Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Skráningareglur ökutækja

Þjónustuaðili:

Síðast uppfært:

1. október 2025 -

Gildir frá: 01.06.2024. Skráningareglur ökutækja eru fyrir fagaðila sem sinna skráningum í umboði Samgöngustofu eða tilkynna breytingar í ökutækjaskrá samkvæmt lögum.

    Almenn atriði

    Ýmsar upplýsingar um skráningarmálefni, skoðunarmiða, eyðublöð, eftirlit og annað.

    Efni kaflans

    Eftirlit með skráningarstarfsemi

    Samgöngustofa hefur eftirlit með skráningarstarfsemi þeirri sem þjónustuaðilar inna af höndum.


    Eftirlit með skráningum (ný-/endur-/af-/breytinga-)

    Ef upp koma annmarkar á skráningu er eftirfarandi ferli aðgerða fylgt í megindráttum. Þjónustuaðili er sá sem sendir inn tilkynningu um skráningu til Samgöngustofu:

    • Þjónustuaðila er tilkynnt um annmarkann, honum er lýst og úrbóta krafist sem allra fyrst. Tilkynningin er send í tölvupósti eða sem viðbrögð í viðkomandi skráningarkerfi, eftir atvikum.

    • Ef úrbætur á annmarka hafa ekki verið gerðar þegar þrjár vikur eru liðnar frá því hann uppgötvaðist er þjónustuaðila og eiganda (umráðanda) sent aðvörunarbréf í pósthólf á island.is. Í bréfinu er annmarka á skráningunni lýst á ný og tilkynnt að verði úrbætur ekki verið gerðar innan tveggja vikna frá dagsetningu bréfsins verði skráningin felld niður eða bakfærð, eftir atvikum.

    • Ef úrbætur hafa ekki verið gerðar þegar tvær vikur eru liðnar frá annarri beiðni um úrbætur er þjónustuaðila og eiganda (umráðanda) sent niðurfellingabréf í pósthólf á island.is. Í bréfinu er tilkynnt að skráningin verði nú felld niður eða bakfærð eftir 5 virka daga vegna þess að úrbætur hafa ekki verið gerðar. Í bréfinu er skorað á eiganda (umráðanda) að skila strax inn skráningarmerkjum ökutækisins, hafi verið um ný- eða endurskráningu að ræða.

    • Hafi ekki verið gerðar úrbætur þegar lokafrestur er liðinn er skráningin felld niður eða bakfærð, eftir atvikum. Tilkynning um það er þá send, eftir því sem við á, til Skattsins (vegna opinberra gjalda), tryggingafélags (vegna ábyrgðartryggingar) og lögreglu (ef klippa þarf skráningarmerki af ökutæki).

    Skilgreind eftirlitskerfi með skráningum eru nokkur.

    Eftirlit með ný- og endurskráningum

    Fylgst er með því að skráningargögn vegna nýskráningar hafi borist með eðlilegum hætti frá skoðunarstofum og umboðum, þau uppfylli öll sett skilyrði um útfyllingu og að skráningar í ökutækjaskrá séu í samræmi við þau. Haft er eftirlit með eftirfarandi þáttum:

    • Að skráningargögn berist frá þjónustuaðila innan 10 virkra daga frá skráningu.

    • Að skráningargögn og skráning beri það með sér að öll skilyrði skráningar hafi verið uppfyllt.

    Eftirlit með breytingaskráningum

    Farið er yfir allar tilkynningar um skráningu sem berast á US.111 frá skoðunarstofum og þær rýndar fyrir samþykkt. Haft er eftirlit með eftirfarandi þáttum:

    • Að tilkynning frá þjónustuaðila hafi verið send sama dag og skoðun vegna breytingarinnar fór fram.

    • Að tilkynningin uppfylli öll formskilyrði, meðal annars að tilkynning sé send af réttu tilefni og heimild til breytinganna sé til staðar (þurfi fyrirfram samþykki Samgöngustofu).

    • Að öll nauðsynleg gildi vegna viðkomandi breytingar séu tilgreind og þau séu innan eðlilegra marka.

    • Að öll nauðsynleg fylgigögn berist með tilkynningu og þau séu í lagi.


    Eftirlit með umskráningum (eigenda-/meðeiganda-/umráðenda-)

    Farið er yfir allar tilkynningar um eigendaskipti og breytingar á meðeigendum og umráðendum. Komi upp frávik er tilkynning sett á bið og aðilum tilkynningar sendar upplýsingar í tölvupósti um annmarkana. Sé ekki brugðist við annmörkum verður tilkynning ekki skráð. Haft er eftirlit með eftirfarandi þáttum:

    • Að tilkynningin uppfylli öll formskilyrði (fram komi þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru og þær séu læsilegar).

    • Að aðilar tilkynningar uppfylli skilyrði, m.a. aldur og hafi heimild til ráðstafana.

    • Að umboð og fylgigögn uppfylli formskilyrði og innihaldi viðeigandi upplýsingar.


    Eftirlit með umferðarskráningum og plötugeymslum

    Regluglega eru gerðar keyrslur til að fylgjast með ýmsum þáttum, meðal annars þessum:

    • Að plötugeymslur uppfylli kröfur um takmörkun á aðgangi hjá þjónustuaðila.

    • Að eðlileg förgun skráningarmerkja sem eru í geymslu fari fram.

    • Að ökutæki sé skráð í umferð á réttum forsendum.