Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Skráningareglur ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. október 2025 -

Gildir frá: 01.06.2024. Skráningareglur ökutækja eru fyrir fagaðila sem sinna skráningum í umboði Samgöngustofu eða tilkynna breytingar í ökutækjaskrá samkvæmt lögum.

    Almenn atriði

    Ýmsar upplýsingar um skráningarmálefni, skoðunarmiða, eyðublöð, eftirlit og annað.

    Efni kaflans

    Skráningarskyld ökutæki

    Skráningarskyld eru flest þau vélknúnu ökutæki sem hönnuð eru til hraðari aksturs en 30 km/klst (bifreiðir) og 25 km/klst (bifhjól), auk allra dráttarvéla og langflestra eftir­vagna sem notaðir eru á opinberum vegum.

    Bifreið

    • Skráningarskylt vélknúið ökutæki sem er yfir 400 kg að eigin þyngd og hannað til hraðari aksturs en 30 km/klst. Er á hjólum eða er búið beltum og stýrimeiðum/stýri­hjólum. Er aðallega ætlað til fólks- eða farmflutninga eða til að draga annað ökutæki.

    • Bifreið fellur undir ökutækisflokkana M1-M3 og N1-N3.

    Bifhjól (tví-, þrí- eða fjórhjól)

    • Skráningarskylt vélknúið ökutæki að hámarki 4 m langt, 2 m breitt og 2,5 m að hæð og hannað til hraðari aksturs en 25 km/klst. Getur verið á tveimur hjólum, með eða án hliðarvagns, á þremur eða fjórum hjólum. Er aðallega ætlað til fólks- eða farm­flutninga.

    • Bifhjól fellur undir ökutækisflokkana L1e-L7e og flokkast að auki í létt bifhjól og bifhjól í íslensku regluverki.

    Eftirvagn

    • Ökutæki sem hannað er til að vera dregið af vélknúnu ökutæki.

    • Eftirvagnar sem eru yfir 750 kg að leyfðri heildarþyngd eru skráningarskyldir ásamt öllum ferðavögnum (hjólhýsi, fellhýsi og tjaldvagnar) óháð leyfðri heildarþyngd þeirra. Eigi er þó skylt að skrá eftirvagn dráttarvélar sem nær eingöngu er notaður utan opinberra vega.

    • Eftirvagn fellur undir ökutækisflokkana O1-O4, R1-R4 og S1-S2.

    Dráttarvél

    • Skráningarskylt vélknúið ökutæki á hjólum og/eða beltum sem aðallega er hannað til að draga annað ökutæki og draga, ýta, flytja og knýja vinnutæki.

    • Dráttarvél fellur undir ökutækisflokkana T1-T4 og C3.

    Torfærutæki

    • Skráningarskylt vélknúið ökutæki sem er aðallega ætlað notkunar utan vega (fólks- eða farm­flutninga og/eða til að draga annað ökutæki) og er að hámarki 400 kg að eigin þyngd (þó 550 kg ef til farmflutninga). Er á hjólum eða er búið beltum og stýrimeiðum/stýri­hjólum.

    • Þetta er séríslenskur ökutækisflokkur fyrir þau tví-, þrí-, fjór- og sexhjól sem uppfylla ekki skilyrði til skrán­ingar í almenna umferð vegna hönnunar (til notkunar utan vega) og/eða tækni­legra van­kanta (uppfylla ekki tækni­kröfur).

    • Athuga að sé slíkt ökutæki yfir 400 kg að eigin þyngd (og eftir atvikum 550 kg), flokkast það sem skrán­ingarskyld bifreið til utanvega- eða undanþágu­aksturs eða sem skráningarskyld dráttarvél.

    Vinnuvél til aksturs á opinberum vegum

    • Vélknúið ökutæki, sem aðallega er ætlað til sérstakra verka, er búið áfestum tækjum eða vélum og er á loftfylltum hjólum.

    • Vélknúið ökutæki, sem aðallega er ætlað til fólks- eða farmflutninga eða til að draga annað ökutæki og er á loftfylltum hjólum og eigi er hannað til hraðari aksturs en 30 km/klst.

    • Vinnuvélar eru alltaf skráðar hjá Vinnueftirliti ríkisins og sér stofnunin um að skrá þau til aksturs í almenna umferð í ökutækjaskrá að ósk eiganda (umráðanda).

    Ökutæki sem eru ekki skráningarskyld í ökutækjaskrá

    Þegar ökutæki fellur ekki undir skráningarskyldu í ökutækjaskrá eða hjá Vinnueftirliti ríkisins, þá gilda samt sem áður viðeigandi tæknilegar kröfur og oft skilyrði um hönnun eða notkun. Þær kröfur þarf að uppfylla svo að innflutningur og notkun sé heimil. Hér eru nokkur tilvik sem geta verið að koma upp og veitir Samgöngustofa nánari upplýsingar og úrskurðar í vafatilvikum.

    • Vinnuvél sem ætluð er til aksturs utan opinberra vega. Þær eru skráðar hjá Vinnueftirlitinu. Í einhverjum tilvikum getur verið vafamál hvort ökutæki flokkast sem vinnuvél eða sem skráningarskylt ökutæki í ökutækja­skrá, eða hvorttveggja. Í slíkum tilfellum er heimilt að skrá ökutækið hvort sem er í ökutækjaskrá eða vinnuvélaskrá, svo framarlega sem ökutækið hljóti viðeigandi skráningu.

    • Eftirvagn bifreiðar á beltum og eftirvagn dráttarvélar, sem nær eingöngu eru notaðir utan opinberra vega (eigandi/umráðandi ákveður það, t.d. til notkunar í landbúnaði). Er skráningarskyldur annars (ef notkunin er á opinberum vegum).

    • Keppnistæki með hæð ökumannssetu undir 750 mm frá jörðu sem ætluð eru til notkunar á lokuðu keppnissvæði, t.d. "go-kart" bílar.

    • Vélknúin ökutæki með minni hönnunarhraða en 25 km/klst, t.d. rafknúin hlaupahjól, reiðhjól með hjálparafli, lítil vélknúin bifhjól, golfbílar eða leiktæki ýmiskonar (hvergi skráð en þurfa mörg hver að hafa CE merkingu).