Helstu tegundir mála fyrir héraðsdómi
Skilgreiningar
Aðför er valdbeitingarathöfn*, sem felst í að sá sem á kröfu, samkvæmt heimild sem er talin upp í lögum um aðför, getur snúið sér til sýslumanns og krafist þess að hann þvingi fram að viðkomandi geri það, sem hann vill ekki verða við af fúsum vilja - eða getur ekki orðið við.
Algengustu mál í þessu flokki:
Aðfararbeiðnir til áritunar. Það á við um fullnustu fjárkröfu, sem ekki er unnt að beina beint til sýslumanns samkvæmt ákvæðum laga.
Innsetningar- og útburðargerðir. Það á við um fullnustu kröfu varðandi annað en peningagreiðslu, t.d. útburður úr fasteign eða afhending lausafjár.
Afgreiðsla beiðna um aðför
Ákveðin mál þarf fyrst að senda til héraðsdómstóls áður en kröfuhafi fer til sýslumanns. Þau mál eru talin upp í 1. mg. 11. gr. laganna. Í ákveðnum tilfellum sér aðstoðarmaður dómara um afgreiðslu málsins.
Ef skilyrðum er fullnægt skv. gögnum gerðarbeiðanda**, áritar aðstoðarmaðurinn beiðnina um að aðför megi gera samkvæmt henni.
Ef aðfararbeiðnin er talin ófullnægjandi, þ.e. að það sé ekki heimild fyrir henni eða það séu ekki komin næg gögn til stuðnings beiðninni, ritar hann á beiðnina að aðför nái ekki fram að ganga samkvæmt henni.
Ef þetta er mál sem flokkast undir beina aðfarargerð (í 5. tl. laganna) fer málið til dómara í almennu deild dómstólsins. Sú málsmeðferð er að miklu leyti lík meðferð munnlega fluttra einkamála.
Lög um aðför https://www.althingi.is/lagas/nuna/1989090.html
Skilgreiningar:
*Valdbeitingarathöfn er aðgerð sem hið opinbera grípur til í því skyni að þvinga fram efndir á skyldu manns eða lögpersónu, sem hlutaðeigandi vill ekki verða við af fúsum vilja eða getur ekki orðið við. Valdbeitingarathöfn fer því fram án tillits til vilja þolandans.
** Sá sem krefst aðfarargerðar, bráðabirgðagerðar eða nauðungarsölu.
Mál undir í flokknum opinber skipti flokkast í fjórar tegundir
Skipti á dánarbúi: Þá er dánarbú tekið til opinberra skipta eftir kröfu sýslumanns eða erfingja.
Skipti til fjárslita milli hjóna
Skipti til fjárslita milli sambúðarfólks
Fjárslit milli hjóna og sambúðarfólks, sem á barn saman, eiga von á barni eða hefur búið saman samfleytt í minnsta kosti tvö ár.Skipti til slita á félögum.
Opinber skipti til slita á félagi, þar sem félagsmenn bera ótakmarkaða ábyrgð, fara fram að kröfu félagsmanns.Slík krafa er gerð skriflega og send héraðsdómi.
Dómari getur hafnað kröfunni án frekari aðgerða ef honum sýnist ljóst að það séu ekki skilyrði til að verða við henni.
Annars tekur hann beiðnina fyrir í þinghaldi og boðar aðila félagsins til þess.
Ef kröfunni um skipti er ekki mótmælt, úrskurðar dómari í málinu.
Ef það er fallist á kröfuna með úrskurði, skipar dómari skiptastjóra til að fara með skiptin.
Ef kröfunni er mótmælt þingfestir dómari sérstakt ágreiningsmál. Þá flyst málið í flokk sem heitir ágreiningsmál vegna opinberra skipta (Q-mál).
Einkamál skiptast í tvo flokka.
Einkamál – Þegar stefndi mætir ekki er það kallað “útivist”
Í þennan flokk fara mál þar sem stefndi mætir ekki þegar málið er þingfest fyrir dómi eða mætir ekki þegar málið er tekið fyrir síðar, og hann er ekki búinn að skila greinargerð.
Munnlega flutt einkamál
Stefndi mætir við þingfestingu málsins og skilar síðar greinargerð. Þegar greinargerð hefur verið skilað fer málið til dómstjóra sem úthlutar því til þess dómara sem fer upp frá því með málið.
Aðili sem hefur í hyggju að höfða mál vegna ákvörðunar eða athafnar stjórnvalds eða verkfalls, verkbanns eða annarra aðgerða sem tengjast vinnudeilu, getur óskað eftir því að slíkt mál fari í flýtimeðferð. Þar er farið eftir ákvæðum laga um meðferð einkamála.
Skilyrði fyrir því að mál fari í flýtimeðferð eru að brýn þörf sé á skjótri úrlausn fyrir aðila máls, enda hafi hún almenna þýðingu eða varði stórfellda hagsmuni aðilans.
Sá sem óskar eftir flýtimeðferð þarf að afhenda dómstjóra:
Stefnu
Skriflega beiðni um útgáfu stefnunnar
Málsgögn sem geta stutt beiðnina.
Ef það er fallist á flýtimeðferð þá er málinu strax úthlutað til dómara
Dómari gefur út stefnu
Dómari ákveður hvenær málið verður þingfest
Ef vörnum er haldið upp í málinu, skal aðeins fresta málinu í þann tíma sem þykir brýn nauðsyn ber til.
Að kröfu aðila getur dómari ákveðið að vitni verði kvatt fyrir dóm með skemmri fyrirvara en segir til í lögunum.
Dómur skal síðan kveðinn upp svo fljótt sem verða má eftir dómtöku máls.
Lög um meðferð einkamála https://www.althingi.is/lagas/153c/1991091.html
Skuldari og lánadrottinn geta krafist þess að bú skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta. Skilyrðin koma fram í lögum um gjaldþrotaskipti.
Ef maður hverfur og atvik benda eindregið til þess að hann sé látinn getur héraðsdómari úrskurðað að beiðni aðila, sem hafa lögmætra hagsmuna að gæta, að það sé farið með bú mannsins eins og hann væri látinn.
Gögn um hvarf manns þarf að að leggja fyrir héraðsdómara.
Héraðsdómari gefur út úrskurð um hvort gögnin séu fullnægjandi.
Samkvæmt lögunum er hægt að ákveða með dómi að horfinn maður skuli talinn látinn.
Þá þarf að vera búið að birta opinbera stefnu í Lögbirtingarblaði um að slíkt mál verði höfðað og að öllum skilyrðum sé fullnægt.
Skilyrðin koma fram í lögum um horfna menn nr. 44/1981.
Lög um horfna menn https://www.althingi.is/lagas/nuna/1981044.html
Eftir að fá texta.
Skuldari sem á í verulegum fjárhagsörðugleikum og vill endurskipuleggja fjármál sín, með aðstoð lögmanns eða löggilts endurskoðanda, getur leitað eftir heimild til greiðslustöðvunar.
Greiðslustöðvun er úrræði til að ráða bót á yfirvofandi eða yfirstandandi ógjaldfærni, þ.e. getuleysi skuldara til að standa í skilum með greiðslu skuldbindinga sinna á gjalddaga. Úrræðið felst í að stöðva greiðslur bókstaflega. Um greiðslustöðvun er mælt fyrir um í 2. þætti laga um gjaldþrotaskipti.
Skuldari leggur beiðni um greiðslustöðvun fyrir dómara ásamt greinargerð og öðrum gögnum sem lögin mæla fyrir um og dómari tekur svo afstöðu til þess í úrskurði hvort heimild til greiðslustöðvunar sé veitt.
Lög um gjaldþrotaskipti o.fl.: https://www.althingi.is/lagas/nuna/1991021.html
Í kyrrsetningu felst að lögð eru veðbönd á fjármuni til bráðabirgða þar til aðfararheimild fæst. Löggeymsla er bráðabirgðaúrræði til að tryggja réttindi til peningagreiðslu samkvæmt dómi eða úrskurði, sem hefur verið skotið til æðra dóms.
Lögbann felur í sér að tilteknar athafnir einstaklings, félags eða stofnunar, sem raska eða eru líklegar til að raska lögvörðum rétti manns, eru stöðvaðar. Kröfum um beitingu þessara úrræða er beint til sýslumanns.
Í lögum um kyrrsetningu, lögbann ofl. Er að finna heimildir fyrir gerðarbeiðanda, gerðarþola og þriðja mann til að bera ákvarðanir sýslumanns um kyrrsetningu, löggeymslu og lögbann undir héraðsdóm.
Eftir ákvæðum kaflans verður fyrst og fremst leyst úr atriðum sem varða skilyrði fyrir framkvæmd ofangreindra úrræða eða endurupptöku hennar. Ekki er leyst úr efnisatriðum í slíkum ágreiningsmálum, þ.e. um réttmæti kröfu gerðarbeiðanda í máli heldur er það venjulega fyrst gert í málum þar sem krafist er staðfestingar á kyrrsetningu, löggeymslu eða lögbanni.
Mál sem varða sviptingu lögræðis eða fjárræðis aðila í takmarkaðan tíma eða ótímabundið. Aðili getur jafnframt krafist niðurfellingar úrskurðar um sviptingu lögræðis eða fjárræðis ef hann telur að ástæður sviptingarinnar séu ekki lengur fyrir hendi. Þá falla hér undir mál er varða nauðungarvistanir á sjúkrahúsi.
Mál þar sem þarf að kalla til dómkvadda matsmenn, áður en einkamál (E-mál) er höfðað. Í lögum um meðferð einkamála segir að ef aðilar koma sér saman um hæfan matsmann skuli dómari boða hann til starfsins á dómþingi nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Annars segir dómari aðilum málsins frá því hvern hann ætlar að fá til að taka að sér matstörfin.
Flokkurinn nauðasamningar skiptast í almenna nauðasamninga, nauðasamninga til greiðsluaðlögunar og tímabundin greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna skv. lögum nr. 50/2009
Almennir nauðasamningar. Í lögum um gjaldþrotaskipti ofl. Er fjallað um nauðasamninga án undanfarandi gjaldþrotaskipta. Nauðasamningur er samningur um grieðslu skulda eða eftirgjöf af þeim, sem kemst á á milli skuldara og nauðsynlegs meiri hluta lánardrottna hans og hlýtur síðan staðfestingu fyrir dómi. Fyrst óskar skuldari eftir heimild til að leita heimildar til nauðasamningsumleitana fyrir dómi og tekur dómari afstöðu til beiðninnnar í úrskurði. Ef heimildin er veitt skipar dómari skuldara umsjónarmann með nauðasamningsumleitunum og er hann venjulega lögmaður. Að þeim loknum gerir skuldari kröfu um staðfestingu nauðasamningsins fyrir dómi sem dómari tekur einnig afstöðu til með úrskurði.
Nauðasamningar til greiðsluaðlögunar. Um greiðsluaðlögun einstaklinga gilda lög nr. 101/2010 en markmiðið með þeim er að gera einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum kleift að endurskipuleggja fjármál sín og koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu þannig að raunhæft sé að skuldari geti staðið við skuldbindingar sínar um fyrirsjáanlega framtíð. Umboðsmaður skuldara tekur afstöðu til umsóknar skuldara um greiðsluaðlögun og ef hún er tekin til greina er honum skipaður umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum. Umsjónarmaður leitast við að koma á frjálsum samningi um greiðsluaðlögun á milli skuldara og lánardrottna hans. Ef það tekst ekki getur skuldari leitað nauðasamnings fyrir dómi skv. Lögum nr. 21/1992 svr. 18. og 19. gr. Laga nr. 101/2010, þar sem dómari tekur afstöðu til þess með úrskurði hvort fallist sé á kröfu skuldarans um að nauðasamningur hans til greiðsluaðlögunar verði staðfestur.
Tímabundin greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna skv. lögum nr. 50/2009. Samkvæmt því sem nánar er mælt fyrir um í lögunum getur eigandi íbúðarhúsnæðis, ef hann sýnir fram á að hann sé og verði um einhvern tíma ófær um að standa í fullum skilum á greiðslu skulda sem tryggðar eru með veði í því húsnæði og að önnur tiltæk greiðsluerfiðleikaúrræði séu eða hafi reynst ófullnægjandi, leitað eftir greiðsluaðlögun vegna þeirra og getur hún staðið í allt að fimm ár. Skuldari leitar greiðsluaðlögunar með skriflegri beiðni til héraðsdómstóls sem dómri tekur afstöðu til í úrskurði. Dómari skipar síðan skuldara umsjónarmann með greiðsluaðlögunarumleitunum ef hann fellst á beiðni skuldara.
Í sjóprófum eru rannsökuð slys sem verða um borð í skipum eða skip lenda í utan íslenskrar hafnar. Skv. siglingalögum er tilgangur sjóprófa að leiða í ljós, svo sem framast má verða, orsakir viðkomandi atburðar og aðrar staðreyndir sem máli skipta í því sambandi. Ákvæði XIII. Kafla siglingalaga nr. 34/1985 fjalla um sjópróf.
Ef ágreiningur verður um hvort krafa um opinber skipti skuli tekin til greina skal dómari taka ágreiningsmálið þegar í stað til meðferðar með þingfestingu máls eftir ákvæðum laga um skipti á dánarbúum og fleiri.
Undir þennan flokk falla einnig ágreiningsmál undir skiptum, hvort sem þau koma frá aðilum að skiptunum eða beint frá skiptastjóra, sem oftast er raunin.
Rannsókn sakamála er í höndum lögreglu nema öðruvísi sé mælt fyrir í lögum. Ákvarðanir lögreglu um að hefja eða hætta rannsókn eða að visa frá kæru er hægt að kæra til héraðssaksóknara. Lögreglu og héraðssaksóknara er ekki skylt að rökstyðja ákvarðanir sínar um að visa frá kæru eða hætta rannsókn. Markmið rannsóknar er að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til sakar og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferðar fyrir dómi.
Í lögum um meðferð sakamála er mælt fyrir um lögmætar rannsóknaraðferðir. Lögreglu er heimilt að beita ákveðnum úrræðum án úrskurðar dómara en til beitingu annarra rannsóknarúrræða þarf úrskurð dómara. Það getur átt við hald á munum, leit, líkamsrannsókn, símahlustun og ávallt um gæsluvarðhald. Rannsóknarúrskurði er hægt að kæra til Landsréttar en kæra frestar ekki framkvæmdum í máli.
Sakamál skiptast upp í ákærumál og sektarboð.
Sektarboð koma frá lögreglustjóra eða héraðssaksóknara skv. heimild í 3. mgr. 149. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þeim lýkur án aðkomu sakbornings með áritun eða eftir atvikum með því að áritun er hafnað. Áritað sektarboð hefur sömu réttaráhrif og dómur, þ.e. er fullnustuhæft og er í vissum tilvikum skráð á sakavottorð viðkomandi.
Ákærumál eru mál sem handhafar ríkisvaldsins höfða til refsingar lögum samkvæmt og sæta meðferð samkvæmt lögum um meðferð sakamála. Handhafi ríkisvaldsins í sakamálum er ákæruvaldið. Í sakamálum er hægt að gera kröfu um refsingar og önnur viðurlög. Stundum er dæmt um skaðabótakröfur í sakamálum, hafi þriji maður beðið tjóns af saknæmri háttsemi sem sakborðingur er sakaður um. Ákærði getur óskað eftir að fá verjanda og getur þá valið sjálfur eða óskað eftir því að dómari finni honum verjanda. Með sama hætti og einkamál skipast ákærumál í útivistarmál, þar sem sakborningur mættir ekki og fjarvist hans er metin til jafns við játningu, og munnlega flutt mál þar sem sakborningur neitar sök og fram fer aðalmeðferðar. Þar að auki getur ákærumálum lokið sem játningarmáli, komi ákærði fyrir dóm og játi sök sína skýlaust, fer þá ekki fram eiginlegur málflutningur, en aðilum er gefin kostur á að tjá sig um lagaatriði og viðurlög.
Þinglýsing er opinber skráning skjala sem fer fram samkvæmt lögum þar um. Þinglýsingarstjórar, eða sýslumenn, annast færslur þinglýsingabóka en í framkvæmd fela þeir oft starfsmönnum sínum að annast þinglýsingar á ábyrgð þinglýsingarstjóra. Bera má úrlausn þinglýsingarstjóra um þinglýsingu undir héraðsdómara í lögsagnarumdæmi þinglýsingarstjóra.
Heimild til þess hefur hver sá sem á lögvarðra hagsmuna að gæta vegan ákvörðunar þinglýsingarstjóra og skal bera hana undir dóm áður en fjórar vikur eru liðnar, hafi þinglýsingarbeiðandi eða umboðsmaður hans verið viðstaddur en annars áður en fjórar vikur eru liðnar frá því að þinglýsingarbeiðandi eða umboðsmaður hans fengu vitneskju um ákvörðun þinglýsingarstjóra.
Þegar barnaverndarnefnd fær tilkynningu, t.d. með 112 eða berast upplýsingar með öðrum hætti, um að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska geti verið hætt búin vegna vanhæfis eða framferðis foreldris, áreitni eða ofbeldis af hendi annarra eða eigin hegðunar barns, skal nefndin án tafar, og eigi síðar en innan sjö daga frá því henni barst tilkynning eða upplýsingar, kanna hvort ástæða sé eð taka málið til könnunar.
Tilkynningar berast til barnaverndarnefndar í samræmi við ákvæði barnaverndarlaga um tilkynningarskyldu. Þegar barnaverndarnefnd telur nauðsyn á að gera mjög alvarlegar ráðstafanir í lífi barns, svo sem að svipta foreldra forsjá þess, fer slíkt mál fyrir dómstóla.
Vitnamál eru sérstök mál sem standa utan annarra mála, líkt og M-mál. Vitni geta verið kölluð fyrir dóm fyrir aðila áður en mál eru höfðuð eða eftir að þeim er lokið í héraði.
Gjaldþrotaskipti er sú aðferð sem ber að nota þegar eignum þrotamanns er skipt á milli lánadrottna. Skuldari og lánadrottinn geta krafist þess að bú skuldara verði tekið til gjaldþrotaskipta að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum í lögum um gjaldþrotaskipti ofl. Ef ágreiningur kemur upp í fyrrgreindum málum breytast þau í X-mál.
Hér falla líku undir ágreiningsmál sem upp koma undir skiptum, hvort sem þau berast dóminum frá kröfuhöfum eða skiptastjóra þrotabús.
Um aðfarargerðir gilda lög um aðför en þær flokkast í tvo meginflokka
Aðför til fullnustu kröfu um greiðslu peninga, öðru nafni fjárnám.
Aðför til fullnustu kröfu um annað en greiðslu peninga. Þeim má skipta í fjóra flokka
Útburðargerð
Innsetning
Skuldbinding skv. löggerning
Að framfylgja banni skv. aðfararheimild
Í 14. kafla laganna er meðal annars kveðið á um gerðarbeiðanda er heimilt, meðan aðfarargerð er ólokið, að krefjast úrlausnar héraðsdómara um einstakar ákvarðanir, sem sýslumaður tekur um framkvæmd hennar, ef gerðarbeiðandi hefur þá kröfu uppi við sýslumann áður en lengra er haldið við gerðina. Í 15. kafla er fjallað um úrlausn ágreinings eftir lok aðfarargerðar. Slík mál eru auðkennd sem Y-mál.
Um nauðungarsölu gilda lög nr. 90/1991 en eftir þeim verður eign ráðstafað án tillits til vilja eiganda hennar á uppboði, með sölu á almennum markaði eða með því að innheimta eða leysa andvirði hennar.
Ef ágreiningur kemur upp í málum er varða nauðungarsölu má bera slíka undir dómstóla sbr. 4 þáttur laganna og eru þau mál auðkennd sem Z-mál.
Öll önnur mál falla í þennan flokk, t.d. réttarbeiðnir, kröfur um skipun gerðardóms, beiðnir um öflun sönnunargagna o.fl.