Að búa heima með stuðningi
Eldra fólki er gert kleift að lifa eðlilegu heimilislífi eins lengi og kostur er með heimaþjónustu sem mætir fólki á þeim stað sem það er í lífinu.
Ríki og sveitarfélög bera ábyrgð á opinberri þjónustu fyrir eldra fólk, annars vegar heilbrigðisþjónustu sem ríkið ber ábyrgð á og hins vegar félagsþjónustu sem er á ábyrgð sveitarfélaga.
Mikilvægt er að kynna sér vel þá þjónustu og aðstoð sem býðst í heimahús til að stuðla að því og auka möguleika allra á að búa lengur heima.
Að búa heima með stuðningi
Heimaþjónusta skiptist í heimastuðning og stuðningsþjónustu (áður kölluð félagsþjónusta) og heimahjúkrun. Samþætt heimaþjónusta er það kallað þegar þessi þjónusta er rekin af einum og sama aðila.
Fjarþjónusta er vaxandi hluti heimaþjónustu og stuðlar að aukinni fjölbreytni eins og með skjáheimsóknum.
Heimastuðningur
Markmiðið með heimastuðningi er að veita þeim sem þurfa aðstoð við daglegar athafnir. Þjónustan getur verið tímabundin eða til lengri tíma eftir aðstæðum. Hún er veitt sem dag-, kvöld- eða helgarþjónusta.
Þjónustan felst meðal annars í sér:
Stuðningi við athafnir dagslegs lífs
Stuðningi við heimilishald
Félagslegum stuðningi
Heimsendum mat fyrir þá sem ekki geta séð um matseld sjálfir
Óski einstaklingur eftir heimastuðningi snýr hann sér til velferðar eða félagsþjónustu síns sveitarfélags.
Gjald fyrir heimastuðning fer eftir gjaldskrá hvers sveitarfélags.
Heimahjúkrun er er ætluð þeim sem búa heima og þurfa reglulega heilbrigðisþjónustu til dæmis vegna sjúkdóma eða í kjölfar veikinda og slysa.
Þjónusta heimahjúkrunar er án endurgjalds og felur í sér:
Almenna aðhlynningu og eftirlit með andlegu og líkamlegu heilsufari
Lyfjagjöf
Sáraumbúðaskiptum
Hafa þarf samband við heilsugæslustöð til að fá mat á þörf fyrir heimahjúkrun og eða heimaendurhæfingu.
Þörf getur verið á aðstoð við að endurheimta og viðhalda virkni, heilsu og lífsgæðum.
Endurhæfing í heimahúsi er fyrir fólk sem hefur sótt um heimastuðning, stuðningsþjónustu eða heimahjúkrun og talið er að endurhæfing sé líkleg til árangurs.
Boðið er upp á endurhæfingu í heimahúsi á nokkrum stöðum, m.a. á höfuðborgarsvæðinu og Árborg.
Í undirbúningi er hjá fleiri sveitarfélögum að veita þessa þjónustu.
Eldra fólk er hvatt til að nýta sér heitan mat á næstu félagsmiðstöð.
Heimsendur matur stendur eldra fólki til boða hjá mörgum sveitarfélögum. Sótt er um heimsendan mat hjá viðkomandi sveitarfélagi.
Flestir telja akstur á eigin bíl til almennra lífsgæða. Aksturshæfni getur tapast með hækkandi aldri og því gott að vera undirbúin.
Á Heilsuveru eru gagnlegar upplýsingar um akstur á efri árum
Endurnýjun ökuskírteina fyrir 65 ára og eldri
Almenn ökuréttindi þarf að endurnýja við 70 ára aldur. Sækja um endurnýjun ökuskírteinis.
P-merki, stæðiskort fyrir hreyfihamlaða
Eldra fólk getur átt rétt á stæðiskorti (P-merki) fyrir hreyfihamlaða til að leggja í sérmerkt bílastæði (P-stæði). Þau eru við þá staði sem fólk sækir þjónustu eins og opinberar stofnanir og verslanir.
Akstursþjónusta
Þeir sem ekki geta ekið eigin bíl eru hvattir til að nota almenningssamgöngur. Eldra fólk fær 50% afslátt af fargjöldum. Þegar viðkomandi getur ekki nýtt strætó, þá bjóða sum sveitarfélög upp á niðurgreidda akstursþjónustu.
Rétt er að vekja athygli á því að kostnaður við að eiga og reka lítinn, lítið ekinn bíl í eitt ár er nálægt tveimur milljónum króna á ári samkvæmt upplýsingum frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda. Fyrir sömu fjárhæð er hægt að fara mjög margar ferðir með akstursþjónustu sveitafélaga.
Sótt er um akstursþjónustu hjá viðkomandi sveitarfélagi.
Ýmis hjálpartæki eru til sem aðstoða fólk við athafnir daglegs lífs, svo sem göngugrind, bað- og salernishjálpartæki og ýmis konar smáhjálpartæki. Úrval hjálpartækja er mikið og vert að skoða úrvalið hjá mismunandi söluaðilum (gagnlegir tenglar) ef þörf er á. Sjúkratryggingar taka þátt í kostnaði hjálpartækja sem falla undir reglugerð um styrki vegna hjálpartækja.
Hjálpartæki sem Sjúkratryggingar taka þátt í kostnaði við er ætlað að:
auðvelda notendum að takast á við athafnir daglegs lífs
auka sjálfsbjargargetu og öryggi
vera til lengri notkunar en þriggja mánaða
vera til þjálfunar og meðferðar í skilgreindum tilvikum
Sjúkratryggingar flokka hjálpartæki í eftirfarandi flokka:
Stoð- og meðferðarhjálpartæki
Stoð- og meðferðarhjálpartæki eru: bæklunarskór og innlegg, gervilimir og aðrir gervihlutir, spelkur, þrýstisokkar og þrýstibúnaður og öndunarhjálpartæki og súrefni. Heilbrigðisstarfsmaður þarf að sækja um styrk til kaupa á stoð- og meðferðarhjálpartækjum. Nánar um styrki vegna stoð- og meðferðarhjálpartækja.
Tæknileg hjálpartæki
Tæknileg hjálpartæki eru margvísleg, svo sem hjólastólar, göngugrindur, öryggiskallkerfi, hjálpartæki í bifreið, ýmis hjálpartæki við böðun og salernisferðir, svo sem skolsetur eða skol- og þurrkbúnaður, stuðningsbúnaður ýmiskonar, dyraopnari, skábrautir, loftlyftukerfi, tjáskipta- og umhverfisstjórnunarbúnaður og fleira. Heilbrigðisstarfsmaður þarf að sækja um styrk til kaupa á tæknilegu hjálpartæki. Nánar um styrki til kaupa á tæknilegum hjálpartækjum.
Einnota hjálpartæki
Einnota hjálpartæki eru: Bleiur, hlífðarhanskar, hjálpartæki vegna sykursýki, stómahjálpartæki og þvagleggir og þvagpokar. Heilbrigðisstarfsmaður þarf að sækja um styrk til kaupa á einnota hjálpartækjum. Nánar um styrki til kaupa á einnota hjálpartækjum.
Heyrnartæki
Sjúkratryggingar veita styrk til heyrnartækjakaupa. Nánar um greiðsluþátttöku vegna heyrnartækjakaupa.
Næringu og sérfæði
Sjúkratryggingar niðurgreiða lífsnauðsynleg næringarefni og sérfæði og þegar um langvarandi þörf er að ræða. Heilbrigðisstarfsmaður sækir um styrk til kaupa á næringu og sérfæði. Nánar um styrki til kaupa á næringu og sérfæði.
Gagnlegir tenglar
Velferðartækni – Öryggismiðstöðin
Velferðartækni fleygir fram og getur bætt lífsgæði fólks. Hún stuðlar að sjálfstæði, öryggi og andlegri og líkamlegri færni eldra fólks.
Ýmsar einfaldar tæknilausnir eru til staðar nú þegar og má þar nefna ryksuguvélmenni, skolsetur og rafskutlur.
Velferðartækni er einnig notuð í þjónustu við fólk t.d. skjáheimsóknir og lyfjaskammtarar.
Hér eru nokkrar tenglar sem gefa hugmyndir um hvað er í boði en er ekki tæmandi listi.
Mikilvægt er að eldra fólk hugi að öryggi sínu. Öryggi í þeim skilningi snýst meðal annars um að gera heimilið hættuminna.
Mottur þarf stundum að fjarlægja þar sem þær geta valdið falli. Oft dugar að setja límborða undir þær til að koma í veg fyrir að þær renni.
Spam helluborð. Ýmsar hættur leynast á heimilum, sérstaklega hjá þeim sem eru farnir að tapa færni. Mælt er með spam helluborðum sem slökkva á sér sjálf ef það gleymist eða ef pottur er tekinn af hellunni án þess að slökkva.
Huga þarf að lýsingu þegar sjónin daprast.
Handrið og stuðningsstangir gæti þurft að setja upp í sturtum eða við rúm.
Til að minnka hættu á slysum hjá eldra fólki hafa Landsamband eldri borgara, slysafélagið Landsbjörg og öryggisakademían hafa gefið út bækling um Örugg efri ár og hvar og hvernig megi koma í veg fyrir slys hjá eldra fólki.
Öryggishnappar eru mikilvæg hjálpartæki þegar heilsufar versnar. Sjúkratryggingar Ísland niðurgreiða hnappa frá helstu söluaðilum. Margir skynja auk annars, þegar notandi dettur og senda þá frá sér boð.
Ofbeldi
Ofbeldi: Ofbeldi á aldrei að líðast. Oft getur staðan verið viðkvæm, ekki síst hjá eldra fólki sem búið hefur saman lengi. Hér er umfjöllun fyrir þá sem hafa áhyggjur af vini í slíkri stöðu.
Sérstaklega er fjallað um ofbeldi gegn eldra fólki á vef Neyðarlínunar en þar er að finna skilgreiningar á hinum ýmsu birtingarmyndum ofbeldis gegn þessu hópi. Á síðunni er einnig hægt að komast í beint netspjall við þjónustuaðila ef grunur leikur á að einhver sé beittur ofbeldi.