Fara beint í efnið

Að selja opinberum aðilum nýsköpun

Sprotar og önnur nýskapandi fyrirtæki geta selt opinberum aðilum nýsköpun í formi nýrra lausna, þróunar og rannsókna. Fyrirtæki geta farið þrjár leiðir til að selja opinberum aðilum nýsköpun:

  1. Með þátttöku í útboði og öðrum innkaupaferlum

  2. Með þátttöku í miðlægum samningum

  3. Með því að bjóða nýjar lausnir við áskorunum hins opinbera

Leiðir til að selja opinberum aðilum nýsköpun

Sprotum og öðrum nýskapandi fyrirtækjum eru nokkrar leiðir færar til að selja opinberum aðilum sínar lausnir.

Til hvers að selja hinu opinbera nýsköpun?

Opinberir aðilar eru ólíkir einkareknum fyrirtækjum að því leyti að þeim ber lagaleg skylda til að veita ákveðna þjónustu eða halda úti tiltekna starfsemi ásamt því að haga innkaupum samkvæmt opinberum innkaupalögum meðan einkarekin fyrirtæki starfa á frjálsum markaði á eigin forsendum. 

Að öðru leyti eiga opinberir aðilar og einkarekin fyrirtæki að koma fyrir augu sprota og nýskapandi fyrirtækja sem mögulegir viðskiptavinir. Það sem opinber viðskiptavinur hefur fram að færa sem kaupandi á nýsköpun er m.a.:

  • Stöðugleiki og áreiðanleiki
    Hið opinbera getur boðið upp á stöðugleika í formi langtíma samninga sem styðja nýsköpunarfyrirtæki við að festa sig í sessi og vaxa á markaði. Með slíkum samningum má styrkja tekjustreymi og draga úr fjárhagslegri óvissu sem styrkir seljendur í frekari markaðssókn.

  • Aukin markaðstækifæri
    Með þátttöku í miðlægum samningum eða með því að leysa opinbera áskorun öðlast seljandinn aðgengi að viðskiptasambandi gjá fleiri opinberum kaupendum líkt og heilbrigðisstofnunum, skólum eða sveitarfélögum. 

  • Jákvæð samfélagsleg áhrif
    Opinberir kaupendur leitast við að kaupa nýsköpun í auknum mæli til að bæta opinbera þjónustu við almenning og fara betur með skattfé almennings með auknu hagræði í rekstri. Með því að miða þróun lausna að opinberum áskorunum geta sprotar og nýskapandi fyrirtæki haft bein jákvæð samfélagsáhrif. 

  • Vaxandi eftirspurn fyrir nýjar lausnir
    Við vaxandi þjónustuþörf sem fylgir öldrun þjóðar og tengdri lýðfræðilegri þróun verða opinberir kaupendur að stóla á fyrirtæki sem sníða lausnir að þörfum hins opinbera. Framundan er stóraukin eftirspurn fyrir nýjum lausnum og hagnýtingu tækniframfara svo hinu opinbera takist að viðhalda þjónustustigi og mæta áskorunum framtíðar. 

Nánari upplýsingar um sölu á nýsköpun til hins opinbera veita sérfræðingar í nýsköpun og viðskiptaþróun hjá Fjársýslunni.