Dvalarréttur aðstandenda EES/EFTA-borgara
Fylgigögn
Með umsókn um dvalarskírteini fyrir aðstandanda skulu lögð fram þau gögn sem talin eru upp hér að neðan. Ef fullnægjandi gögn berast ekki, getur það leitt til þess að afgreiðsla umsóknar tefjist eða að umsókninni verði synjað.
Ljósrit þarf að vera af persónusíðu og síðu með undirskrift umsækjanda.
Leggja þarf fram vottorð til staðfestingar á þeim fjölskyldutengslum sem eru grundvöllur umsóknar.
Hjúskaparmaki
Hjúskaparvottorð.
Sambúðarmaki
Hjúskaparstöðuvottorð fyrir umsækjanda og EES/EFTA-borgarann.
Gögn sem staðfesta sambúð.
Börn og foreldrar (afkomendur og ættingjar)
Fæðingarvottorð.
Til staðfestingar á forsjá
Forsjárgögn, skilnaðargögn eða dánarvottorð.
Vottorð þarf annaðhvort að leggja fram í lögformlega staðfestu frumriti eða sem staðfest afrit af lögformlega staðfestu frumriti, sjá kröfur til skjala neðst á síðunni.
Ef vottorðið er á öðru tungumáli en ensku eða Norðurlandamáli þarf einnig að leggja fram þýðingu þess, sjá kröfur til skjalaþýðinga neðst á síðunni.
Ef sótt er um fyrir
afkomendur, sem eru eldri en 21 árs og á framfæri EES/EFTA-borgarans, eða
ættingja í beinan legg af eldri kynslóð, sem eru á framfæri EES/EFTA-borgarans,
þarf að leggja fram
Gögn til staðfestingar á að EES/EFTA-borgarinn geti framfleytt afkomanda / ættingja sínum eða maka síns, til dæmis ráðningarsamning eða launaseðla.
Gögn sem staðfesta að afkomandinn/ættinginn sé búinn að vera á framfæri EES/EFTA-borgarans til þessa.
Framfærsla getur stuðst við fleiri en einn þátt, til dæmis bæði launatekjur og eigið fé eins og bankareikninga.
Ráðningarsamningur eða tekjur af sjálfstæðri atvinnustarfsemi
Ef umsækjandi stundar atvinnu á Íslandi getur hann sýnt fram á trygga framfærslu með því að leggja fram ráðningarsamning í frumriti. Ef umsækjandi er á framfæri annars einstaklings getur hann lagt fram ráðningarsamning viðkomandi. Það athugist að heimild erlends ríkisborgara til að framfleyta öðrum á grundvelli sjálfstæðrar atvinnustarfsemi er takmörkuð. Samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002 getur eingöngu útlendingur sem er undanþeginn kröfu um atvinnuleyfi stundað sjálfstæða atvinnustarfsemi sem og maki íslensks ríkisborgara.
Launaseðlar síðustu þriggja mánaða og staðgreiðsluyfirlit launa
Umsækjandi getur sýnt fram á launatekjur með því að leggja fram staðgreiðsluyfirlit eða útgefna reikninga stimplaða af skattyfirvöldum auk launaseðla síðustu þriggja mánaða. Launaseðlar, útprentun úr heimabanka er fullnægjandi ella þarf staðfestingu launagreiðanda. Ef umsækjandi er á framfæri annars einstaklings þarf sá aðili að leggja fram launaseðla síðustu þriggja mánaða sem fullnægja sömu skilyrðum og hér hafa verið talin upp sem og staðgreiðsluyfirlit þess einstaklings.
Tryggar reglulegar greiðslur til framfærslu
Slíkar greiðslur geta verið greiðslur frá Tryggingastofnun vegna örorku, atvinnuleysisbætur, leigutekjur og styrkir sem umsækjandi fær til dæmis vegna rannsókna. Ekki er um tæmandi upptalningu að ræða á þeim greiðslum sem hér geta átt við.
Nægilegt eigið fé til framfærslu
Bankayfirlit sem sýnir fjárhæð inneignar á bankareikningi umsækjanda, hérlendis eða erlendis. Fjárhæðin þarfa að vera í gjaldmiðli sem er alþjóðlega viðurkenndur og hægt að skipta í mynt sem er skráð hjá Seðlabanka Íslands og hægt er að taka út og nýta til framfærslu. Yfirlitið þarf að vera staðfest af bankanum sjálfum og í frumriti. Útprentun reikningsyfirlits úr heimabanka er ekki fullnægjandi staðfesting. Upplýsingar um skráningu gjaldmiðla er að finna hjá Seðlabanka Íslands. Ef umsækjandi er á framfæri annars einstaklings er heimilt að leggja fram bankayfirlit þess einstaklings
Námsstyrkur eða námslán
Hafi umsækjandi fengið styrk til náms eða námslán teljast þær greiðslur til tryggrar framfærslu nái þær þeirri lágmarksupphæð sem krafist er. Námslán eða námsstyrkur þarf að vera í gjaldmiðli sem er alþjóðlega viðurkenndur og hægt að skipta í mynt sem er skráð hjá Seðlabanka Íslands. Leggja þarf fram staðfestingu á lánagreiðslum frá viðeigandi lánastofnun og staðfestingu á styrk frá styrkveitanda eftir því sem við á.
Kröfur til skjala
Útskýringar á kröfum sem gerðar eru til skjala sem skila þarf inn með umsókn.
Frumrit er aðaleintak skjals, það er fyrsta rit og ekki afrit.
Gerð er krafa um að frumrit erlendra skjala sem lögð eru fram með umsókn séu lögformlega staðfest. Frumrit íslenskra skjala þurfa ekki að vera staðfest.
Tvær viðurkenndar leiðir eru til þess að lögformlega staðfesta skjöl: apostille vottun og keðjustimplun. Hvor leiðin er farin ræðst af útgáfulandi skjals.
Apostille vottun
Apostille vottun er gerð í útgáfulandi vottorðs.
Til að fá apostille vottun þarf umsækjandi að fara með frumrit skjals til þess stjórnvalds sem veitir slíka vottun í útgáfulandi skjalsins áður en hann leggur inn umsókn.
Upplýsingar um hvaða lönd eru aðilar að Apostille samningnum.
Keðjustimplun
Keðjustimplun (einnig kallað tvöföld staðfesting) er notuð í löndum þar sem ekki er hægt að fá apostille vottun.
Það þýðir að vottorð þarf tvo stimpla til að geta talist lögformlega staðfest, annan frá útgáfulandi skjalsins og hinn frá sendiskrifstofu Íslands gagnvart útgáfulandinu.
Til að fá slíka stimplun þarf fyrst að senda frumskjalið til utanríkisráðuneytis þess lands sem gaf út skjalið. Viðkomandi ráðuneyti staðfestir skjalið og sendir það áfram til sendiráðs Íslands gagnvart útgáfulandinu eða umsækjandi sér sjálfur um að koma skjalinu til sendiráðsins. Sendiráð Íslands gagnvart útgáfulandinu staðfestir að lokum að fyrri stimpillinn sé réttur.
Upplýsingar um sendiskrifstofur Íslands
Með staðfestu afriti er átt við að afrit sé tekið af frumriti skjals og það staðfest af stjórnvaldi sem hefur heimild til að staðfesta skjöl.
Opinbert stjórnvald í útgáfulandi (útgáfuaðili eða annar opinber aðili) getur tekið staðfest afrit af skjölum.
Mikilvægt er að frumrit skjals hafi fengið lögformlega staðfestingu áður en tekið er af því staðfest afrit.
Ef erlent skjal er gefið út á öðru tungumáli en ensku eða Norðurlandamáli, þarf einnig að leggja fram þýðingu þess.
Þýðing þarf að vera í frumriti eða staðfestu afriti.
Þýðing þarf að vera gerð af löggiltum skjalaþýðanda.
Þýðing má vera á íslensku, ensku eða Norðulandamáli.
Ef þýðing er unnin af skjalaþýðanda sem ekki hefur fengið löggildingu á Íslandi þarf frumrit þýðingarinnar að vera lögformlega staðfest.
Listi yfir löggilta skjalaþýðendur
Félag löggiltra dómtúlka og skjalaþýðenda
Í sumum tilvikum þarf umsækjandi að leggja fram vottaða yfirlýsingu. Gerð er krafa um að yfirlýsingar séu lagðar fram í frumriti og séu dagsettar og undirritaðar af þeim aðila sem gefur yfirlýsinguna. Þá þarf yfirlýsingin að vera vottuð af opinberum aðila, til dæmis af lögbókanda (notarius publicus).
Þjónustuaðili
Útlendingastofnun