Fara beint í efnið

Einkamál í héraðsdómi - stefndi mætir ekki fyrir dóm

Hefðbundið einkamál í héraðsdómi hefst með því að stefnandi gerir kröfu eða kröfur á hendur stefnda eða stefndu. Ef stefndi vill mótmæla kröfunni eða taka til varna verður viðkomandi að mæta í þingfestingu málsins í héraðsdómi, eða lögmaður fyrir hönd stefnda.

Lesa um einkamál í héraðsdómi

Stefndi mætir ekki - útivistarmál

Ef stefndi mætir ekki þegar málið er þingfest, eða mætir ekki þegar málið er tekið fyrir síðar, og hefur ekki skilað greinargerð verður málið að svokölluðu útivistarmáli.

Ástæður fyrir því að mæta ekki

Ef stefndi vill láta taka málið upp aftur

Endurupptaka útivistarmáls, ekki áfrýjun

Máli sem dæmt hefur verið í eftir útivist stefnda, hvort sem lögð hefur verið fram greinargerð eða ekki, getur stefndi ekki áfrýjað til æðri dóms, nema með gagnáfrýjun ef stefnandi hefur áfrýjað málinu, en stefndi getur óskað eftir endurupptöku málsins í héraði að uppfylltum vissum formskilyrðum.

Stefndi, sem ekki hefur sótt þing eða þingsókn hans fallið niður, getur beiðst endurupptöku máls í vissum tilvikum. Ekki er hægt að beiðast endurupptöku hafi stefnandi áfrýjað málinu til æðri dóms. Ekki er hægt að beiðast endurupptöku nema einu sinni.

Í fyrsta lagi getur stefndi beiðst endurupptöku innan þriggja mánaða frá því að máli lauk í héraði án þess að frekari skilyrði séu uppfyllt, önnur en þau að beiðnin berist héraðsdómi innan mánaðar frá því að stefndi vissi að málinu var lokið.

Í öðru lagi getur stefndi, séu liðnir meira en þrír mánuði, óskað endurupptöku innan árs frá því að máli lauk í héraði að uppfylltum einhverju neðangreindra skilyrða, en beiðnin verður eftir sem áður að berast innan mánaðar frá því að stefndi vissi að málinu var lokið.

Skilyrðin (nægilegt að eitt sé uppfyllt): a. að stefna hafi hvorki verið birt stefnda né öðrum sem mátti birta fyrir, b. að átt hefði að vísa kröfum á hendur honum sjálfkrafa frá dómi að einhverju leyti eða öllu, c. að átt hefði að sýkna hann án kröfu að einhverju leyti eða öllu, d. að stefnandi sé samþykkur endurupptöku.

Í þriðja lagi getur stefndi, ef liðið er meira en ár frá því að málinu lauk í héraði, leitað til Endurupptökudóms varðandi endurupptöku máls síns.

Þegar beiðst er endurupptöku verður stefndi að setja tryggingu fyrir greiðslu þess málskostnaðar sem lagður var á hann í dómi eða áritaðri stefnu, nema hann sanni að hann hafi þegar greitt málskostnaðinn eða stefnandi samþykki að það sé óþarft.

Ef beiðni um endurupptöku er ófullnægjandi, berst röngum dómstól eða dómari telur sýnt að skilyrðum sé ekki fullnægt synjar hann þegar í stað um endurupptöku. Hægt er að krefjast úrskurðar um slíka synjun. Ef beiðnin er í lagi boðar dómari báða aðila fyrir dóm þar sem beiðnin verður tekin fyrir.

Mæti stefndi ekki í það þinghald telst beiðnin fallin niður. Getur farið svo að honum verði gert að greiða stefnanda ómaksþóknun** sé þess krafist. Ef stefnandi sækir ekki þing verður málið endurupptekið. Ef báðir aðilar mæta og stefnandi mótmælir endurupptöku er málið flutt munnlega um endurupptökuna og kveðinn upp úrskurður um hana.

Endurupptaka máls hindrar ekki aðför á grundvelli dóms eða áritunar stefnu nema stefndi krefjist þess að dómari kveði upp úrskurð um að réttaráhrif dóms eða áritunar falli niður þar til málinu lýkur á ný og fallist sé á þá kröfu. Þegar mál hefur verið endurupptekið heldur rekstur þess áfram frá því stigi sem útivist varð af hálfu stefnda. Eftir endurupptöku verður mál ekki fellt niður þótt stefnandi sæki ekki þing en stefndi getur fallið frá endurupptöku og þá stendur upphaflegur dómur eða áritun óhögguð. Annars á stefndi þess kost að færa fram varnir og verður málið síðan dæmt á ný líkt og stefndi hefði tekið til varna í upphafi.

Ef stefndi sækir ekki þing eftir endurupptöku er málið dómtekið og dæmt á grundvelli gagna aðila sem liggja frammi.

Ef hvorugur aðila sækir þing eftir endurupptöku stendur upphafleg úrlausn óhögguð.

Ef kveða þarf upp nýjan dóm í máli eftir endurupptöku fellur fyrri úrlausn sjálfkrafa úr gildi.

Í XXIII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er kveðið á um endurupptöku útivistarmáls í héraði.

Formskilyrði beiðni um endurupptöku

Beiðni um endurupptöku skal beint til þess dómstóls þar sem málinu lauk. Í henni skal greina skýrlega frá því:

  • hverra breytinga stefndi krefjist á fyrri málsúrslitum,

  • á hvaða málsástæðum, réttarheimildum og sönnunargögnum sé byggt,

  • hvenær og hvernig stefnda varð kunnugt um málsúrslit

  • ef liðnir eru meira en þrír mánuðir frá því að máli lauk þarf að rökstyðja að einhverju áðurgreindu skilyrði sé fullnægt,

  • þá skulu gögn, sem stefndi byggir mál sitt á, fylgja beiðni.

Þjónustuaðili

Héraðs­dóm­stólar

Héraðsdómstólar

Héraðs­dómur Reykja­víkur

Dómhúsið við Lækjartorg, 101 Reykjavík

Sími: 432 5100

Héraðs­dómur Vest­ur­lands

Bjarnarbraut 8, 310 Borgarnes

Sími: 432 5030

Héraðs­dómur Vest­fjarða

Hafnarstræti 9, 400 Ísafjörður

Sími: 432 5040

Héraðs­dómur Norð­ur­lands Vestra

Skagfirðingabraut 21, 550 Sauðárkrókur

Sími: 455 6444

Héraðs­dómur Norð­ur­lands Eystra

Hafnarstræti 107, 600 Akureyri

Sími: 432 5060

Héraðs­dómur Aust­ur­lands

Lyngási 15, 700 Egilsstaðir

Sími: 432 5070

Héraðs­dómur Suður­lands

Austurvegi 4, 800 Selfoss

Sími: 432 5080

Héraðs­dómur Reykja­ness

Fjarðargötu 9, 220 Hafnarfirði

Sími: 432 5100