Dómkvaddir matsmenn
Dómkvaddir matsmenn eru kallaðir til vegna sérfræðiþekkingar sinnar. Dómarinn semur spurningar í samráði við málsaðila sem matsmaður á að svara til að varpa ljósi á mál.
Matsmenn eru sérfræðingar á því sviði sem ágreiningur er um og eru skipaðir af dómstólum fyrir tilstilli lögmanna eða dómara.
Mál getur varðað:
Fasteignagalla.
Brot á samkeppnisreglum.
Líkamstjón.
Forsjá.
Fjármál.
Heimilt er að dómkveða matsmann til að framkvæma mat á nánast hverju sem er, að undanskildum lögfræðilegum spurningum.
Skilyrði til að verða dómkvaddur matsmaður
Þau sem eru dómskvaddir matsmenn þurfa að:
vera orðin 20 ára,
vera menntuð á ákveðnu sérsviði, dæmi eru iðnaðarmenn, tæknifræðingar, verkfræðingar, læknar, sálfræðingar, viðskiptafræðingar og endurskoðendur.
vera að öllu leyti óaðfinnanlegt vitni um þau atriði sem á að meta,
hafa nauðsynlega kunnáttu til að leysa starfann af hendi.
Val á matsmanni
Oftast koma aðilar málsins sér saman um matsmann en dómari kveður hann svo til starfa. Ef aðilar komast ekki að samkomulagi sér dómari um valið.
Lögmannafélag Íslands hefur umsjón með lista yfir dómkvadda matsmenn. Listinn er eingöngu sendur til lögmanna og starfsmanna dómstóla.
Matsgerð
Matsmenn þurfa semja rökstudda matsgerð þar sem þau sjónarmið eru greind sem álit þeirra er reist á.
Mikilvægt er að dagsetja matsgerð og undirrita hana.
Ef matsbeiðandi óskar getur dómari ákveðið að matsmaður þurfi ekki að semja skriflega matsgerð heldur þurfi hann að mæta fyrir dóm áður en aðalmeðferð fer fram.
Aðili getur krafist yfirmats þar sem tekin verði til endurmats þau atriði sem hafa áður verið metin. Yfirmatsmenn skulu vera fleiri en matsmenn voru.
Mikilvæg atriði
Mikilvægt er að matsmenn gæti hlutleysis og að þeir greini frá ef þeir uppfylla ekki hæfnisskilyrði einkamálalaga til að vera dómkvaddir.
Matsmenn þurfa að boða skriflega til fundar með þeim aðilum sem matsbeiðni kveður á um.
Vettvangur fundanna þarf að vera ásættanlegur, til dæmis skrifstofa, læknastofa, fasteign, skip og svo framvegis. Matsmaður stýrir matsfundunum og ákveður fjölda funda.
Í sumum tilvikum getur verið leyst úr ýmsum hagnýtum atriðum utan matsfunda, til dæmis með tölvupósti.
Kostnaður
Dómkvaðning matsmanna er dýrt úrræði. Lögmenn þurfa að kynna skjólstæðingum sínum þann kostnað sem öflun matsgerðar hefur í för með sér.
Námskeið
Dómstólasýslan og Lögmannafélag Íslands standa fyrir námskeiði fyrir dómkvadda matsmenn. Námskeiðin eru á hverju hausti og eru auglýst á vef Lögmannafélags Íslands og á vef dómstólanna.
Námskeiðin eru ætluð öllum þeim sem hafa verið matsmenn eða vilja gefa kost á sér sem matsmenn fyrir dómi á sínu sérsviði. Á námskeiðinu fylgir Matbók – Leiðbeiningar fyrir dómkvadda matsmenn sem einnig er hægt að kaupa hjá Lögmannafélaginu.
Í bókinni er farið yfir hlutverk matsmanns, feril matsmáls frá upphafi til enda og hvað matsmenn skuli varast.
Lesa meira
Sjá lög um meðferð einkamála: níunda kafla, grein númer 61.
Þjónustuaðili
Dómstólar