Rannsóknasjóður

Mat og úthlutun
Sjö fagráð munu fjalla um umsóknir styrk ársins. Umsækjendur velja fagráð sem þeir vilja að umsóknir séu metnar í og geta auk þess merkt við allt að þrjá undirflokka (fagsvið).
Fagráðin og fagsvið þeirra:
Raunvísindi og stærðfræði
Eðlisfræði, Efnafræði, Jarðvísindi, Stærðfræði
Verkfræði og tæknivísindi
Verkfræði, Tölvunarfræði, Tæknivísindi
Náttúruvísindi og umhverfisvísindi
Almenn líffræði og afleiddar greinar, Önnur náttúruvísindi (nema jarðvísindi)
Lífvísindi
Sameinda- og frumulíffræði og skyldar greinar, Grunngreinar læknisfræði, Dýrasjúkdómafræði
Klínískar rannsóknir og lýðheilsa
Lýðheilsa, Heilbrigðisvísindi, Klínísk/lífeðlisfræðileg sálfræði, Önnur læknavísindi
Félagsvísindi, lögfræði og menntavísindi
Félagsvísindi, Lögfræði og hagfræði, Menntavísindi, Sálfræði (önnur en klínísk og lífeðlisfræðileg)
Hugvísindi og listir
Heimspeki og trúarbragðafræði, Sagnfræði og fornleifafræði, Listir og hönnun, Tungumál og bókmenntir, Önnur hugvísindi
Matsferli umsókna
Gildar umsóknir eru metnar af viðeigandi fagráði sem leitar álits hjá tveimur eða fleiri ytri sérfræðingum fyrir umsóknir um nýliðunar-, verkefnis- og öndvegisstyrki. Almennt er ekki er leitað til ytri sérfræðinga um álit á nýdoktors- og doktorsnemaumsóknum. Fagráðið afgreiðir hverja umsókn með rökstuddri, skriflegri greinargerð og forgangsraðar umsóknum á grunni hins faglega mats.
Umsóknum sem berast fagráði er skipt niður á fagráðsmenn. Þrír lesarar innan fagráðsins eru skráðir á hverja umsókn en allir fagráðsmenn eru hvattir til að kynna sér allar umsóknir fagráðsins. Fyrsti lesari ber ábyrgð á að finna ytri sérfræðinga til að lesa umsóknina; að minnsta kosti tvo sérfræðinga fyrir umsóknir um verkefnis- og nýliðunarstyrki og að minnsta kosti þrjá fyrir umsóknir um öndvegisstyrki.
Almennt er ekki leitað álits ytri sérfræðinga á nýdoktors- og doktorsnemaumsóknum. Ytri sérfræðingar skulu vera starfandi utan Íslands. Við val á ytri sérfræðingum er stuðst við sérfræðiþekkingu viðkomandi og birtingalista. Fyrsti lesari umsóknar gengur úr skugga um að ekki sé um vanhæfi að ræða milli umsækjanda og ytri sérfræðings. Ytri sérfræðingur þarf síðan að staðfesta að ekki sé um vanhæfi að ræða.
Fagráðsmenn hvers fagráðs hittast á fagráðsfundum þar sem umsóknir eru kynntar og metnar. Á fagráðsfundum kynnir fyrsti lesari umsóknina, bakgrunn ytri sérfræðinga, álit þeirra og eigin umsögn. Að þessu loknu koma annar og þriðji lesari með sínar athugasemdir og fagráðið ræðir matið og gengur frá lokaumsögn. Umsögnin skal vera uppbyggileg og þannig úr garði gerð að umsækjandi hafi sem mest gagn af. Þegar fagráðið hefur rætt allar umsóknirnar er þeim forgangsraðað á grundvelli styrkleikaflokka. Einkunn er gefin í samræmi við heildarmat fagráðsins á umsókninni, sjá töflu:
Einkunn vegna forgangsröðunar
Flokkur | Umsögn |
|---|---|
A1 | Framúrskarandi umsókn, nánast án galla |
A2 | Mjög góð umsókn, léttvægir veikleikar |
A3 | Sterk umsókn, minniháttar veikleikar |
B | Umsókn með einn eða fleiri takmarkandi veikleika |
C | Slök umsókn með meiriháttar veikleika eða á ekki heima sjóðnum |
Útbúinn er listi yfir hverja styrktegund fyrir sig og umsóknum raðað í flokkana þrjá: A (A1-A3), B og C. Undirflokkur A1 er ætlaður afburðaumsóknum.
Eftir fagráðsfund
Formaður fagráðs staðfestir lokamat fagráðs og kynnir matsferli og niðurstöður fyrir stjórn Rannsóknasjóðs sem tekur ákvörðun um styrkveitingu. Umsagnir ytri sérfræðinga sem berast eftir fagráðsfundi en fyrir stjórnarfund eru ræddar af fagráðsmönnum í gegnum fjarfundabúnað. Einkunn umsóknar er staðfest eða breytt í samræmi við þá umræðu.
Sjá nánar í Handbók Rannsóknasjóðs: