Allir umsækjendur um dvalarleyfi þurfa
að geta sannað á sér deili með vegabréfi, sem er gilt í 90 daga umfram gildistíma dvalarleyfis sem sótt er um,
að gefa réttar upplýsingar um tilgang dvalarinnar á Íslandi
að uppfylla eftirfarandi grunnskilyrði
Umsækjandi verður að sýna fram á að framfærsla hans sé trygg þann tíma sem hann sækir um að dveljast hér á landi. Trygg framfærsla þýðir að hafa næg fjárráð til að geta séð fyrir sér sjálfur.
Útlendingastofnun er heimilt að afla skattframtala og gagna frá skattayfirvöldum til staðfestingar á tryggri framfærslu.
Upphæð
Útlendingastofnun miðar við að mánaðarleg fjárráð umsækjenda séu að lágmarki:
239.895 krónur fyrir einstaklinga.
383.832 krónur fyrir hjón.
119.948 krónur til viðbótar vegna fjölskyldumeðlims 18 og eldri.
Viðmiðin samsvara grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar Reykjavíkurborgar, sjá reglur um fjárhagsaðstoð. Upphæðir miðast við tekjur fyrir skatt.
Tímabil
Framfærsla útlendings þarf að vera trygg á gildistíma dvalarleyfis. Það þýðir að verði dvalarleyfi gefið út til eins árs þarf að sýna fram á trygga framfærslu fyrir eitt ár.
Undanþágur frá skilyrðinu um sjálfstæða framfærslu
Allir umsækjendur um dvalarleyfi þurfa að sýna fram á sjálfstæða framfærslu, nema í eftirfarandi undantekningartilvikum:
Fyrir barn, yngra en 18 ára, sem er á framfæri foreldris eða forsjáraðila sem búsettur er hérlendis, þarf ekki að sýna fram á sjálfstæða framfærslu.
Fyrir einstakling eldri en 18 ára,
sem hefur haft samfellt dvalarleyfi hér á landi frá því hann var barn,
stundar nám eða störf hér á landi,
býr hjá foreldri og
er hvorki í hjúskap né sambúð
er framfærsluviðmið 50% af lágmarksframfærslu einstaklings, það er 119.948 krónur á mánuði. Til viðbótar við þá framfærslu sem foreldri eða forsjáraðili þarf að sýna fram á fyrir sjálfan sig og aðra fjölskyldumeðlimi.
Umsækjandi þarf að sýna fram á sjálfstæða framfærslu ef hann stundar vinnu og er ekki í námi. Umsækjanda sem er í námi er heimilt að vera á framfæri foreldris.
Hjúskaparmaki þarf ekki að sýna fram á sjálfstæða framfærslu. Vegna framfærsluskyldu á milli hjóna samkvæmt hjúskaparlögum er nægjanlegt að annar aðili í hjúskap sýni fram á næga framfærslu fyrir báða.
Athugið að sambúð er ekki jafngild hjúskap að þessu leyti. Ekki er framfærsluskylda á milli sambúðarfólks og þarf umsækjandi því að sýna fram á sjálfstæða framfærslu sé hann í sambúð.
Foreldri 67 ára eða eldra sem er á framfæri barns eða barna sinna hér á landi þarf ekki að sýna fram á fulla sjálfstæða framfærslu. Fyrir það er framfærsluviðmið 50% af lágmarksframfærslu einstaklings, það er 119.948 krónur á mánuði, til viðbótar við framfærslu annara fullorðinna einstaklinga á heimilinu.
Vistfjölskylda þarf að sýna fram á framfærslu fyrir au pair. Viðbótarframfærsla miðast við 50% af lágmarksframfærslu einstaklings, það er 119.948 krónur auk launakostnaðar au-pair að upphæð 60.000 kr. fyrir hverjar fjórar vikur í starfi.
Hvað telst ekki trygg framfærsla
Greiðslur í formi félagslegrar aðstoðar ríkis eða sveitarfélags (aðrar en húsnæðisbætur). Hafi umsækjandi þegið slíkan styrk og getur ekki sýnt fram á fullnægjandi framfærslu með öðrum hætti, verður dvalarleyfi synjað.
Meðlagsgreiðslur og barnalífeyrir þar sem þeim er ætlað að standa undir framfærslu barns.
Framfærsla þriðja aðila, í öðrum tilvikum en fram kemur framar í þessari umfjöllun
Eignir aðrar en bankainnstæður (til dæmis fasteignir) og arður af fyrirtækjum, vextir eða aðrar greiðslur sem ekki er tryggt hvort eða hvenær eru lausar til útborgunar
Reiðufé telst ekki fullnægjandi staðfesting á framfærslu.
Leggja þarf fram staðfestingu á því að umsækjandi hafi keypt sjúkratryggingu
sem gildir á Íslandi,
í minnst sex mánuði frá skráningu lögheimilis umsækjanda á Íslandi,
að lágmarksupphæð 2.000.000 kr.
Sex mánuðum eftir skráningu lögheimilis á Íslandi verður dvalarleyfishafi sjálfkrafa sjúkratryggður á Íslandi.
Þegar sótt er um dvalarleyfi mega ekki liggja fyrir atvik sem valdið geta því að umsækjanda verði meinuð landganga eða dvöl hér á landi.
Þetta þýðir að þú mátt ekki
hafa á síðustu fimm árum afplánað refsingu erlendis eða verið dæmdur þar til refsingar fyrir háttsemi sem að íslenskum lögum getur varðað fangelsi lengur en þrjá mánuði
hafa verið dæmdur hér á landi til refsingar eða til að sæta öryggisráðstöfunum fyrir háttsemi sem getur varðað fangelsi lengur en þrjá mánuði eða oftar en einu sinni verið dæmdur til fangelsisrefsingar á síðustu þremur árum
Sérstök skilyrði fyrir umsækjendur um dvalarleyfi fyrir maka
Þú varst 18 ára eða eldri þegar þú gekkst í hjónaband eða hófst sambúð.
Þú ert í hjúskap eða sambúð með einstaklingi sem er búsettur á Íslandi og uppfyllir skilyrðin hér að neðan.
Ef þú ert í sambúð er skilyrði að þú hafir búið með maka þínum í að minnsta kosti eitt ár áður en þú sækir um.
Þú munt hafa fasta búsetu á sama stað og maki þinn.
Hjúskapurinn uppfyllir skilyrði til skráningar samkvæmt lögheimilislögum.
Það má ekki brjóta í bága við forsendur dvalarleyfis maka þíns hér á landi að veita þér dvalarleyfi.
Skilyrði sem maki þinn þarf að uppfylla
íslenskur ríkisborgari,
handhafi ótímabundins dvalarleyfis eða
handhafi tímabundins dvalarleyfis
vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar,
fyrir íþróttamenn,
vegna skorts á starfsfólki,
fyrir sérhæfða starfsmenn á grundvelli samstarfs- eða þjónustusamnings,
vegna náms,
á grundvelli alþjóðlegrar verndar*,
á grundvelli viðbótarverndar*,
á grundvelli mannúðarsjónarmiða* eða
vegna sérstakra tengsla við landið*
*Ef maki þinn er með dvalarleyfi hér á landi á grundvelli alþjóðlegrar verndar, viðbótarverndar, mannúðarsjónarmiða eða sérstakra tengsla við landið, þarf viðkomandi að hafa starfað eða stundað nám á Íslandi í löglegri dvöl síðustu fjögur ár fyrir framlagningu umsóknar þinnar.
Undanþága frá þessu getur átt við ef maki þinn er með dvalarleyfi á grundvelli alþjóðlegrar verndar eða sérstakra tengsla við landið og þið voruð gift áður en maki búsettur á Íslandi fluttist hingað, þið voruð bæði með dvalarleyfi þegar þið giftust eða þið eigið von á barni saman. Aðrar sérstakar ástæður gætu einnig átt við.
Maki þinn má ekki hafa hlotið dóm eða verið látinn sæta öryggisráðstöfunum á síðustu fimm árum fyrir eftirtalin brot gegn almennum hegningarlögum: sifskaparbrot (XXI. kafli), kynferðisbrot (XXII. kafli), manndráp eða líkamsmeiðingar (XXIII. kafli), brot gegn frjálsræði manna (XXIV. kafli), brot gegn nálgunarbanni eða brottvísun af heimili (232. grein), hótanir (232. grein a) eða móðgun eða smánun (233. grein b).
Maki þinn má aldrei hafa hlotið dóm eða verið látinn sæta öryggisráðstöfunum fyrir að hafa svipt fyrri maka sinn lífi (211. grein).
Ef synjun dvalarleyfis vegna dóms eða öryggisráðstafana af ofantöldum ástæðum felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart þér eða maka þínum, er heimilt að veita þér dvalarleyfi.
Maki þinn þarf að vera samþykkur því að þú fáir útgefið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldutengsla ykkar.
Synjunarástæður
Útlendingastofnun er heimilt að synja umsókn um dvalarleyfi fyrir maka ef rökstuddur er grunur um að til hjúskapar eða sambúðar hafi verið stofnað í öðrum tilgangi en til samvistar, til dæmis til að afla dvalarleyfis. Er slíkt nefnt málamyndahjúskapur eða -sambúð.
Liggi fyrir rökstuddur grunur um málamyndahjúskap eða -sambúð þarf umsækjandi að sýna fram á með óyggjandi hætti að sá grunur sé ekki á rökum reistur. Málamyndahjúskapur eða -sambúð veitir ekki rétt til dvalarleyfis og er refsiverð. Í því skyni að rannsaka hvort hjúskapur eða sambúð sé hugsanlega til málamynda getur Útlendingastofnun lagt fyrir umsækjanda og maka að koma í viðtal hjá stofnuninni. Synjun um dvalarleyfi á grundvelli málamyndahjúskapar eða -sambúðar er matskennd ákvörðun og gætir Útlendingastofnun sérstaklega að því að fullnægjandi rannsókn fari fram á málsatvikum og að allar nauðsynlegar upplýsingar liggi fyrir áður en ákvörðun er tekin í málinu.
Ástæða þess að hjúskapur eða sambúð til málamynda getur ekki verið grundvöllur dvalarleyfis er meðal annars að vernda þá sem hætt er við þrýstingi eða misnotkun af einhverju tagi.
Brjóti stofnun hjúskapar gegn ákvæðum íslenskra laga og allsherjarreglu leiðir það til synjunar dvalarleyfis. Þetta á til dæmis við um hjónavígslu ef hjón eða annað hjóna voru börn við giftingu, eða þegar annað eða hvorugt hjóna var viðstatt athöfnina (svokallaðar fulltrúagiftingar). Hið sama gildir um hjónavígslu ef vígslumaður hafði ekki réttindi til athafnarinnar í því landi þar sem vígslan fór fram sem og þegar stofnað er til fjölkvænis eða fjölveris.
Með broti á allsherjarreglu eða meginreglum laga, í alþjóðlegum einkaréttarlegum skilningi, er átt við gerning sem stofnað er til í einu landi en talinn er stríða svo gegn réttarreglum annars lands þar sem beita á honum að rétt þykir að virða hann að vettugi.
Ákvæðinu er meðal annars ætlað að koma í veg fyrir svokölluð nauðungarhjónabönd.
Þjónustuaðili
Útlendingastofnun