Einkamál í héraðsdómi
Aðilar málsins
Í hefðbundnum einkamálum fyrir héraðsdómi geta aðilar máls verið einstaklingar, fyrirtæki, félög eða opinberar stofnanir. Aðilar málsins eru nefndir:
Stefnandi: sá sem byrjar málið og sækir kröfur.
Stefndi: sá sem málið og krafan beinist gegn og tekur til varna.
Sakamál
Í sakamálum er skorið úr um sekt þess sem hefur verið ákærður fyrir refsivert afbrot og viðkomandi ákveðin viðeigandi refsing ef fundinn sekur.
Ákæruvaldið, eða handhafar þess, höfðar mál á hendur einstaklingum eða lögaðilum, það er, fyrirtækjum.
Ríkissaksóknari er æðsti handhafi ákæruvalds og sæta héraðssaksóknari og lögreglustjórar, níu talsins, eftirliti og leiðsögn af hálfu ríkissaksóknara í störfum sem ákærendur og handhafar ákæruvalds.
Einkamál
Önnur dómsmál teljast einkamál. Þau snúast fyrst og fremst um úrlausn ágreiningsmála á milli tveggja eða fleiri aðila. Aðilar að einkamáli geta verið einstaklingar eða lögaðilar. Þá getur ríkið og stofnanir þess einnig verið aðili að einkamáli.
Tegundir mála
Hefðbundin einkamál fyrir héraðsdómi eru mjög fjölbreytileg. Dæmi eru skaðabótamál, forsjármál, sifjaréttarmál, landamerkjamál og fasteignakaupamál.
Stefnandi gerir kröfu
Hefðbundið einkamál hefst með því að stefnandi gerir kröfu eða kröfur á hendur stefnda eða stefndu. Stefnendur og þeir stefndu geta verið fleiri en einn. Krafan getur verið af ýmsu tagi, til dæmis:
að greiða skuld,
að ákveðin landamerki séu viðurkennd,
að krafist sé forsjár yfir barni,
að greiddar verði tilteknar skaðabætur,
eða bótaskylda viðurkennd án þess að fjallað sé sérstaklega um fjárhæð bóta.
Kröfu lýst í stefnu
Kröfum og ástæðunum fyrir þeim er lýst í stefnu. Þar er líka rökstutt hvers vegna fallast eigi á kröfurnar. Þar á meðal eru teknar fram þær lagareglur sem styðja mál stefnanda.
Að skrifa stefnu
Stefna máls er næstum alltaf skrifuð og sett upp af lögmanni fyrir hönd stefnanda.
Einstaklingur getur sjálfur skrifað stefnu og undirritað en það er mjög mikilvægt að vanda til verka. Stefnan er grunnur málsins og þeim grunni er ekki breytt að neinu verulegu leyti þar til málinu lýkur með dómi eða úrskurði.
Ef stefna og grundvöllur máls er ekki nógu vandaður getur það haft áhrif á úrslit málsins. Það getur líka leitt til þess að málinu verði vísað frá dómi. Frávísun hefur oft í för með sér að stefnandi þarf að greiða stefnda málskostnað, þótt ekki sé í raun leyst úr ágreiningi. Þá þarf stefnandi að byrja málið upp á nýtt ef vilji er fyrir því og tök eru á.
Birting stefnu
Málið hefst þegar stefnan er birt fyrir þeim sem stefnandi vill stefna fyrir dóm. Í stefnunni kemur fram hvað er farið fram á. Einnig kemur fram nákvæm tímasetning á því hvenær og hvar stefndi á að mæta í héraðsdóm. Leiðir til að birta stefnu eru einkum eftirfarandi:
Stefnan getur verið birt fyrir lögmanni stefnda.
Stefnan getur verið afhent stefnda á lögheimili hans. Stefnuna má afhenda öðrum á heimilinu ef viðkomandi hefur náð 15 ára aldri og er ekki gagnaðili í málinu.
Stefnuna má birta fyrir stefnda sjálfum hvar sem hann hittist fyrir.
Stundum eru stefnur sendar í ábyrgðarpósti.
Undir sérstökum kringumstæðum er stefna birt í Lögbirtingablaði. Stefnur eru birtar af stefnuvottum sem skipaðir eru af sýslumönnum í hverju umdæmi.
Í hvaða héraðsdómi?
Héraðsdómstólar á landinu eru átta talsins. Það fer oftast eftir því hvar stefndi á lögheimili hvar málið er tekið fyrir. Þetta heitir heimilisvarnarþing.
Það eru undantekningar á þessu og það þarf að skoða vel hvar höfða á málið. Ef mál er höfðað fyrir röngu varnarþingi, það er, fyrir röngum héraðsdómi, gæti það haft í för með sér frávísun á málinu með tilheyrandi kostnaði og töpuðum tíma. Það er hægt að lesa reglur um varnarþing í fimmta kafla laga um meðferð einkamála.
Stundum er val um varnarþing sem miðast þá við hvar hentugast er að reka mál. Þetta getur verið þar sem slys hefur orðið og skoða þarf vettvang. Einnig ef um er að ræða gallamál vegna fasteignar sem dómari eða dómendur þurfa að skoða áður en mál er dæmt.
Stefndi ákveður hvort gengið verði að kröfu
Nú hefur stefnda verið birt stefnan og þá þarf viðkomandi að ákveða hvort krafan verði samþykkt og gengið að henni, eða ekki.
Þegar stefndi hefur fengið stefnu í hendur hefur viðkomandi oft engar athugasemdir við kröfur sem eru gerðar.
Þarf ekki að mæta fyrir dóm
Ef stefndi ætlar ekki að mótmæla kröfu þarf viðkomandi ekki að mæta fyrir dóm. Ef stefndi mætir ekki er málið dómtekið og yfirgnæfandi líkur eru á því að stefnukröfur séu áritaðar af dómara eða aðstoðarmanni dómara. Langoftast er fallist á kröfur stefnanda ef ekki eru augljósir annmarkar á málinu. Dómarinn sem fær málið á reglulegu dómþingi getur ekki vitað betur en að kröfur stefnanda séu í lagi þar sem enginn er mættur til að mótmæla þeim.
Dómkröfur eru þar með orðnar aðfararhæfar. Það þýðir að hægt er að krefjast þess að krafan verði efnd, eða krefjast dómsorðs með aðstoð sýslumanns ef þörf er á. Stefndi ætti að reyna að efna skyldur sínar ef hægt er áður en stefnandi leitar til sýslumanns. Frekari innheimta eða eftirfylgni þýðir meiri vinnu, tíma og kostnað.
Að hunsa stefnu og mæta ekki
Krafa stefnandans er því samþykkt ef stefndi ákveður að mæta ekki, jafnvel þótt viðkomandi sé ósáttur við kröfuna.
Skuldamál algengust
Lang flest mál sem stefnt er fyrir dómstóla varða fjárkröfur, það er, skuldir. Oft er enginn ágreiningur um kröfurnar. Stefndi hefur kannski ekki getað greitt skuld, hún hefur farið framhjá viðkomandi eða hún hreinlega gleymst.
Það er samt nauðsynlegt fyrir stefnandann að fá dómkröfur formlega samþykktar fyrir dómi. Þá öðlast krafa aðfararhæfi. Með því eykur stefnandinn möguleika sína á því að fá kröfuna greidda, stundum með aðstoð sýslumanns.
Algeng málalok
Flestum málum lýkur þannig að stefnandi mætir með stefnu málsins, sem hann hefur birt eða látið birta fyrir stefnda, og gögn sem styðja stefnukröfur á reglulegt dómþing. Stefndi mætir ekki, málið er þingfest og dómtekið strax og dómkröfur stefnanda áritaðar um aðfararhæfi að jafnaði allra næstu daga eftir dómþingið. Þar með er málið klárt fyrir sýslumann og frekari innheimtu.
Regluleg dómþing
Dómþing er fyrirtaka málsins í dómsal á fyrirfram ákveðnum tíma. Héraðsdómstólarnir halda regluleg dómþing sem eru ákveðin fyrirfram.
Það er hægt að sjá dagskrá fyrir regluleg dómþing á síðu héraðsdómstóla.
Ef stefndi er ekki samþykkur kröfunni, eða hefur athugasemdir, verður viðkomandi að mæta á reglulegt dómþing á þeim tíma sem stefnan tilgreinir.
Stefnan þingfest
Stefnan er þingfest á reglulegu dómþingi og þar með málið gegn hinum stefnda. Framhald málsins er ákveðið í þinghaldi á dómþingi, þar með talið hvenær það verður tekið fyrir síðar. Dæmi eru um að dómþingi sé frestað og þá er ákveðinn annar tími.
Mætir í eigin persónu eða fær lögmann
Stefndi getur mætt sjálfur eða fengið lögmann til þess að mæta fyrir sína hönd. Einstaklingur sem hefur ekki lært lögfræði á rétt á leiðbeiningum frá dómara eða löglærðum aðstoðarmanni dómara um hvernig á að bregðast við. Það er ekki hægt að senda fjölskyldumeðlim eða vin með umboð.
Fær frest
Ef stefndi hefur einhverjar athugasemdir við stefnu eða vill skoða málið og reyna jafnvel að semja við stefnanda að þá verður viðkomandi, eða lögmaður fyrir þeirra hönd, að mæta á dómþingið og óska eftir fresti. Það dugar ekki að hringja í héraðsdóm til að óska eftir fresti.
Getur ekki mætt
Ef stefndi forfallast og mætir ekki við þingfestingu þarf viðkomandi að sýna fram á lögmæt forföll. Í slíku tilfelli er málið tekið fyrir og þingfest en bókað um lögmæt forföll stefnda og ákveðin dagsetning nýrrar fyrirtöku. Veikindi þarf að sýna fram á með læknisvottorði.
Útivistarmál
Ef ekki er um lögmæt forföll að ræða og enginn mætir fyrir stefnda heitir það útivist. Það leiðir til þess að yfirleitt er fallist á kröfur stefnanda.
Sættir
Stundum verður niðurstaðan sú að aðilar ná sáttum áður en málið er þingfest. Stundum er gengið frá sáttinni í því þinghaldi þar sem málið er þingfest og málinu þá lokið með réttarsátt. Þá gengur ekki dómur í málinu og stefnan verður ekki árituð um aðfararhæfi. Málinu er þá lokið með sáttinni.
Langoftast verður þó málið þingfest eins og til stóð af hálfu stefnanda þótt það kannski leysist strax í því þinghaldi eða í næsta þinghaldi þar á eftir.
Þegar stefndi mætir fyrir héraðsdóm og mótmælir kröfunni er viðkomandi gefinn frestur til að skila inn greinargerð. Þá fær stefndi jafnframt ráðrúm til að leita aðstoðar lögmanns ef það hefur ekki verið gert þegar. Lögmaðurinn tekur við málinu og mætir eftir það í dóminn fyrir hönd stefnda.
Gögn málsins
Á reglulegu dómþingi fær stefndi, eða lögmaður viðkomandi, afhent gögn málsins. Gögnin eru:
Stefnan - sem viðkomandi hefur reyndar fengið þeagr afhenta.
Öll þau gögn sem stefnandi leggur fram í dómnum til að sanna að hann hafi rétt fyrir sér.
Greinargerð
Greinargerðinni er skilað á reglulegu dómþingi. Í grunninn eiga sömu upplýsingar varðandi málið sjálft að koma fram í greinargerð stefnda og koma fram í stefnunni sem var birt viðkomandi. Munurinn er sá að í stefnu lýsir stefnandi sinni sýn á málið en í greinargerð stefnda lýsir stefndi sinni sýn á það sama mál. Því er oftar en ekki krafist sýknu í greinargerð stefnda, eða að fá kröfur lækkaðar.
Skrif greinargerðar
Með sama hætti og mikilvægt er að vanda til verka þegar stefna máls er skrifuð og grundvöllur máls þannig lagður, er greinargerðin afar mikilvæg. Þar er lagður samskonar grunnur fyrir málatilbúnað stefnda sem að meginstefnu verður ekki breytt eftir það. Oftast nýtur stefndi aðstoðar lögmanns við að útbúa greinargerðina.
Ágreiningur kominn fram
Þegar stefndi hefur lagt fram greinargerð sem lýsir því að kröfu stefnanda sé mótmælt að hluta eða öllu, er kominn upp ágreiningur. Úr slíkum ágreiningi geta einungis embættisdómarar leyst eftir aðalmeðferð.
Í þeim héraðsdómum þar sem fleiri en einn dómari eiga sæti úthlutar dómstjóri málinu til ákveðins dómara. Í nokkrum héraðsdómstólum er einungis einn dómari sem fer þá sjálfkrafa með málið.
Krefst þess að máli verði vísað frá
Sá möguleiki er fyrir hendi að stefndi krefjist frávísunar á máli. Það telst ekki til efnislegs ágreinings heldur varðar það formsatriði. Það eru atriði eins og að málið sé ruglingslegt, vanreifað og óskýrt, höfðað fyrir röngu varnarþingi eða kröfur ónákvæmar.
Mál er þá flutt munnlega um frávísunarkröfu stefnda. Það þýðir að aðilar flytja mál sitt fyrir framan þann dómara sem hefur fengið málið til úrlausnar.
Þá fer ekki fram nein sönnunarfærsla. Sönnunarfærsla er þegar sönnunargögn eru færð fram fyrir dómi í þeim tilgangi að sýna dómara fram á eða sannfæra hann um að eitthvað hafi gerst eða ekki gerst og eftir atvikum hvernig.
Dómari úrskurðar um frávísun
Dómari kveður í framhaldi upp úrskurð um hvort skuli vísa málinu frá dómi. Sé málinu vísað frá dómi er unnt að kæra slíkan úrskurð til Landsréttar, en fallist dómari ekki á að vísa málinu frá dómi heldur málið almennt áfram í aðalmeðferð.
Ef máli er hins vegar vísað frá dómi ber að jafnaði þá að ákveða stefnda málskostnað úr hendi stefnanda, en rökin fyrir því eru í grunninn þau að þá hefur stefndi í raun farið erindisleysu til dómsins.
Frávísun
Við frávísun er því máli jafnframt lokið og verður ekki haldið áfram. Það kemur hins vegar ekki í veg fyrir það að stefnandi höfði nýtt mál, það er, fari aftur af stað með sama mál. Þá verður viðkomandi að vera búinn að leiðrétta eða lagfæra þá galla sem voru á málinu þegar hann stefndi því áður fyrir dóm.
Engin frávísun
Ef málinu er ekki vísað frá, fer það í aðalmeðferð.
Eftir að sjónarmið beggja aðila hafa komið fram og ágreiningur leysist ekki með öðrum hætti fer rekstur máls á endanum í aðalmeðferð. Aðalmeðferð fer alltaf fram í dómsal.
Í aðalmeðferð er málið flutt munnlega og eftir atvikum eru vitni leidd og aðilum málsins gefinn kostur á að gefa skýrslu. Aðalmeðferðinni er þannig ætlað að hjálpa dómara við að átta sig á sakarefninu og þeim ágreiningi sem til úrlausnar er.
Öll gögn liggja fyrir
Þegar búið er að ákveða aðalmeðferð á öllum undirbúningi að vera lokið. Lögmenn eða aðilar málsins eiga að vera búnir að leggja fram öll sönnunargögn og önnur gögn málsins.
Skýrslur fyrir dómi
Oftast eru skýrslur af aðilum máls og vitnum teknar við upphaf aðalmeðferðar. Stundum er notast við fjarfundarbúnað eða skýrsla tekin símleiðis.
Aðilar málsins, stefnandi og stefndi, gefa ekki alltaf skýrslu fyrir dómi. Þessir aðilar geta ákveðið að gera það ekki þó það sé undantekning. Vitni geta yfirleitt ekki skorast undan því að koma fyrir dóm og greina frá því sem þau vita um málsatvik.
Stundum hefst aðalmeðferð á því að dómari fer á vettvang ásamt lögmönnum/aðilum málsins til að glöggva sig á aðstæðum. Þetta er t.d. oft gert í gallamálum vegna fasteignakaupa, landamerkjamálum og slysamálum til að skoða vettvang slyss.
Málflutningur
Nú hafa öll gögn hafa verið lögð fram í málinu, áður en aðalmeðferð hófst, og skýrslur verið gefnar fyrir framan dómara.
Ræður lögmanna
Þá fer næst fram málflutningur þegar lögmenn flytja málið. Fyrst lögmaður stefnanda og síðan lögmaður stefnda. Slíkar málflutningsræður eru oft 30-40 mínútur en geta líka verið mjög stuttar, til dæmis 10 mínútur.
Seinni ræður lögmanna
Eftir að lögmenn hafa lokið fyrri málflutningsræðum sínum gefst þeim kostur á seinni ræðum. Þar er þó einungis um að ræða andsvör lögmanns stefnanda við aðalræðu stefnda og svo andsvör lögmanns stefnda við andsvörum lögmanns stefnanda. Þannig eiga lögmenn að forðast að endurtaka það sem þeir sögðu í sínum aðalræðum, heldur einungis að svara andstæðingnum.
Stundum varðar mál einungis lögfræðileg atriði og enginn ágreiningur er um málsatvik og þarf þá stundum ekki að taka skýrslur og aðalmeðferð máls er þá einungis málflutningur lögmanna frammi fyrir dómara.
Málið lagt í dóm
Þegar þessu er lokið, stundum án þess að lögmenn telji sig þurfa að veita andsvör, er málið lagt í dóm. Meginreglan er sú að dómari eigi að kveða upp dóm á innan við fjórum vikum. Þeim tímamörkum er oftast fylgt en á því geta verið undantekningar af ýmsum ástæðum.
Dómari er eftir þetta í engu sambandi við lögmenn eða aðila máls. Meginreglan samkvæmt lögum er sú að kveða skal upp dóm innan fjögurra vikna frá því aðalmeðferð er lokið.
Frestur til að áfrýja
Ef annað hvort stefnandi eða stefndi er ósammála dómi héraðsdóms þá er hægt að áfrýja máli til Landsréttar að uppfylltum skilyrðum og er frestur til þess fjórar vikur. Eftir fjórar vikur er dómur héraðsdóms endanlegur, hafi honum ekki verið áfrýjað.
Birting dóms
Meginreglan er sú að allir dómar héraðsdóms skulu birtir á vefsíðu dómstólanna. Talsvert er um undantekningar frá þessari skyldu einkum vegna þess að mál eru viðkvæm og geta varðað mjög persónuleg málefni þeirra sem eiga aðild að þeim.
Dómari tekur mál aftur til dóms
Dómari hefur möguleika á því að taka málið fyrir aftur og kalla eftir skýringum og upplýsingum og tekið svo málið aftur til dóms. Þetta getur þó aldrei breytt grundvelli málsins.
Rekstur máls getur tekið allt frá nokkrum vikum upp í nokkur ár. Það fer allt eftir eðli og umfangi hvers máls um sig.
Meðallengd mála
Meðallengd munnlega fluttra einkamála sem fóru fyrir dómara, úthlutað af reglulegu dómþingi, hjá héraðsdómstólum var:
365 dagar árið 2023
393 dagar árið 2022
Það sem getur lengt málsmeðferðatímann
Ákvörðun héraðsdómara er skotið til Landsréttar og á meðan hvílir málið.
Ágreiningur er um hverjir eigi að gefa skýrslu.
Hlé er gert á málinu meðan beðið er eftir matsgerðum dómkvaddra matsmanna.
Ágreiningur er um hvort dómkvaddir verði matsmenn.
Ágreiningur er vegna matsmála eða annarrar gagnaöflunar.
Beðið er eftir niðurstöðu Landsréttar eða Hæstaréttar í sambærilegu máli sem getur haft áhrif á úrlausn málsins.
Tilraunir eru gerðar til sátta sem taka langan tíma.
Allt þetta, auk annarra aðgerða, geta lengt málsmeðferðatímann fyrir héraðsdómi. Oftast tefjast mál vegna aðgerða sem aðilar málsins sjálfir telja mikilvægar.
Það fylgir alltaf einhver kostnaður því að reka mál fyrir dómi.
Stefnandi þarf að greiða þingfestingargjald.
Báðir aðilar þurfa oft að greiða lögmannskostnað.
Dómkvaddir matsmenn
Ef kalla þarf til dómkvadda matsmenn fellur kostnaður við mat þeirra á þann aðila sem biður um matið, það er, matsbeiðanda. Sá aðili ber kostnaðinn af því fyrst um sinn, en síðan getur það orðið hluti af tildæmdum málskostnaði. Eftir að úrslit máls liggja fyrir getur þessi kostnaður þannig mögulega fallið á hinn aðilann samkvæmt ákvörðun dómara.
Þóknun lögmanna
Almenna reglan er sú að þegar lögmaður mætir til að flytja mál gefur hann út reikning fyrir sína þjónustu. Aðili máls þarf að leggja út fyrir lögmannskostnaði en gagnaðili mun hugsanlega endurgreiða kostnaðinn eða hluta kostnaðar þegar dómur hefur verið kveðinn upp.
Málskostnaður
Meginreglan er sú að þegar aðili vinnur dómsmál að fullu þá ber gagnaðila, hvort sem það er stefnandi, það er sóknaraðili, eða stefndi, það er varnaraðili, að borga málskostnað hans að fullu.
Þótt aðili vinni mál fyrir dómi er ekki öruggt að hann fái allan kostnað sinn vegna reksturs málsins bættan. Stundum er niðurstaðan sú að hvor aðili ber sinn kostnað af málinu. Það er, borgar sínum lögmanni, eða einhver skipting er þar á samkvæmt ákvörðun dómara við úrlausn málsins sjálfs. Þetta verður stundum niðurstaðan ef talið verður að báðir aðila hafi haft eitthvað til síns máls.
Þá er stundum ekki fallist að fullu á reikning lögmanns sem hann leggur fram við aðalmeðferð málsins, þar sem hann þykir órökstuddur eða úr hófi.
Gjafsókn
Gjafsókn er það kallað þegar kostnaður við dómsmál einstaklinga er greiddur úr ríkissjóði. Gjafsókn á bæði við um gjafsókn og gjafvörn og er aðeins veitt einstaklingum en ekki fyrirtækjum eða félögum.
Það að aðili fái gjafsóknarleyfi kemur ekki í veg fyrir að hann verði dæmdur til að greiða gagnaðila málskostnað, tapi hann málinu.
Ástæður fyrir gjafsókn
Helstu ástæður þess að aðilar fá gjafsókn þegar um hefðbundin dómsmál er að ræða er bágur efnahagur.
Aðrar ástæður geta þó grundvallað gjafsókn í máli og stundum verður að veita gjafsókn samkvæmt lögum, eins og til dæmis jafnan í barnaverndarmálum.
Lesa meira:
Þjónustuaðili
Dómstólar