Fara beint í efnið

Útsendir starfsmenn

Upplýsingaskylda

Lög um útsenda starfsmenn og skyldur erlendra þjónustuveitenda gilda um fyrirtæki (þjónustufyrirtæki) sem hefur staðfestu í öðru ríki innan EES, öðru EFTA-ríki eða Færeyjum og sendir starfsmann tímabundið hingað til lands í tengslum við veitingu þjónustu með eftirtöldum hætti:

  • Starfsmaður sendur til Íslands á vegum fyrirtækisins og starfar hann undir verkstjórn þess í tengslum við samning við notendafyrirtæki um veitingu þjónustu hér á landi.

  • Starfsmaður sendur til Íslands á vegum fyrirtækisins til starfsstöðvar eða fyrirtækis í eigu sömu fyrirtækjasamstæðu hér á landi.

  • Starfsmaður sendur á vegum fyrirtækis og er leigður gegn gjaldi til að sinna störfum á vinnustað notendafyrirtækis undir verkstjórn þess. Hér er átt við starfsmannaleigu og gilda þar af leiðandi líka gilda lög um starfsmannaleigur.

Þá er það skilyrði að ráðingarsamband sé á milli fyrirtækisins og starfsmannsins þann tíma sem hann starfar hér á landi.

Lögin kveða á um skyldu þjónustufyrirtækja, sem hyggst veita þjónustu hér á landi lengur en samtals tíu virka daga á hverjum tólf mánuðum um að veita Vinnueftirlitinu upplýsingar um, meðal annars, veitingu þjónustunnar og yfirlit yfir þá starfsmenn sem starfa munu hér á landi á vegum fyrirtækisins. Upplýsingarnar skulu veittar með rafrænum hætti.

Undanþága frá upplýsingaskyldu þjónustufyrirtækis er vegna þjónustu sem felur í sér sérhæfða samsetningu, uppsetningu, eftirlit eða viðgerð tækja og er ekki ætlað að vara lengur en fjórar vikur á hverjum tólf mánuðum. Í þeim tilvikum þarf fyrirtæki ekki að skrá sig.

  • Leiki vafi á um hvort þjónustufyrirtæki beri að tilkynna sig til Vinnueftirlitsins skal í öllum tilvikum haft samband við stofnunina til þess að fá ráðleggingar þar um.