeir mega hafa fleiri nagla en almennt gildir og strangari reglur gilda um hámarksslit hjólbarða. Þessu er lýst í skoðunarhandbók ökutækja.

    Afturvörn

    Bifreið sem skráð er til neyðaraksturs er undanþegin afturvörn.

    Skráningarmerki

    Skráningin hefur engin áhrif á skráningarmerkið.

    Lög og reglur

    Frekari upplýsingar er að finna í eftirfarandi lögum, reglugerðum og/eða reglum (með viðbótum eftir því sem við á):

    • Umferðarlög nr. 77/2019.

    • Reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.

    • Reglugerð um skráningu ökutækja nr. 751/2003.